„Við erum gangandi framtíðarmold“

Deila

- Auglýsing -

Ásta Fanney Sigurðardóttir hlaut ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2017 en ljóð hafa leitað á hana ansi lengi. Auk þess að sitja við skriftir ferðast hún um og flytur ljóð sín á hátíðum erlendis en slíkir viðburðir eru vel sóttir ytra enda ljóð farin að njóta sívaxandi vinsælda um allan heim og eru í miklum hávegum höfð.

Nýjasta ljóðabók þín, Eilífðarnón, kom út á síðasta ári. Þar er hringrás dags og nætur, tíminn og tengsl hans við líf manna eitt þemað. Hve lengi hefur þú skrifað ljóð? „Ég held að ljóð séu ekki eitthvað sem maður byrjar að skrifa, heldur eitthvað sem maður finnur fyrir,“ segir Ásta Fanney. „Þau fela sig undir tungunni löngu áður en þau komast niður á blaðið. Þetta er bara sía af einhverjum sannleika, hann getur verið súrrealískur eða abstrakt en samt sem áður sannleikur.“

 „Ég held að ljóð séu ekki eitthvað sem maður byrjar að skrifa, heldur eitthvað sem maður finnur fyrir.“

Þú hlaust ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2017. Breytti það einhverju fyrir þig að fá þau verðlaun? „Já, án efa, svona hvatning er svo mikilvæg. Ég man að ég sat í bíl og skrifaði ljóðið á einhverja kvittun eða miða eða eitthvað og það var hellidemba úti. Þetta var svona augnablik þar sem maður hugsar, hvað er ég að gera við líf mitt eða what am I doing with my life, eins og Styrmir Örn vinur minn rappar um á vappinu. Og einhvern veginn fær maður ábendingu um að maður sé á réttu róli. Ég er ekki að segja að viðurkenningar séu nauðsynlegar, en vísbendingarnar eru nytsamlegar til að sýna manni leiðina.“

Eilífðarnón

Mold mjög skemmtilegur efniviður

Í myndmáli þínu koma mold og jurtir mjög oft fyrir, allavega í Eilífðarnón, er einhver sérstök ástæða fyrir því? „Eilífðarnón inniheldur svo stóran hluta af öllum ytri og innri veruleika og hvernig er hægt að horfa á þetta draumsvið,“ segir hún. „Ég hugsa að jurtir séu bara eitt af mörgum táknum sem eiga við. Mér finnst mold mjög skemmtilegur efniviður, svo hlaðinn og þrunginn en samt svo mikið krakkadrullumall en þó svo skítugur eitthvað. Við erum eitthvað hrædd við moldina, mold inni hjá fólki er óhreinlæti og á fötum eitthvað sem er almennt litið niður á eða eitthvað sem þarf að losa sig við. Við viljum ekki hafa mold nema að hún sé á réttum stöðum, hjá pottablóminu! En þetta fyrirbæri er svo spennandi og villt en á sama tíma eitthvað sem vekur enga sérstaka athygli eða áhuga fólks og er í raun bara eitthvað „basic“.

Ég fór í reiðhöll um daginn í Kjósinni með Sigurði Atla vini mínum, þar spókuðum við okkur um með hatta og gengum um í þjappaðri mold. Ég hugsa að það hafi örugglega verið stórkostlegt að búa í torfbæ og hafa alltaf beinan aðgang að móður jörð undir fótunum, eitthvað svo alvöru við það. Allt verður að mold. Í raun er allt mold, nema bara verður að mold í framtíðinni. Við erum gangandi framtíðarmold.“

 „Ég hugsa að það hafi örugglega verið stórkostlegt að búa í torfbæ og hafa alltaf beinan aðgang að móður jörð undir fótunum, eitthvað svo alvöru við það.“

Birtuskilyrði, myrkur, mánaskin og sól virðast einnig vera þér hugleikin og þú notar þau gjarnan til að búa til andrúmsloft. Hvers vegna? „Birta er líka mjög áhugaverður efniviður. Birta gerir sjónina mögulega. Sjónarhorn fer líka eftir birtuskilyrðum, mætti segja. Frá hvaða stað birtan kemur ákvarðar hvers konar nálgun er hægt að temja sér. Hvernig hægt er að horfa á hluti og aðstæður. Ég hugsa að birtuskilyrðin vefi saman andrúmsloft til að gefa upp ákveðna mynd, myndin er kaldari í mánaskini og svo framvegis.“

Á leið til Lúxemborgar og Kanada

Ásta Fanney er ekki einhöm í listsköpun sinni. Auk þess að vera skáld er hún myndlistar- og tónlistarkona. Hún stundar allar þrjár listgreinarnar jöfnum höndum. Ertu með eitthvað nýtt í vinnslu? „Já, ég er að setja saman hljóðverk fyrir sýningu í Lúxemborg og að fara til Kanada í lok mars að frumsýna ljóðræna kvikmynd á hátíð þar ásamt því að lesa upp ljóð og fremja einn performans. Síðan í apríl fer ég aftur til New York og tek upp tónlist sem ég var að vinna þar í janúar síðastliðnum. Ég held að það sé líka samsýning í Berlín í maí og eitthvað alls konar. Kannski set ég saman eina leynibók og gef út undir borði í vor, við sjáum til,“ segir Ásta Fanney að lokum en áður hafa komið út eftir hana  ljóðakverið Herra Hjúkket og kverið Kaos Lexicon. Þess má geta að Eilífðarnón er í einstaklega fallegu bandi og þótt ekki eigi að dæma bók eftir kápunni er ekki hægt að neita því að lesandinn býst við miklu af svo fögrum grip.

 

 

 

- Advertisement -

Athugasemdir