Laugardagur 15. júní, 2024
6.8 C
Reykjavik

„Fjölbreytnin mun koma þér skemmtilega á óvart“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Töfrandi eyja við vesturströnd Kanada.

Svanhildur Reynisdóttir Svansson hönnuður hefur búið á Vancouver-eyju í Kanada síðan 2005.

Svanhildur Reynisdóttir Svansson hönnuður hefur búið á Vancouver-eyju í Kanada síðan 2005 ásamt sonum sínum tveimur. Þar er mikil náttúrufegurð með fallegum gróðri, ströndum og skógum og sumrin eru heit. Þar er fjölmenning í hávegum höfð og samfélagið kennir skilning gagnvart því að ekki trúi allir eins. Við fengum Svanhildi til að segja okkur frá nokkrum af sínum uppáhaldsstöðum á svæðinu.

Miðbær Victoria
Þegar þið heimsækið Vancouver-eyju er frábært að byrja í miðbæ Victoria og svæðinu þar í kring. Borgin er umlukin fallegri strönd og á sumum þeirra sjást Ólympíufjöllin í Bandaríkjunum. Við höfnina liggja fjölmargar snekkjur og skútur við bryggju, götulistamenn sýna listir sínar og glæsilega þinghúsið og Empress-hótelið blasa við. Ég mæli eindregið með British Colombia-safninu en þar er meðal annars hægt að sjá mammúta og marga hluti sem tengjast sögu landsins, þar með talið frumbyggjalist og Totem-súlurnar. IMAX-bíóið er skemmtileg upplifun og dásamlegt að skella sér á veitingastaðinn Spaghetti Factory með fjölskylduna. Þetta er allt í göngufæri. Um kvöldið er gaman að kíkja á The Irish Pub og fara svo á götumarkaðinn þar sem listamenn selja handverkið sitt.

Löng strandlengja
Í tveggja klukkustunda akstursfjarlægð á austurströndinni er bærinn Parksville sem er einstaklega fjölskylduvænn. Þar er almenningsgarður með nokkurra kílómetra langri sandströnd og þegar er fjara þá er hægt að ganga endalaust eftir henni, tína ígulker og skeljar og búa til sandkastala þangað til flæðir að á ný. Á sumrin eru haldnar stórar sandkastalakeppnir þarna sem fólk héðan og þaðan úr heiminum tekur þátt í. Ýmislegt er í boði fyrir alla aldurshópa eins og mini-golf, stuðarabátar og markaðir. Þú getur einnig séð stóra Douglas-furu og leigt litla kofa á ströndinni.

Sögulegi blómagarðurinn The Butchart Gardens er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria. Staðurinn var byggður snemma á tíunda áratugnum á tómri kalksteinsnámu en skartar í dag meðal annars japönskum garði, rósagarði, grænmetisgarði ásamt gosbrunnum, styttum og mörgu fleiru.

Risastór blómagarður
Sögulegi blómagarðurinn The Butchart Gardens er í um klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria. Staðurinn var byggður snemma á tíunda áratugnum á tómri kalksteinsnámu en skartar í dag meðal annars japönskum garði, rósagarði, grænmetisgarði ásamt gosbrunnum, styttum og mörgu fleiru. Fjölbreytni blómahafsins mun koma þér skemmtilega á óvart þegar þú gengur í gegnum þessa röð af görðum sem hannaðir eru af alþjólegum listamönnum. Á kvöldin er garðurinn lýstur upp og um helgar eru flugeldasýningar. Yfir jólin eru Carollers-söngvar sungnir víða um garðinn, hægt að fara á skauta og aka um í gamaldags hestvagni. Þarna eru verslanir, veitingastaðir, hægt að fá sér síðdegiste í viktorískum stíl og upplifa ýmsa skemmtun. Dásamlegt er að verja heilum degi í þessum æðislega garði.

Náttúruparadís
Sjávarbærinn Port Renfrew er í um tveggja og hálfrar klukkustundar akstursfjarlægð frá miðbæ Victoria en bærinn er einnig þekktur sem höfuðborg stórra trjáa í Kanada. Í villtri náttúru Avatar Grove eru heimsins stærstu tré, þar á meðal Douglas-fura, rauðviður, greni og Sitka-tré. Það er ævintýralegt að ganga í gegnum skóginn innan um 500-1000 ára gömul tré sem eru 12 metrar eða meira að ummáli. Ef þið fylgið stígnum komið þið að Gordon-ánni sem er með stórum mosaklæddum steinum, litlum fossum og burknarnir prýða bakkana. Í skóginum búa elgir, fjallaljón, birnir, úlfar og fleiri dýr. Sannkölluð náttúruparadís.

Hægt er að leigja flugvél sem lendir á vatni til að fara í útsýnisflug og jafnvel alla leið til Seattle.

Töfrandi hippaeyja
Það eru nokkrar eyjur í kringum Vancouver-eyju og Salt Spring Island er ein sú stærsta, staðsett milli Vancouver-eyju og meginlandsins. Ferja gengur á milli eyjanna og hægt að taka bílinn með. Ferjuferðin veitir fallegt útsýni og hægt að sjá fegurð Vancouver-eyju úr smávegis fjarlægð. Einnig er hægt að leigja flugvél sem lendir á vatni til að fara í útsýnisflug og jafnvel alla leið til Seattle. Á Salt Spring Island eru strandir, tjaldstæði og stikaðar gönguleiðir. Bændamarkaðir með ferskum ávöxtum eru víðast hvar ásamt mörkuðum með handverk og fleira. Njóttu töfrandi og rólegs andrúmslofts staðarins sem er þekktur um heim allan fyrir listir, handverk og skapandi iðnað.

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Úr einkasafni og safni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -