Yndislegar ævintýramyndir

Deila

- Auglýsing -

Ímyndunarafli mannanna eru engin takmörk sett. Þeir eru færir um að skapa ævintýraheima fulla af kynjaverum og líklega eru fáir sem ekki kunna að meta slíkt. Nú búum við yfir tækni til að endurskapa slíka veröld á hvíta tjaldinu og nokkrir snillingar hafa gert það mun betur er aðrir.

Hobbitarnir og þeirra ferðlög

Líklega mun líða langur tími þar til einhver nær að feta í fótspor Peters Jacksons  og skapa aðra eins töfraveröld og hann hefur gert í Hringadróttinssögu og Hobbitanum. Þessar myndir eru þegar orðnar klassískar og aðdáendur út um allan heim njóta þess að horfa á þær aftur og aftur.

Snilldarprinsessa

Ef tala á um sígildar ævintýramyndir er Princess Bride án efa ein þeirra. Handritið er einfaldlega svo einstaklega vel skrifað, atburðarrásin fyndin og spennandi og yfir henni einhver dásamlegur „kitch“ blær sem gerir hana ómótstæðilega fyrir unnendur góðra ævintýrasagna. Hin margtuggna tilvitnun: „My name is Inigo Montoya. You killed my father. Prepare to die.“ Á ábyggilega eftir að hljóma áfram í netheimum og manna á meðal.

Endalausa sagan

Þótt sumir vilji meina að Neverending Story eða Sagan endalausa hafi ekki enst vel eru unnendur hennar þó margir. Sú sem þetta ritar fór með son sinn á hana oftar en hún kærir sig um að muna og ber til hennar hlýjar tilfinningar. Einkum á steintröllið stað í hjartanu þar sem það sat innan um molnandi rústir heimsins sem það unni og horfði á hendur sínar. „Þær líta út fyrir að vera stórar og sterkar,“ stynur það. „En samt gátu þær ekki haldið heiminum saman.“ Það gerist ekki betra.

Galdrastrákurinn góði

Harry Potter og hliðarveröld hans eru einstaklega heillandi og enginn efi að bæði bækurnar og myndirnar eru gimsteinar sem nýjar kynslóðir munu uppgötva hver fyrir sig. Liklega verður hann endurgerður jafnoft og Oliver Twist, Dórótea í Kansas, Litlu konurnar og fleiri klassískar hetjur bókmenntanna.

Litríkir og spennandi hungurleikar

Hungurleikarnir eru auðvitað hefðbundin ævintýri um kolbíta sem rísa úr öskustónni, átök góðs og ills og sigur hins kúgaða á kúgara sínum. Bækurnar voru spennandi og skemmtilegr og í kvikmyndunum hefur tekist ótrúlega að endurgera þennan flókna veruleika. Það er líka gaman að sjá hvernig ýmislegt úr þessum myndum hefur náð að smitast inn í hár- og fatatískuna.

Hin illa norn

Maleficient er hin hliðin á ævintýrinu um Þyrnirósu. Hvers vegna var álfkonan illa svo hefnigjörn? Þessari spurningu hafa áreiðanlega margir lesendur Grimms-bræðra velt fyrir sér og í þessari mynd fæst svarið. Frábær leikur Angelinu Jolie skemmir svo ekki fyrir. Þetta er góð skemmtun.

Hótelið bleika

The Grand Budapest Hotel er ein dásamlegasta perlan í flokki ævintýrakvikmynda síðasta árs. Gustave H. er dyravörður eða „concierge“ á hinu fræga Grand Budapest Hotel sinnir skyldum sínum af samviskusemi og snilli. Hann gefur ást sína ýmsum eldri konum og þegar ein þeirra arfleiðir hann að verðmætu málverki rís hinn illi sonur hennar upp og gerir allt hvað hann getur til að koma í veg fyrir að Gustave fái notið arfsins.

- Advertisement -

Athugasemdir