Miðvikudagur 4. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Andlega þenkjandi Íslendingar sækja í ofskynjunarseyði úr Amazon

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áhugafólk um andleg málefni hefur notað ofskynjunarseyðið ayahuasca til að komast í samband við sjálft sig og náttúruna. Viðmælendur Mannlífs segja vinsældir seyðisins fara vaxandi á Íslandi og dæmi séu um að það sé veipað.

 

Ayahuasca er náttúrseyði sem á uppruna sinn í perúska hluta Amazon-frumskógarins þar sem frumbyggjar hafa bruggað það til náttúrulækninga. Neysla þess kallar fram kröftug ofskynjunaráhrif og inniheldur það efnið dimethyltryptamine (DMT) sem er á bannlista á Íslandi og víðar. Það er hins vegar ekki ávanabindandi og alls óskylt LSD þótt áhrifin séu að einhverju leyti keimlík. Lítið er vitað um langtímaáhrif seyðisins en dæmi eru um að fólk hafi látist eftir neyslu þess.

Þekkt er að áhugafólk um andleg málefni hafi gert sér ferð til Amazon til að neyta seyðisins en á undanförnum árum hefur neysla þess færst í aukana á Vesturlöndum. Í umfjöllun vestrænna fjölmiðla segir að áhugafólk um andleg málefni sæki mikið í seyðið en einnig hafi fólk sem glímir við áfallastreituröskun, fíknivanda og þunglyndi notað það.

Boðsferðir í einkaskilaboðum

Mannlíf hefur haft spurnir af því að vinsældir ayahuasca fari vaxandi á Íslandi. „Fólk er farið að neyta þess í auknum mæli og með nýjum aðferðum. Til dæmis að veipa það,“ segir einn viðmælandi Mannlífs. Þá hefur hópur jógaiðkenda stundað að fara út á land í skipulagðar ferðir þar sem seyðið er haft með í för. „Þetta er að minnsta kosti einu sinni á ári. Þá kemur hingað maður sem býður upp á þetta en þetta stendur ekki öllum til boða. Fólk fær send einkaskilaboð á Facebook með boði um þátttöku.“

„… þetta stendur ekki öllum til boða. Fólk fær send einkaskilaboð á Facebook með boði um þátttöku.“

Annar viðmælandi Mannlífs staðfestir að hópur jógaiðkenda hafi safnast saman á sveitabæ nærri höfuðborgarsvæðinu yfir helgi þar sem ayahuasca var neytt.

- Auglýsing -

Perúskur seiðmaður og fjöllistahópur

Takmarkaðar upplýsingar er að finna um neyslu seyðisins á Íslandi. Árið 2016 birtist viðtal í Fréttatímanum við tvo menn sem voru í 15 manna hópi sem hittist úti í sveit til að drekka ayahuasca. Með í för var perúskur seiðmaður sem bruggaði seyðið. Annar mannanna var með krabbamein en hinn hafði glímt við fíknivanda um árabil. „Það gerðist lítið í fyrsta sinn en í annað skiptið rann allt lífshlaup mitt fram hjá mér, alveg frá því ég var sex ára og fram á daginn í dag,“ lýsir annar þeirra áhrifunum. Í þættinum Rapp í Reykjavík sem sýndur var á Stöð 2 árið 2016 upplýstu meðlimir fjöllistahópsins Shades of Reykjavík að þeir hafi stundað neyslu seyðisins.

Á Youtube er einnig að finna 45 mínútna langan fyrirlestur þar sem maður að nafni Erling Ingason lýsir upplifun sinni af neyslu ayahuasca í Amazon-frumskóginum árið 2012. Fer Erling lofsamlegum orðum um upplifunina þótt seyðið hafi verið afskaplega bragðvont og hann hafi kastað kröftuglega upp eftir neyslu þess, sem mun vera algengt.

- Auglýsing -

„Vestræn menning hefur kallað þetta dóp og stórhættulegt. Ég get alveg fullvissað ykkur um það að ég hef aldrei verið ánægðari, hraustari og ákveðnari í lífinu. Mín reynsla var endurfæðing og skilningur á lífinu,“ ritar Erling undir myndbandið. „Þetta er það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni en samt það besta sem hefur komið fyrir mig. Ég missti 9 kíló í þessu ferðalagi og mér leið eins og ég hafi verið að hlaupa maraþon alla daga. Hver athöfn á sér stað í myrkri og þú ert alveg einn á dýnu. Áhrifin koma inn eftir 30-40 mín. og vara í 5-8 tíma.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -