Vill vita hvað varð um hundinn Mola – „Eins og hann hafi gufað upp“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Kristín Auðbjörnsdóttir hefur verið virk á samfélagsmiðlum undanfarið þar sem hún vekur athygli á því að hundurinn hennar, hinn fjögurra ára Moli af tegundinni chihuahua, sé týndur. Moli týndist 19. október og hefur hann ekkert sést síðan þá. Kristín segir Mola vera sárt saknað og til að bæta gráu ofan á svart þá bætir Sjóvá Kristínu ekki tjónið þrátt fyrir að hún hafi verið með hann líf- og sjúkdómatryggðan hjá þeim.

Kristín og fjölskylda hennar fluttu í vor frá Eskifirði í Hafnarfjörðinn. Kristín segir það hafa gengið erfiðlega að finna húsnæði sem leyfir hundahald og af þeim sökum fékk Moli aukaheimili hjá vinkonu hennar sem býr líka í Hafnarfirði. „Það hefur verið heimilið hans síðan við fluttum í vor og gengið mjög vel,“ útskýrir Kristín.

Moli týndist 19. október.

Hún fékk þær fréttir þann 19. október að Moli hefði fælst í burtu og væri týndur. „Þetta óheppilega atvik gerðist og þá fór þessi atburðarás af stað.“

Moli týndist frá Bjarkavöllum í Hafnarfirði. „Þaðan hljóp hann upp að líkamsræktarstöðinni World Class, svo að og meðfram Reykjanesbrautinni, því næst fór hann yfir brautina og í átt að golfvellinum,“ segir Kristín. Hún segir margt fólk hafa séð Mola hlaupa þessa leið og þannig hafi verið hægt að rekja ferðir hans en að hann hafi sloppið óslasaður yfir Reykjanesbrautina. „Ótrúlegt en satt.“

Kristín segir fólk hafa reynt að lokka Mola til sín þegar það kom auga á hann en það hafi ekki gengið. „Svo sést Moli nálægt bátaskýlunum hjá Holtunum. Eftir það er bara eins og hann hafi gufað upp,“ segir Kristín.

Kristín er undrandi og skilur ekki hvað varð um hundinn. „Við höfum leitað dag og nótt, alls staðar og elt allar vísbendingar. Það var frábært fólk sem tók þátt í leitinni og á tímabili voru örugglega 50 til 100 manns að leita með okkur. Bæði í skipulagðri leit og líka í sinni göngu.“ Kristín tekur fram að hún sé öllum þeim sem hjálpuðu til við leitina að Mola afar þakklát. „Öll þessi hjálp sem við fengum er ómetanleg. Ég var mjög hissa þegar tugir manns mættu til að hjálpa okkur að leita.“

Kristín segir að þau hafa reynt allt til að finna Mola. „Við vorum virk á öllum samfélagsmiðlum til að segja frá því að Moli væri týndur, tilkynntum málið til lögreglunnar og létum vita, höfðum samband við öll helstu fyrirtækin í nágrenninu og báðum starfsfólk um að hafa augun opin, buðum fram fundarlaun og könnuðum hvort væri hægt að fá leitarhunda okkur til aðstoðar en komumst að því að þeir eru ekki þjálfaðir til að leita að öðrum hundum,“ telur Kristín upp. „Einnig var drónum flogið yfir stór svæði og hraunið í kringum leitarsvæðið fínkembt.“

„Núna veltir maður fyrir sér hvort hann gæti mögulega verið inni hjá einhverjum.“

Hún segir erfitt að vita ekki hvað varð um Mola. „Ef það varð slys myndi ég vilja vita það. Ef hann varð til dæmis fyrir bíl ætti einhver að hafa séð eitthvað. Mér finnst bara svo skrítið að hann hafi ekki fundist, hvort sem hann er lífs eða liðinn. Núna veltir maður fyrir sér hvort hann gæti mögulega verið inni hjá einhverjum.“

Mola er sárt saknað á heimili Kristínar.

Spurð út í hvort hana gruni hver gæti þá haft Mola inni segir Kristín: „Nei, í rauninni ekki. Þessi möguleiki er bara opinn eins og hver annar. Kannski gæti hann líka hafa lokast einhvers staðar inni. Maður botnar bara ekkert í þessu og það er erfitt að sætta sig við þessi málalok.“

„Við erum enn að leita að honum…“

Kristín vill minna á að Moli er enn þá týndur og hvetur fólk til að hafa samband við sig ef það hefur einhverja hugmynd um hvar Moli er niðurkominn. „Við erum enn að leita að honum en miðað við það hvað er búið að leita ítarlega og mikið er voðalega lítið annað sem við getum gert nema að vona að einhver hafi samband.“

Mikilvægt að dýraspítalar skanni örmerki dýra

Moli er með örmerki og Kristín hefur tilkynnt hann týndan til Dýraauðkennis sem er miðlægur gagnagrunnur þar sem hægt er að fletta upp örmerkjum gæludýra. Þá hefur hún einnig haft samband við nokkra dýraspítala til að láta vita.

„Það mætti líka skoða þessi örmerkjamál betur, að mínu mati. Í flest þau skipti sem ég hef farið með Mola til dýralæknis hefur hann ekki verið skannaður, maður er bara beðinn um nafn. Það var reyndar fyrir austan en ég vona að þetta sé öðruvísi hér í bænum og að dýraspítalar séu virkir í að skanna dýr sem koma inn.“

Sjóvá bætir ekki tjónið

Kristín var með Mola líf- og sjúkdómatryggðan hjá Sjóvá. Hún segir það hafa komið sér á óvart þegar hún fékk þær upplýsingar að hún fengi tjónið ekki bætt.

Kristín hvetur fólk til að gera samanburð á milli tryggingafélaga.

„Ég er með allar mínar tryggingar hjá Sjóvá þannig að það lá beinast við að tryggja Mola þar. Núna nýlega fór ég svo að kynna mér málið hjá þeim þar sem Moli hefur ekki fundist en þá kom í ljós að þau bæta ekki svona tjón. Þegar ég fór inn á síðuna hjá þeim stóð það hvergi. Þær upplýsingar koma bara fram í 13. grein í skilmálum þeirra en þar segir að sé hundi stolið eða hann strjúki þá fáist það ekki bætt. Mér persónulega finnst það ekki boðlegt – þegar maður fulltryggir dýrin sín gengur maður út frá því að allt það mikilvægasta sé inni í því,“ segir Kristín.

Eftir þessa uppgötvun, um að Sjóvá bæti henni ekki tjónið, gerði hún samanburð á gæludýratryggingum og kveðst hafa komist að því að önnur tryggingafélög hefðu bætt henni þetta tjón sem hún segir þó frekar vera tilfinningalegt en fjárhagslegt.

„Þegar maður fulltryggir dýrin sín gengur maður út frá því að allt það mikilvægasta sé inni í því.“

„Ég gerði mér bara ekki grein fyrir að það gæti verið svona mikill munur á gæludýratryggingunum milli tryggingafélaga. Hjá Sjóvá þurfti ég að grafa þessar upplýsingar upp á meðan hin félögin eru með þetta í aðaltextanum hjá sér eins og það ætti að vera, þetta er ömurlegt tjón.“

Kristín hvetur fólk til að kynna sér skilmála tryggingarfélaga vel þegar það kaupir tryggingar fyrir gæludýrin sín. „Ég kem allaveganna til með að gera það næst.“

Myndir / Hákon Davíð

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Askja er fundin

Eigendur Öskju, svartrar labradortíkur, sem hljóp frá eigendum sínum í Mosfellsdalnum leita nú hennar logandi ljósi eftir...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -