„Vissi að eitthvað hefði komið fyrir“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Kristín Ósk Gestsdóttir, eða Kiddý eins og hún er alltaf kölluð, leitaði lengi uppruna síns en móðir hennar var gefin þegar hún var þriggja daga gömul og fékk aldrei að vita hver faðir hennar væri en augljóst var að hann hlaut að vera af erlendu bergi brotinn. Sjálf var Kiddý rangfeðruð.

 

Kiddý hefur nú fengið svör við mörgum spurningum sem brunnu á henni en því miður lifði móðir hennar ekki til þess dags. Foreldrar Kiddýjar létust í snjóflóðinu í Súðavík árið 1995 ásamt ungri bróðurdóttur Kiddýjar.

„Ég fékk strax á tilfinninguna að eitthvað hefði gerst.“

„Ég vissi að eitthvað hefði komið fyrir þegar ég vaknaði þennan mánudag í janúar 1995,“ segir Kiddý þar sem við höfum komið okkur fyrir á kaffihúsi á fallegum haustdegi. „Ég sef yfirleitt mjög fast og er ekki þessi svokallaða A-manneskja sem vaknar snemma en eitthvað vakti mig eldsnemma þennan morgun. Ég man að ég vaknaði og reisti mig upp í rúminu og leit á klukkuna sem var hálfsjö. Ég fékk strax á tilfinninguna að eitthvað hefði gerst.“ Fimmtán mínútum síðar hringdi síminn.

„Bjarni, maðurinn minn, var í símanum. Hann var staddur hjá foreldrum mínum í Súðavík en ég var hér í bænum þar sem við bjuggum. Hann sagði að það hefði fallið snjóflóð; hann hefði vaknað í snjónum og veðrið væri gjörsamlega klikkað. Hann sagði mér að kveikja á útvarpinu og hlusta á fréttir, hann ætlaði að fara út að leita að foreldrum mínum.“

Kiddý er á forsíðu 45. tölublaðs Vikunnar.

Kiddý segist hafa farið fram og kveikt á útvarpinu en ekkert var minnst á snjóflóð. „Ég man að Gulli Helga og Jón Axel voru með útvarpsþátt á þessum tíma og ég skildi ekkert í því að þeir væru bara að grínast; vissu þeir ekki að það hafði fallið snjóflóð í Súðavík?“

Þegar blaðamaður spyr hvernig æska Kiddýjar hafi verið, brosir hún út í annað og segir að það sé svolítið flókið mál að tala um. Maðurinn sem hún kallar föður sinni í viðtalinu og lést í snjóflóðinu, Sveinn Gunnar Salómonsson, var ekki blóðfaðir hennar heldur stjúpfaðir. Og maðurinn sem Kiddý taldi blóðföður sinn, og móðir hennar var gift, var ekki heldur blóðfaðir hennar.

„Mér hefur bara alltaf fundist ég aðeins öðruvísi en þau og var alltaf að segja það við mömmu.“

Mynd / Unnur Magna

„Ég er sem sagt rangfeðruð,“ segir Kiddý. „Ég var fyrsta barn mömmu sem var bara  sautján ára þegar hún eignaðist mig. Tveir menn komu til greina sem faðirinn, annar þeirra var Gestur, maðurinn sem ég er kennd við og mamma giftist. Mamma og Gestur eignuðust svo fjögur börn til viðbótar en einn bróðir minn lést eftir tæpan sólarhring.

Mér hefur alltaf fundist eins og systkini mín eigi eitthvað sameiginlegt sem ég á ekki. Við fengum öll mikið frá mömmu en svo er eitthvað í viðbót hjá hinum systkinum mínum sem þau hafa en ég ekki en get ekki sett fingurinn á. Mér hefur bara alltaf fundist ég aðeins öðruvísi en þau og var alltaf að segja það við mömmu. Þegar ég var um það bil sextán ára þá sagði hún mér að Gestur væri ekki pabbi minn en hún var auðvitað búin að sjá það þótt tveir menn hefðu komið til greina.

Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Myndir / Unnur Magna
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira