Fimmtudagur 25. apríl, 2024
10.1 C
Reykjavik

Hló þegar henni var boðið starf blaðamanns

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, ritstjóri Gestgjafans, er nýjasti gestur Andra Davíðs Péturssonar, barþjóns og framleiðslumeistara, í hinum vikulega hlaðvarpsþætti Happy Hour með The Viceman. Í Happy Hour fær Andri til sín nafntogaða barþjóna og sérfræðinga og áhugafólk um vín, kokteila og bjór á Íslandi og í þættinum segir Hanna meðal annars frá því hvernig kom til að hún varð ritstjóri helsta sælkerablaðs landsins.

Þegar Andri spyr Hönnu hvað góður ritstjóri þurfi að hafa til brunns að bera er hún fljót til svars. „Hann þarf að vera víðsýnn og hafa brennandi áhuga á viðfangsefninu, það er nauðsynlegt. Ég er heppin því ég hef áhuga á bæði vínum og mat. Hann þarf að fylgjast vel með, hvað er til dæmis að gerast úti í hinum stóra heimi. Hafa gott auga og maður þarf að vera með frjóa hugsun. Kunna að framkvæma og búa til. Á Íslandi þar sem það er kannski ekki eins stórt teymi á bak við blöðin eins og er erlendis, þá er líka gott að geta gengið í öll störf,“ telur hún upp og tekur fram að það komi sér vitanlega líka vel að vera með góða reynslu úr blaðamennsku.

Atvinnutilboðið kom henni í opna skjöldu

Hanna hefur komið víða við á ferli sínum, meðal annars starfað við kennslu og sem upplýsingafulltrúi franska sendiráðsins. Í viðtalinu greinir hún frá því hvað varð til þess hún fór að skrifa fyrir Gestgjafann árið 2005. „Ég á tvær dætur og önnur greindist með sykursýki þegar hún var átta ára sem var ákveðið áfall. Ég þurfti að leggjast yfir næringarfræði og gerði ekkert annað en að lesa um sykursýki, sykur og næringu. Þarna var Sólveig Baldursdóttir, ritstjóri Gestgjafans. Hún var gift tónlistarmanni eins og ég og hún frétti að dóttir okkar hefði greinst og vissi að við hjónin værum miklir matgæðingar og hefðum náð góðum tökum á því að gera góðan og hollan mat. Þá var hún með í blaðinu þátt sem hét Gómsætt án sykurs og bað mig um að koma í prufu, hún vildi athuga hvort ég hefði áhuga á því taka við þessum þætti.“

Hanna viðurkennir að þessi hugmynd ritstjórans þáverandi hafi komið svolítið flatt upp á hana. „Ég fór eiginlega að hlæja,“ viðurkennir hún, „mér fannst það svo fráleitt. En mér finnst alltaf gaman að áskorunum og ég segi eiginlega já við öllu og síðan gekk þetta bara svo glimrandi vel að hér er ég í dag.“

Ævintýralegur uppvöxtur og árin í Frakklandi

- Auglýsing -

Hanna sá í mörg ár um þáttinn Gómsætt án sykurs í Gestgjafanum og samhliða því tók hún að sér alls kyns verkefni í blaðinu. „Það kom fljótt í ljós að þetta átti mjög vel við mig og samstarf okkar Sólveigar var mjög gott,“ segir hún. „Mér fannst gaman að skrifa og elda og stílisera. Svo kom ég inn á sumrin og vann fyrir Gestgjafann með annarri vinnu; vann í franska sendiráðinu, var í námi og svo kenndi ég einnig. Þannig að ég var alltaf með annan fótinn á Gestgjafanum og árið 2012 var ég komin í hlutastarf á blaðinu. Sigríður Björk Bragadóttir, þáverandi ritstjóri, lét svo af störfum árið 2016 og ég sótti um, ásamt fleirum, og fékk starfið.“

Í þættinum segir Hanna ennfremur frá ævintýralegum uppvaxtarárum, árunum í Frakklandi þar sem hún smakkaði meðal annars ostrur í fyrsta sinn við litla hrifningu, gríðarlegum áhuga á mat og matseld sem gerði snemma vart við sig og allri vinnunni sem gerir Gestgjafann að einu metnaðarafyllsta tímariti landsins.

Hlustaðu á viðtalið í heild hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -