Tónlistarmaðurinn Beggi Smári var að senda frá sér brakandi ferskt lag og myndband sem ber heitið Brostu. Beggi hefur verið að vinna mikið með gítarinn að undanförnu og er lagið fyrsti singúllinn af væntanlegri plötu sem er í vinnslu. „Það er ansi langt síðan ég hef gefið út lag á íslensku en lagið samdi ég til dætra minna þegar þær voru á löngu ferðalagi í útlöndum fjarri mér.”
Brostu er virkilega þétt lag og er kassagítarinn í aðalhlutverki en laginu má lýsa sem “feel good“ folk/kántrí. „Ég hef verið að spila mikið síðustu mánuði í Skandinavíu og á Englandi. En næst á dagskrá er Melodica Festival í lok ágúst áður en ég held út til Þýskalands með kassagítarinn og hef leikinn á Acoustic Dusseldorf festivalinu og víðar í framhaldinu.” Begga til halds og traust í upptökunum voru Örlygur Smári “pródúsent” og Einar Scheving sem bætti við slagverki. Myndbandið er einkar skemmtilegt en dóttir Begga, Hrönn tók það upp.