Föstudagur 29. mars, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Vilja sýna fólki hvað það er skemmtilegt að elda vegan-mat

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Grænkerinn Þórdís Ólöf Sigurjónsdóttir deilir hér nokkur uppskriftum að dásamlegum vegan-réttum.

Þórdís heldur úti vefsíðunni graenkerar.is þar sem hún deilir með lesendum dásemdar vegan-uppskriftum sem ljósmyndarinn og kærasti hennar, Aron Gauti Sigurðar, myndar af mikilli snilld.

Þau gerðust bæði vegan fyrir þremur árum eftir að hafa horft á heimildamyndina Cowspiracy og hafa aldrei litið til baka. „Við teljum að vegan-mataræði sé besta og jafnframt einfaldasta leiðin til að stuðla að betri heimi fyrir okkur, dýrin og jörðina. Eftir að við breyttum um mataræði tók við tímabil þar sem við áttum í smávandræðum með hvað við gætum borðað. Það tímabil stóð sem betur fer stutt yfir og við tók heill heimur af uppskriftum, mat og fróðleik sem kemur okkur enn á óvart. Okkur finnst plöntumiðað fæði frábært í alla staði, hvort sem horft er til bragðlaukanna eða til heilsu, umhverfis og dýra.“

Með vefsíðunni vilja þau sýna fólki hvað það er auðvelt og skemmtilegt að elda vegan-mat og að grænkerar geti vel verið sælkerar.

Hvar lærðir þú að elda?

Þegar ég var 10 ára fékk ég það verkefni að elda kvöldmat einu sinni í viku. Ég eldaði einfalda heimilisrétti til að byrja með og fékk hjálp frá foreldrum mínum eftir þörfum. Þetta gaf mér gríðarlegt sjálfstraust í eldhúsinu og fljótlega var ég byrjuð að biðja um að fá að elda oftar og prófa mig áfram með nýja rétti.

Hver er fyrsti rétturinn sem þú lærðir að búa til?

- Auglýsing -

Ég hugsa að fyrsti rétturinn hafi verið grjónagrautur. Það var uppáhaldsmaturinn minn og í raun er mjög einfalt að elda hann, svo lengi sem maður fylgist vel með og hrærir reglulega í grautnum.

Höfðar einhver matreiðsluhefð sérstaklega til þín?

Ég er mjög heilluð af allri heilsusamlegri matargerð sem er laus við dýraafurðir. Einnig höfðar hráfæði sérstaklega til mín. Ég hef ekki enn prófað að borða eingöngu hráfæði en mun ábyggilega gera það einhvern tímann. Þangað til reyni ég að innlima hráfæðisrétti í mataræðið mitt eftir bestu getu.

- Auglýsing -

Verstu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?

Einu sinni var ég að útbúa sætkartöflusúpu og setti hana í blandara til að mauka. Það er víst ekki sniðugt að setja heitan vökva í blandara því lokið þaut af og appelsínugult grænmetismauk skvettist út um allt eldhúsið og upp í loft. Ég held að það megi enn finna leifar af þessu slysi, ef vel er gáð.

Hver er uppáhaldsmatreiðslubókin þín?

Mér þykir alltaf vænt um gömlu, snjáðu möppuna hennar mömmu þar sem hún hefur safnað saman öllum sínum uppáhaldsuppskriftum frá vinum og ættingjum. Ég kíki enn í þessa möppu til að fá hugmyndir og vegan-væði jafnvel rétti sem þar er að finna.

„Það var nokkuð stór áskorun að gerast vegan, sérstaklega þar sem ég varð vegan á einu kvöldi og þurfti skyndilega að endurhugsa alla mína matseld.“

Hver er stærsta áskorun sem þú hefur mætt í eldamennsku?

Það var nokkuð stór áskorun að gerast vegan, sérstaklega þar sem ég varð vegan á einu kvöldi og þurfti skyndilega að endurhugsa alla mína matseld. Þessi áskorun var þó, eftir á að hyggja, talsvert minni en ég hafði búist við og á skömmum tíma var ég búin að gjörbreyta um lífsstíl án þess að sakna neins.

Önnur áskorun sem ég mætti í eldamennsku var sú að byrja að skrifa niður uppskriftirnar mínar. Ég lærði aldrei að elda eftir uppskriftum heldur lagði meiri áherslu á að prófa mig áfram og að smakka matinn til. Það var því mikil breyting að opna uppskriftasíðuna og þurfa skyndilega að mæla hráefni og skrá niður.

Kasjúhnetupiparostur

Mynd / Hallur Karlsson

1,5 dl kasjúhnetur
2 dl sykurlaus plöntumjólk, t.d. sojamjólk
1/2 tsk. agar-agar
1,5 msk. sítrónusafi
1/2 hvítlauksrif
1/2 dl kókosolía
1/4 tsk. salt
1/2 tsk. hlynsíróp
1 msk. næringarger
svartur pipar eftir smekk

Leggið kasjúhnetur í bleyti í 3 klst. eða yfir nótt. Þessu má þó sleppa ef notaður er öflugur blandari.

Setjið plöntumjólk og agar-agar í pott og hitið að suðu. Setjið öll hráefnin í blandara og blandið þar til silkimjúkt. Smakkið til og bætið við sítrónusafa, salti og svörtum pipar eftir smekk.

Setjið blönduna loks í sílíkonmót eða lítið smelluform og geymið í kæli þar til osturinn hefur stífnað.  Eftir að osturinn stífnar er fallegt að þekja hann með muldum, svörtum pipar.

Chili-sulta Jennýar

5 stk. chili-pipar
1 rauð paprika
2 appelsínugular paprikur
50 ml eplaedik
100 g hrásykur
1/2 tsk. agar-agar

Fræhreinsið paprikurnar en ekki hreinsa fræin úr chili-ávöxtunum. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél og blandið þar til þau hafa maukast vel.

Setjið blönduna í pott og sjóðið í 10 mín. Hellið loks sultunni í hreinar krukkur.

Pítsa með indversku ívafi
2 pítsubotnar

Mynd / Hallur Karlsson

pítsudeig, keypt eða heimagert
1 krukka grænt vegan-pestó (t.d. frá Himneskt)
1 eggaldin
1/2 askja sveppir
1/2 rauðlaukur
1 dolla Oatly på Mackan-rjómaostur
1 dós kjúklingabaunir
1/2 msk. garam masala
1 tsk. hlynsíróp
salt og pipar

Kveikið á ofninum og stillið á 180°C. Skerið eggaldin í þunnar sneiðar og steikið á pönnu upp úr olíu. Kryddið sneiðarnar með salti og pipar og snúið þeim við svo þær brúnist á báðum hliðum.

Hellið vatninu af kjúklingabaununum og skolið þær. Steikið kjúklingabaunirnar á pönnu upp úr olíu ásamt garam masala og hlynsírópi. Bætið við salti og pipar eftir smekk. Fletjið út pítsudeig og myndið tvo botna.

Smyrjið botnana með grænu pestói. Raðið eggaldinsneiðunum ofan á botnana ásamt skornum sveppum og rauðlauk. Setjið stórar klípur af Oatly-rjómaostinum ofan á og dreifið loks kjúklingabaununum yfir.

Bakið pítsurnar í 10-15 mín., eða þar til botninn hefur bakast og osturinn brúnast.

Súkkulaðihrákaka

Mynd / Hallur Karlsson

8 stk. Medjool-döðlur (um 2 dl)
2 dl kókosflögur
2 dl möndlur
2 msk. kakóduft
1 tsk. vanilludropar

Setjið kókosflögur og möndlur í matvinnsluvél og blandið þar til úr verður grófgerð mylsna. Hreinsið steinana úr döðlunum og setjið þær út í matvinnsluvélina ásamt hinum hráefnunum.

Blandið þar til hægt er að klípa saman deigið. Klæðið botninn á 22 cm smelluformi með smjörpappír og þrýstið deiginu í botninn. Geymið í kæli á meðan fyllingin er útbúin.

Fylling

2 lítil avókadó
1 banani
1 dl möndlusmjör
2 dl kókosmjólk í dós, þykki hlutinn
2 dl bragð- og lyktarlaus kókosolía
1 msk. kakósmjör (má nota kókosolíu í staðinn)
1 dl hlynsíróp
4 msk. kakóduft
1 tsk. vanilludropar
salt eftir smekk

Bræðið kókosolíuna og kakósmjörið á lágum hita. Setjið öll hráefnin í blender og blandið þar til silkimjúkt. Hellið fyllingunni yfir botninn og geymið í frysti þar til kakan er frosin.

Losið kökuna úr smelluforminu og færið hana yfir á kökudisk. Best er að láta kökuna þiðna í ísskáp og bera hana fram kalda ásamt ferskum berjum og vegan-rjóma.

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -