Þriðjudagur 15. október, 2024
5.9 C
Reykjavik

Enn perluvinir eftir allt sem á undan er gengið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Maus er ein af þekktustu rokksveitum Íslands. Sveitin var stofnuð af fjórum vinum úr Árbænum árið 1993. Ári seinna vann hún Músíktilraunir og þá var ekki aftur snúið. Síðan þá hefur sveitin sent frá sér fjölda platna og nú fagnar hún 20 ára afmæli breiðskífu sinnar, Í þessi sekúndubrot sem ég flýt, með nýrri endurbættri útgáfu á vínylplötu.

 

Sveitin gróf upp 20 ára gömul teip í því skyni að vinna í endurbættu útgáfunni en hljóð plötunnar var endurunnið frá grunni af tónlistarmanninum Curver Thoroddsen. Birgir Örn Steinarsson, söngvari og gítarleikari sveitarinnar, segir að ferlið hafi verið mjög skemmtilegt, það hafi verið gaman að rifja upp lögin á plötunni en svolítið erfitt að láta þau eiga sig. „Já, það erfiðast var að fikta ekkert í þessu. Bæta ekki einhverju inn í eða laga. Að halda fókus og vinna bara með hljóðið en ekki að vera sparsla upp í eitthvað sem maður spilaði eða söng fyrir 20 árum,“ segir hann og viðurkennir að hann hefði nú alveg viljað syngja eitt til tvö lög á plötunni upp á nýtt.

Á sínum tíma lofuðu gagnrýnendur breiðskífuna og sögðu hana vera eina af betri ef ekki bestu plötu ársins. Maus hlaut sex tilnefningar fyrir plötuna á Íslensku tónlistarverðlaununum og vann til tvennra verðlauna. Birgir var valinn textahöfundur ársins og Daníel Þorsteinsson trommari ársins. „Restina fengu Sigur Rós og Björk,“ segir Birgir og bætir við að samkeppnin hafi verið hörð.

Aðspurður um ástæðu þess að ákveðið var að þrykkja plötuna á vínyl svarar Birgir mikilvægt að tónlist sé aðgengileg á sem fjölbreytilegastan máta. „Fyrir 20 árum var ekki í boði að þrykkja vínyl, það var þá talið útdautt format. En svo benti ýmislegt til að geisladiskurinn væri að deyja og vínyllinn að rísa aftur. Þess vegna ákváðum við að endurútgefa plötuna okkar Lof mér að falla að þínu eyra, á vínyl þegar hún átti 20 ára afmæli fyrir tveimur árum. Sú plata seldist upp þannig að okkur fannst tilvalið að færa þessa plötu yfir á vínyl líka. Ef manni þykir vænt um ferilinn sinn þá verður maður að passa upp á að hægt sé að nálgast tónlistina eftir öllum leiðum sem eru í boði.“

Á plötunni sjálfri eru inngreipt leyniskilaboð við lok beggja hliða, en Birgir er aldeilis ekki á þeim buxunum að ljóstra neinu upp varðandi þau. „Þau yrðu nú ekki mjög leynileg ef ég færi að kjafta því hér,“ segir hann hlæjandi. „Náðu þér í eintak, skoðaðu það vel við enda hvorrar hliðar.“

„Ég hef oft sagt að ef það yrði nokkurn tíma gerð kvikmynd um Maus þá yrði það leiðinlegasta mynd allra tíma.“

Talið berst þá að meðlimum sveitarinnar, eru þeir enn reglulega í bandi? „Við strákarnir erum enn perluvinir eftir öll þessi ár og það hefur ekkert alvarlegt komið upp á sem hefði getað eyðilagt vinskapinn. Ég hef oft sagt að ef það yrði nokkurn tíma gerð kvikmynd um Maus þá yrði það leiðinlegasta mynd allra tíma,“ segir hann og hlær. „Ekkert alvarlegt drama, ekkert of mikið rugl. Bara endalaus vinátta og metnaður. Það nennir auðvitað enginn að horfa á þannig bíómynd.“

- Auglýsing -

En hvað er fram undan? „Vá, síðast var planið að hjálpa Curver að mála íbúðina sína. Hver veit hvað tekur við næst? Kannski spennandi matarboð eða bjórhittingur. Við erum alla vega duglegir við að segja nei þegar einhver biður okkur um að spila. En stundum segjum við já. Við erum ekki búnir að negla neitt niður sem stendur. Þetta samtal um „næsta skref“ er sífellt í gangi á milli okkar engu að síður. En við erum auðvitað allir fáránlega uppteknir í einkalífinu og við dagleg störf,“ segir hann. Það sé því ekkert ákveðið. „Verið bara vakandi. Fylgist með Fésbókarsíðu Maus. Við eigum það til að kasta svona hlutum fram með litlum sem engum fyrirvara.“

Texti / Sigrún Guðjohnsen

 

- Auglýsing -

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -