Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Íslendinga þyrstir í ævintýri

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Landsmenn taka framtakinu vel, þeir eru reiðubúnir að upplifa og njóta,“ segir matarleiðsögumaður sem býður upp á nýja, skipulagða matartúra fyrir Íslendinga. Hann segir að upphaflega ætlunin hafi verið að fara af stað með sælkeraferðirnar snemma á árinu en því hafi verið slegið á frest vegna COVID-19. Nú horfi til betra vegar og þess vegna sé um að gera að gleyma sér í einhverju skemmtilegu og gleðjast.

„Nei, alls ekki. Við erum náttúrulega öll búin að vera svolítið innilokuð og föst hérna heima svo lengi og viljum þess vegna fara að lyfta okkur aðeins upp, nú er tækifærið,“ segir matarleiðsögumaðurinn Ýmir Björgvin Athúrsson, spurður hvort það sé ekki eiginlega óðs manns æði að ætla að fara að bjóða upp á sælkeraferðir á Íslandi þegar ferðaþjónustan er búin að vera í hálfgerðu lamasessi.

„Þú sérð það að við erum bara tiltölulega nýfarin af stað og það er strax bókað í átta ferðir og margar fyrirspurnir búnar að berast. Fólk er ferlega ánægt með ferðirnar og það er farið að spyrjast hratt út.“

„Pabbi bjó til þetta orð, sælkerasveimur, sem lýsir nokkuð vel hugmyndinni að baki ferðunum þar sem sælkerar sveima um á milli veitingastaða, smakka, borða, drekka og njóta.“

Sælkerasveimur er yfirskrift ferðanna og segir Ýmir að faðir hans Arthúr Björgvin Bollason eigi heiðurinn að nafngiftinni. „Pabbi bjó til þetta orð, sælkerasveimur, sem lýsir nokkuð vel hugmyndinni að baki ferðunum þar sem sælkerar sveima um á milli veitingastaða, smakka, borða, drekka og njóta með öllum skilningarvitum. Ja, reyndar höfum við ákveðið að stilla snertingu aðeins í hóf,“ segir hann og hlær, „en þetta verður gaman!“

Mynd / Magical Iceland

Gourmet-guide Íslands

Það eru Ýmir, eiginkona hans Hrefna Óska Benediktsdóttir og Þóra Hrund Guðbrandsdóttir sem standa að ferðunum. Ýmir og Hrefna eiga og reka ferðaþjónustufyrirtækið Magical Iceland, sem hefur um árabil boðið upp á sælkeraferðir eða gourmet-ferðir með hágæða íslensku hráefni aðallega fyrir erlenda ferðamenn, á meðan Þóra hefur víðtæka reynslu af því að skipuleggja alls kyns viðburði og ferðir fyrir íslensk fyrirtæki.

- Auglýsing -

„Ég er búinn að vera í ferðaþjónustu í 10 ár og er stundum kallaður gourmet guidinn á Íslandi,“ segir Ýmir og brosir út í annað. „Við Hrefna konan mín höfum slegið upp alls konar veislum fyrir útlendinga í gegnum tíðina og boðið upp á prívat sælkeraferðir og Þóra er með mikla reynslu af því að sjá um árshátíðir, hvataferðir og ýmsa stóra viðburði fyrir íslensk fyrirtæki og félagasamtök. Með þessum nýju ferðum viljum við færa gourment-túrana sem erlendir ferðamenna hafa sótt mikið í til Íslendinga.“

Hann játar að það hafi reyndar komið sér skemmtilega á óvart hvað landsmenn séu áhugasamir um ferðirnar. Viðtökurnar hafi satt að segja farið fram úr björtustu vonum. „Ég er afskaplega glaður með viðbrögðin og svo hefur komið mér á óvart hvað Íslendingar eru áhugasamir um allt og alla í þessum ferðum. Þeir pæla ótrúlega mikið í hlutunum, til dæmis hvernig við pörum saman mat og drykk og svo eru þeir forvitnari en útlendingarnir um eigendur og rekstraraðila staðanna sem við heimsækjum. Ég er líka svakalega ánægður með hvað Íslendingar kunna vel að meta það sem er á boðstólum í þessum ferðum, þeir eru rosalega þakklátir.“

- Auglýsing -
Mynd / Magical Iceland

Ólmir í að upplifa og njóta

Þrennskonar útgáfur af ferðunum eru í boði að sögn Ýmis; Sælkerasveimur – Reykjavík, -Reykjanes og – Vestamannaeyjar. „Á hverjum stað röltum við á milli þriggja veitingastaða á þremur klukkustundum og lendum í ýmsum óvæntum og skemmtilegum uppákomum á leiðinni. Við hreyfum okkur lítið en njótum því mun meira þannig að allir geta tekið þátt, hvort sem þú á erfitt með gang eða ert algjör göngugarpur,“ segir hann glaðlega og bætir við að vegna COVID-19 verði passað verður upp á smitvarnir samkvæmt fyrirmælum almannavarna. „Við tökum t.d. ekki við stærri hópum en 25 manns, og reyndar heldur ekki færri en 10.“

„Á hverjum stað röltum við á milli þriggja veitingastaða á þremur klukkustundum og lendum í ýmsum óvæntum og skemmtilegum uppákomum á leiðinni.“

Ýmir segir að upphaflega ætlunin hafi verið að fara af stað með sælkeraferðirnar snemma á árinu en því hafi verið slegið á frest vegna COVID-19. „Já, við vorum tilbúin með þær í mars en þurftum að bíða þegar kórónuveirufaraldurinn brast á. Nú horfir til betra vegar og þess vegna er þetta góður tímapunktur til að gleyma sér og gleðjast, enda hefur sýnt sig að Íslendingar taka framtakinu vel, þeir eru reiðubúnir að upplifa og njóta,“ segir hann og hvetur áhugasama til að fara inn á vefsíðuna jatakk.is, þar fáist nánari upplýsingar um ferðirnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -