„Við sem samfélag verðum að hætta að vera tilfinningalöggur á tilfinningar annars fólks“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Silja Björk Björnsdóttir lifði af sjálfsvígstilraun 21 árs að aldri og hefur valið að nota reynslu sína, áföllin í lífinu og sjúkdóminn sem er hluti af henni til að opna umræðuna um geðrænan vanda og geðheilbrigði. Hún segir fordóma og skömm fylgifiska andlegra veikinda, þó umræðan í dag sé mun opnari og ríkari af samkennd, en þegar hún veiktist fyrir 11 árum. Silja Björk situr í stjórn Geðhjálpar, þar sem hennar baráttumál er að opna umræðuna um sjálfsvíg, svipta skömminni af þeim og efla forvarnir, og segir hún að mikilvægt sé að ræða andlegt heilbrigði jafnt og líkamlegt heilbrigði.

Hér fyrir neðan er brot út viðtalinu sem lesa má í fullri lengd hér:
„Við geðsjúklingarnir erum langflest bara Jón og Gunna, venjulegt fólk sem á erfitt andlega séð“

Upplifði skömm á geðdeild

Silja Björk svaf tvo sólarhringa á gjörgæslu, og eftir samtal við sálfræðinginn sinn var hún í tíu daga á geðdeild. Segir hún að ekki sé hægt að neyða einstaklinga til að leggjast inn á geðdeild, nema með sviptingu sjálfræðis, en hún hafi á tilfinningunni að hún hefði ekki komist upp með að þræta.

„Þetta eru tilfinningar sem takast á, ég er veik og veit að ég er veik og þarf hjálp og veit að ég get fengið hana á geðdeildinni, en á sama tíma er ég ennþá með svo mikla fordóma og sjálf svo hrædd og skammaðist mín svo mikið að ég hugsaði með mér: „ég er ekki geðsjúklingur og á ekki heima á einhverri deild í spennitreyju og fóðruðum klefa og bara gleymdu því.“ En ég er búin að vera geðveik síðan 2009 og hef aldrei séð spennitreyju, mér hefur aldrei verið troðið inn í fóðraða klefa,“ segir hún og brosir, og við ræðum aðeins hvernig einstaklingar með geðsjúkdóma eru oft túlkaðir í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum.

„Vissulega eru til alls konar tilefni, en við geðsjúklingarnir erum langflest bara Jón og Gunna, venjulegt fólk sem á erfitt andlega séð. Við erum öll með líkamlega heilsu og öll fókuseruð á að borða rétt, mæta í ræktina, bursta tennurnar og drekka vatn, en við þurfum líka að rækta geðheilsuna, við þurfum líka að stunda geðrækt og það er eitthvað sem allir þurfa að gera hvort sem þeir eru veikir eða ekki, til að koma í veg fyrir að verða veikir. Nákvæmlega eins og þú hreyfir þig til að koma í veg fyrir stoðkerfisvandamál, og þú ákveður að reykja ekki til að koma í veg fyrir að fá lungnakrabbamein.“

Það er ekki geðheilbrigðiskerfinu að þakka að ég er enn á lífi, það er fjölskyldu minni og vinum að þakka að ég er ennþá hér í dag

Heilbrigðiskerfið grípur mann ekki

Silja Björk er gagnrýnin á heilbrigðiskerfið, ekki bara gagnvart sjúklingum heldur einnig aðstandendum. „Ekki nóg með að það sé víða pottur brotinn í heilbrigðiskerfinu og sjúklingar eiga oft erfitt uppdráttar. En aðstandendur geðsjúklinga eru ekki til í kerfinu. Ímyndaðu þér að vera móðir, frumburðurinn þinn 21 árs er næstum látinn af sjálfsvígi og þú færð aldrei að tala við neinn. Það kemur enginn og talar við þig, spyr þig hvernig þér líður, segir þér hvernig næstu skref eru að fara að vera. Bara ekki neitt og ekki einu sinni sálfræðingur sem tekur á móti þér og leyfir þér bara að gráta. Og það er ekki skrifað um sjálfsvíg í einhverjum uppeldisbókum!“

Silja Björk segir margt hafa brugðist þegar hún útskrifaðist af geðdeildinni, það gleymdist að senda lyfseðil fyrir hana í apótek, bréf til sálfræðings og gögn hennar týndust.

„Ég fell í einhverja glufu í kerfinu, þannig að ég fór að hugsa hvað það væri skrýtið að vera með heilt kerfi sem á að halda utan um alla þessa geðsjúklinga en það gengur ekki upp. Ég fór í fráhvörf af því lyfin voru ekki komin. Ef ég hefði verið krabbameinssjúklingur þá hefði það verið ólíðandi að lyfseðillinn minn gleymdist, að ég hefði ekki fengið neina eftirmeðferð. Þegar þú ert svona veikur á geði og þú getur ekki einu sinni ímyndað þér að standa upp og bursta í þér tennurnar þá ertu ekki að fara að standa upp og berjast við þetta bákn sem heilbrigðiskerfið er. Þú vilt ekki vera fyrir og taka pláss, þú vilt bara fara inn í sjálfan þig og vera í friði. Og það er ekki geðheilbrigðiskerfinu að þakka að ég er enn á lífi, það er fjölskyldu minni og vinum að þakka að ég er ennþá hér í dag.“

Við sem samfélag verðum að hætta að vera tilfinningalöggur á tilfinningar annars fólks. Við verðum að hætta að véfengja áföll annars fólks, véfengja upplifanir annars fólks, véfengja tilfinningar annars fólks, og gera lítið úr því þó að við upplifum það ekki þannig eða skiljum það ekki þannig. Við þurfum öll á meiri samkennd að halda

Hættum að vera tilfinningalöggur

Eftir veruna á geðdeild fór Silja Björk að velta fyrir sér umræðunni um geðsjúkdóma og hvernig talað var á ólíkan hátt um andleg veikindi og líkamleg. „Af hverju við tölum svona um krabbameinssjúklinga, vefjasjúklinga eða líkamlega sjúkdóma, en allt öðruvísi um geðsjúkdóma? Þú myndir aldrei segja við krabbameinssjúkling: „heyrðu hættu þessu bara, hefurðu einhverntíma bara pælt í því að vera ekki með krabbamein, láttu nú ekki svona!“ Þegar ég held fyrirlestra þá segi ég alltaf að við erum fædd með ákveðin gen og ákveðna tendensa, en ég get fengið lungnakrabbamein þó ég hafi aldrei reykt sígarettu, ég get líka orðið veik á geði þó ég hafi aldrei lent í áfalli. Áfall er víðtækt hugtak og mjög persónubundið. Bara sem dæmi þá varð köttur vinkonu minnar fyrir bíl og hún mætti í vinnu sama dag og ég skildi ekkert í því hvernig hún gat það. Mánuði seinna er keyrt yfir köttinn minn og ég gat ekki mætt í vinnuna í viku. Það gerir mig ekki að verri manneskju, hana að betri manneskju eða að hún sé sterkari en ég og ég sé einhver aumingi,“ segir Silja Björk og bætir við:

„Við sem samfélag verðum að hætta að vera tilfinningalöggur á tilfinningar annars fólks. Við verðum að hætta að véfengja áföll annars fólks, véfengja upplifanir annars fólks, véfengja tilfinningar annars fólks, og gera lítið úr því þó að við upplifum það ekki á sama hátt eða skiljum það ekki. Við þurfum öll á meiri samkennd að halda.“

Á www.39.is getur þú skrifað undir áskorun þess efnis að setja geðheilsu í forgang í samfélaginu.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna, þar síminn 552-2218 opinn allan sólarhringinn og vefsíðan www.pieta.is.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -