„Við settumst bara við eldhúsborðið þegar við komum heim og settum niður á blað jarðarförina hans“

Deila

- Auglýsing -

Chanel-drottninguna Grétu Boða þekkja margir enda hefur hún í mörg ár kynnt vörurnar fyrir Íslendingum. En Gréta er einnig afbragðs knapi, reiðkennari, hárkollu- og förðunarmeistari og vinnur auk þess við höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. Hún er með eindæmum lífsglöð og kát enda segist hún hafa unnið lottóvinninginn þegar eiginmaður hennar lifði af krabbamein sem þau töldu að yrði hans síðasta. Gréta prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.

Í viðtalinu ræðir Gréta meðal annars hvernig hún leiddist út í snyrtivörubransann.

„Það var eiginlega svolítið óvart. Ég fór út í snyrtivörubransann eftir að mér var sagt upp á Stöð 2 í árslok 1991. Eftir að ég hætti þar kom upp spurningin hvað ég ætlaði þá að fara að gera,“ útskýrir Gréta. Hún hefur verið lengi í bransanum og segist ekki tíma að hætta. „Ég tími ekki að hætta þessu á meðan ég get og þeir vilja hafa mig. Ég er eini make up artistinn þeirra á Íslandi, það er ástæðan fyrir því að ég er kölluð Chanel-drottningin,“ segir hún skellihlæjandi.

Myndir / Hákon Davíð

Gréta ræðir einnig veikindi eiginmanns síns í viðtalinu.

Gréta kynntist eiginmanni sínum, Gauki í gegnum hestamennskuna en árið 1988 greindist hann með eitlakrabbamein sem hún segir eðlilega hafa verið mikið áfall, enda var krabbamein eiginlega dauðadómur á þessum tíma.

„Ég sótti hann á spítalann eftir læknisheimsókn og hann kom út í bíl og sagðist vera með krabbamein. Það var ekkert verið að kalla mig, konuna hans, sérstaklega á fund með læknunum. Þetta var eitlakrabbamein, Hodgins, sem er frekar auðlæknanlegt í dag en var það ekki þá. Svo við settumst bara við eldhúsborðið þegar við komum heim og settum niður á blað jarðarförina hans. Maður gerði bara ráð fyrir því versta.

„Við settumst bara við eldhúsborðið þegar við komum heim og settum niður á blað jarðarförina hans.“

Sem betur fer fór þetta nú vel en hann fór í gegnum lyfja- og geislameðferð og allan pakkann, sem var auðvitað erfitt og hafði mikil áhrif á heilsuna hans. Svo ég var og hef verið síðan eina fyrirvinnan en maður bara vann og pældi ekkert í því. Það var auðvitað ekkert annað í stöðunni með þrjú ung börn. Þetta bara þurfti að gera. En lottóvinningurinn var auðvitað að Gaukur skyldi lifa.“

Nældu þér í eintak af nýjustu Vikunni. 

Kaupa blað í vefverslun

- Advertisement -

Athugasemdir