Viss um að framtíðin sé björt

Deila

- Auglýsing -

Þegar Embla Sigurgeirsdóttir hóf nám í leirlist fann hún fljótlega fyrir ástríðufullum áhuga og það varð byrjun á nýju ævintýri. Hún vinnur mikið með yfirborð leirsins, skapar þar fíngerð og oft flókin mynstur. Sjálf er hún forfallin kósímanneskja og margt af því sem hún skapar ber það sannarlega með sér.

Embla lauk BA-prófi í Contemporary Applied Arts árið 2014 frá háskólanum í Cumbria. Áður hafði hún lært leirlist í Myndlistarskóla Reykjavíkur í tvö ár. Verkin þín hafa mjög sterkt svipmót og ljóskerin hafa yfir sér mjög fallegan ævintýrablæ. Hvaðan færðu innblástur? „Hönnun mín hefur lengstum mótast út frá efninu sjálfu sem ég vinn úr, eiginleikum þess og takmörkunum,“ segir Embla. „Ég nota aðallega postulín í mínum verkum og stíla þá inn á eiginleika þess, það er fínlegt, gagnsætt, harðgert og hefur fallegan hvítan lit. Ég hef mest notað sérstaka hnífa til að skera í efnið og búa til mynstur í það en einnig til þess að þynna það þannig að ljós berist auðveldlega í gegn.

Fínleikinn í efninu leyfir mér síðan að vinna mjög nákvæmt og mynstrin hafa þróast með tímanum og ég geng alltaf lengra í skurðinum, sker meira út, betur og dýpra. Ljóskerin eru mér mjög kær en ég er forfallin kósímanneskja og hef alltaf kveikt á mörgum kertum á mínu heimili, sama hver árstíminn er. Þá hef ég þróað mynstrin þannig að ljósið berist fallega í gegn og hef síðan yfirfært þau mynstur á vasa og annað.“

Alltaf verið mjög nákvæm

Ljóskerin eru einmitt einstaklega nostursamlega unnin og á þeim eru göt sem áhorfandinn varla tekur eftir fyrr en kveikt er á þeim. Hér hlýtur að liggja mikil nákvæmnisvinna að baki. Er þetta allt gert í höndunum? „Já, ég vinn allt í höndunum, ég hef alltaf verið mjög nákvæm og laðast að því að nostra við smáatriði sem kannski enginn tekur eftir nema ég en gerir það að verkum að munirnir mínir verða mjög fínlega unnir og útfærslan kannski oft aðeins flóknari en svo að hagkvæmt sé. En ég á mjög erfitt með að koma mér út úr þessari ofurnákvæmni við útfærslu smáatriðanna, en að sama skapi er það einmitt einkenni mitt og minna verka.

 „Ljóskerin eru mér mjög kær en ég er forfallin kósímanneskja og hef alltaf kveikt á mörgum kertum á mínu heimili, sama hver árstíminn er.“

Götin á ljóskerunum hafa þróast með tímanum þar sem að ég hef þurft að læra vel inn á burðarþol efnisins og eftir því sem ég læri það betur get ég gengið lengra í skurðinum og skorið meira og dýpra í hvert skipti. Postulín er afar viðkvæmt á hráu stigi og þarf þess vegna að vinna það með mikilli varfærni en síðan verður það níðsterkt eftir brennslu. Það getur sviðið ansi sárt þegar hlutir hrynja í sundur í höndunum á mér, þá sérstaklega eftir mikla vinnu með stærri hlutina, en ég er komin á þann stað í þessu að ég lendi sjaldan, sem betur fer, í því að hlutir brotni hjá mér í ferlinu.“

Á ferð um Indland

Þú hefur sent frá þér nokkrar vörulínur sem hver og ein hefur sitt svipmót. Eru fleiri væntanlegar? „Eins og er þá er ég meira að bæta vörum við línurnar sem fyrir eru, koma með önnur form og breikka úrvalið en það er alltaf eitthvað nýtt að þróast og ýmislegt í vinnslu sem þarf kannski aðeins meiri tíma áður en sagt er frá,“ segir Embla.

Nýlega ferðaðist Embla til Indlands og heillaðist alveg af því stórbrotna landi. „Ég var svo heppin að kynnast því landi núna í janúar með stjúpmóður minni en hún hafði ferðast þar um með föður mínum fyrir tveimur árum og alltaf langað til að fara aftur og ákvað þá í þetta sinn að bjóða mér með.

Við vorum í suðvesturhluta Indands í Kerala-héraði og skiptum tíma okkar á milli borgarinnar Cochin annars vegar og strandarinnar við Varkala hins vegar. Í Cochin nutum við gestrisni Þóru Bergnýjar en hún á þar og rekur hótelið Secret Garden sem ég mæli með að fólk kynni sér hafi það hug á að ferðast á þessum slóðum.

Við dvöldum síðan meirihluta tímans í strandbænum Varkala, sem er nokkru sunnar, þar gistum við í jógaskóla sem vinur okkar vinnur í. Hann hefur lagt leið sína til Íslands síðastliðin sumur og verið með jóganámskeið og á þeim tíma hefur myndast á milli okkar góð vinátta. Þarna fengum við að fylgjast með nemendum og fara í þá tíma sem við vildum, þetta var mikið letilíf, við vörðum tíma okkar í jóga, nuddi og að flatmaga á ströndinni. Það var yndislegt að fá að komast burt úr amstri hversdagslífsins og njóta hitans og kynnast íbúum landsins sem mættu manni ætíð með stærsta brosi og mestu vináttu sem ég hef kynnst. Þetta stytti líka veturinn og skammdegið verulega og ég man hvað það var gott að upplifa hversu bjart var orðið á Íslandi þegar við komum heim því að vetrarmyrkrið var enn þá í algleymingi þegar við fórum.“

Ævintýri í Cumbria

Þú laukst BA-prófi frá háskólanum í Cumbria. Hvers vegna varð hann fyrir valinu og hvernig var að búa í þessu sérstæða héraði á Englandi? „Ég tók tveggja ára nám í keramik hér í Myndlistarskólanum í Reykjavík sem síðan bauð nemendum upp á, í samstarfi við erlenda skóla, að ljúka BA-gráðu í faginu. Tveir skólar komu til greina, annar var í Bornholm í Danmörku en hinn í Cumbria í Englandi og þar sem ég hef ágætis tengingu við það land valdi ég að fara þangað en við vorum fimm úr náminu hér heima sem fórum saman.

 „Þetta var mikið ævintýri og mjög mikilvægt skef að taka í náminu þar sem það kenndi manni margt að læra í landi þar sem að keramik á sér jafnlanga og merkilega sögu og England hefur, ólíkt hér á Íslandi þar sem saga fagsins er enn þá fremur ung.“

Þetta var mikið ævintýri og mjög mikilvægt skef að taka í náminu þar sem það kenndi manni margt að læra í landi þar sem að keramik á sér jafnlanga og merkilega sögu og England hefur, ólíkt hér á Íslandi þar sem saga fagsins er enn fremur ung. Nálgun á námið og áherslurnar voru mjög ólíkar og það gerði manni gott að hrista svona upp í hlutunum og glíma við og finna fyrir öðrum áherslum.

Við nýttum okkur mikið lestakerfið þarna og ódýru miðana sem við fengum í gegnum nemendakortið okkar og heimsóttum borgirnar í kring um helgar og ferðuðumst um þetta fallega hérað en þar er til dæmis þjóðgarðurinn Lake District sem er talinn einn fallegasti staður Englands.“

„Vonandi brotnar ekki of mikið“

Er eitthvað áhugavert fram undan hjá þér? „Það eru spennandi verkefni fram undan sem eru ekki farin af stað heldur eru enn þá að gerjast og mótast í höfði mér og á vinnustofunni,“ segir hún. „Þar mætti nefna mjög spennandi samstarf sem er enn í skoðun og ekki tímabært að segja nánar frá alveg strax en vonandi bráðlega. Síðan fæ ég félaga á vinnustofuna mína, en ég tók þá stóru ákvörðun eftir langa umhugsun að fá mér hund. Hann myndi þá fylgja mér í vinnuna og verða svona vinnustofuvoffi, og fá mig þá til að standa upp reglulega, koma mér út í göngutúra og fá mig til að hugsa um eitthvað annað en vinnu.

 „Það verður annars áhugavert að reyna að koma einhverju í verk með hressan hvolp við hlið sér á keramikverkstæði en vonandi brotnar ekki of mikið í hamaganginum.“

Systir mín er ræktandinn og er með tegundina whippet sem eru svo ofurljúfir og góðir hundar. Hann á eftir að veita mér vel þeginn félagsskap á löngum vinnudögum í sumar. Það verður annars áhugavert að reyna að koma einhverju í verk með hressan hvolp við hlið sér á keramikverkstæði en vonandi brotnar ekki of mikið í hamaganginum.

Núverandi ástand í heiminum hefur haft veruleg áhrif á sjálfstætt starfandi listamenn eins og mig og framtíðin er í sjálfu sér mjög óljós, sérstaklega þar sem ferðamenn hafa verið mínir helstu viðskiptavinir. En þá verður maður að finna nýjar leiðir og svona aðstæður fá mann til að hugsa hlutina upp á nýtt og fara kannski inn á ótroðnar slóðir eða í áttir sem maður átti ekki von á.

Óvissa er annars eitthvað sem ég stend frammi fyrir alla daga í minni vinnu þannig að ég er í raun ekki óvön þessari stöðu þó að í þetta sinn sé hún mun alvarlegri en áður. En ég er viss um að framtíðin bjóði upp á nóg af tækifærum ef maður hefur augun opin; maður þarf bara að hugsa hlutina aðeins öðruvísi og vera opinn fyrir því að sjá fremur lausnirnar en ekki bara vandamálin. Ég ætla bara að halda í jákvæðnina og vonina og segja að þetta verði skemmtilegt sumar, kannski ekki eins og við plönuðum en bara alveg í lagi,“ segir Embla að lokum en skoða má verk hennar á Facebook-síðunni By Embla eða á Instagram: emblasig og heimasíðunni: emblasig.is.

Myndir: Hallur Karlsson

- Advertisement -

Athugasemdir