2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Vinsælustu gullmolar Hermès

  Handtöskurnar frá tískuhúsi Hermès eru meðal þeirra allra flottustu og flestar kosta álíka mikið og lítill fólksbíll. En augun eru tollfrjáls og það má njóta þess að horfa á þær. Hér á eftir fer listi yfir þær vinsælustu, raðað í röð frá þeirri söluhæstu til hinnar minnst eftirsóttu.

   

  Hermès Birkin.

  Þessi taska var hönnuð fyrir bresku leik- og söngkonuna Jane Birkin. Á sjöunda áratug síðustu aldar þótti hún kynþokkinn holdi klæddur og var vinsæl fyrirsæta. Hún samdi eigin lög og söng en er sennilega þekktust fyrir stunurnar og hása röddina í lagi Serge Gainsbourge, Je t‘aime. Fyrir tilviljun sátu þau saman í flugvél hún og aðalhönnuður Hermès og Jane sagði honum að sér fyndist Kelly-taskan ósköp falleg en hún væri allt of lítil og stíf til að hægt væri að nota hana hversdags. Hönnuðurinn hlustaði og hófst handa við að búa til aðgengilega tösku fyrir konur á ferð og flugi sem líka vilja vera „chic“.

  Til varð Birkin-taskan og síðan þá hafa ótal konur látið sig dreyma um að eignast eina slíka og þær sem efni hafa á kaupa sumar fleiri en eina, enda til í mörgum mismunandi litum. Það tekur handverksmenn tískuhússins milli 15 og 20 klukkustundir að búa til eina Birkin. Þær eru handsaumaðar frá a-ö og málmurinn fyrsta flokks. Til eru hátíðaútgáfur úr krókódílaleðri með hvítagulllásum eða gulllásum, stundum demantaskreyttum. Ein slík kostar á borð við góða innborgun í fjögurra herbergja íbúð á Íslandi.

  AUGLÝSING


  Hermès Kelly.

  Rekja má útlit Kelly-töskunnar allt aftur til ársins 1892 þegar Hermès framleiddi stóra tösku ætlaða til nota á ferðlögum. Sú hugmynd og það útlit var síðan endurbætt og minnkað þegar ákveðið var að hanna tösku fyrir brúðkaup Grace Kelly og Rainer fursta af Mónakó. Leikkona og furstafrúin varð svo hrifin að hún bar oftast einhverja gerð Kelly-töskunnar upp frá því. Birkin og Kelly líkjast hvor annarri í útliti en sú síðarnefnda almennt minni og meira kassalaga. Lásinn og lokið eru einnig svolítið frábrugðin. Það tekur um það bil 18 klukkustundir að framleiða eina Kelly-tösku en þær eru ýmist með utanáliggjandi saumum eða földum og gerðirnar heita The Sellier og The Retourne.

  Hermès Constance.

  Þriðja á vinsældalista Hermès er Constance. Hún er nútímalegri að allri gerð og auðvelt að opna hana og loka. Stærðin er þægileg og hentar vel þegar ekki þarf að bera annað með sér en varalit, seðlaveski og kannski púðurdós. Hún er með axlaról og þykir mjög flott að setja ólina yfir höfuðið og láta hana liggja þvert yfir brjóstið. Constance var hönnuð árið 1967 og H-ið í lásnum gerir hana auðþekkjanlega. Þetta var uppáhaldstaska Jackie Kennedy.

  Hermès Evelyne.

  Þetta er einstaklega falleg taska með mjúkum línum og H-ið er gatað framan á hana og gefur henni sterkan svip. Henni er lokað með mjórri leðuról og lás, sérstaklega stílhreint og flott.  Evelyne er ódýrasta handtaska tískuhússins en verðið er í kringum 500.000 kr. Evelyne varð gerð til árið 1978 og byggir á tösku sem hönnuð var á nítjándu öld hjá fyrirtækinu fyrir hestasveina til að hafa á öxlinni og geyma í tæki og tól til að kemba hestum. Þessi taska hefur einnig þá sérstöðu að bæði karlar og konur nota hana.

  Hermès Herbag Zip

  Á níunda áratugnum setti tískuhúsið á markað ódýrari útgáfu af Birkin og Kelly. Tösku sem sameinaði útlit beggja en var þó einstök og auðþekkt sem ný hönnun. Þetta var gert til að gera fleiri konum kleift að eignast þessar eftirsóttu töskur en Herbag er úr ódýrari efnum og ekki eins flókin að gerð svo ekki tekur eins langan tíma að búa hana til. Hún hefur líka verið kölluð litla systir Kelly. Árið 1995 var hætt að selja Herbag en fyrir tíu árum kom ný útgáfa Herbag Zip. Þessir dýrgripir kosta bara eitthvað á bilinu 100.000-300.000 kr., akkúrat fínt verð fyrir fátæklingana sem ekki geta einu sinni látið sig dreyma um stóru systurnar.

  Hermès Halzan.

  Hér er komin Constance með snúningi ef svo má segja. Halzan sást fyrst á pöllunum árið 2014 og sló í gegn. Hún mun örugglega ávinna sér svipaðan sess og Birkin og Kelly þegar fram líða stundir. Hægt er að bera töskuna á annarri öxlinni, láta ólina yfir þveran líkamann, halda á henni með handfangi eða grípa utan um hana og bera eins og umslag.

  Hermès Bolide.

  Bolide var hönnuð árið 1923 og var fyrsta handtaskan á markaðnum sem lokað var með rennilás ofan á. Hún var endurgerð með nútímalegri brag árið 1982 og varð umsvifalaust ótal öðrum hönnuðum fyrirmynd að eigin útgáfum af töskum með rennilás. Hún er mjög þægileg á ferðalögum og rennilásinn veitir ákveðið öryggi fyrir þjófum. Hægt er að koma iPad fyrir ofan í henni og minni gerðinni af fartölvum í þeim stærstu svo hún hentar mjög vel önnum köfnum útivinnandi konum. Þessi taska kostar aðeins um eina milljón.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is