Miðvikudagur 17. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

Baðaði sig aðeins í aðdáun í joggingbuxum og íþróttaskóm

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gildran eftir Lilju Sigurðardóttur hefur verið tilnefnd til Gullna rýtingsins í flokki þýddra bóka. Í samtali við Mannlíf segir rithöfundurinn tilnefninguna hafa komið algjörlega flatt upp á sig. Hún sé þó himinlifandi með hana enda sé um að ræða ein eftirsóttustu alþjóðlegu glæpasagnaverðlaun heims.

„Ég er auðvitað himinlifandi. Þetta er mikill heiður þannig að ég er upp með mér yfir þessu en ég er líka afskaplega þakklát. Svona velgengni er ekki sjálfsögð. Þetta er vísbending um að bókin hafi fallið í kramið en líka að hún sé vel þýdd hjá Quentin Bates, sem er auðvitað tilnefndur með mér, þar sem það er í raun bókin sem fær tilnefninguna og í alþjóðlega flokknum þá eru það bæði höfundur og þýðandi,“ segir Lilja og bætir við að það sé ekki leiðinlegt að fyrsta bókin hennar sem kemur út á ensku nái svona brautargengi en Gullni rýtingurinn, The CWA International Dagger, er verðlaun Samtaka breskra glæpasagnahöfunda, veitt annars vegar fyrir bækur sem eru skrifaðar á ensku og hins vegar bækur þýddar á ensku og eru talin vera ein eftirsóttustu alþjóðlegu glæpasagnaverðlaun heims.

Á meðal rithöfunda sem eru líka tilnefndir í ár má nefna Henning Mankell, Pierre Lemaitre, Fred Vargas, Roslund og Hellström og Arnald Indriðason fyrir bókina Skuggasund en þýðandi hennar, Victoria Cribb, er tilnefnd með Arnaldi. Lilja segist hreinlega eiga bágt með að koma því heim og saman í hausnum á sér að vera á lista með þessum stóru nöfnum í bransanum, frábærum höfundum sem hún hefur lesið sér til ánægju og litið upp til. Það sé frábært að vera í slagtogi með Arnaldi.

„En að komast inn á enska málsvæðið og að það myndi ganga svona rosalega vel flaug mér ekki í hug. Og verðlaun eru einhvern veginn ekki eitthvað sem manni dettur í hug, sérstaklega ekki í þessu rosalega stóra samhengi.“

„Það er alltaf gaman,“ segir hún glaðlega. „Arnaldur er náttúrlega ótvíræður konungur íslensku glæpasögunnar og mikill brautryðjandi fyrir okkur hin. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur fengið Rýting, fyrir bók sína Grafarþögn árið 2005 og verið tilnefndur nokkrum sinnum að auki,“ segir hún og þegar blaðamaður spyr þá hvort hún viti til þess að fleiri íslenskir höfundar hafi verið tilnefndir til verðlaunanna í gegnum tíðina segist hún halda að hún sé annar Íslendingurinn sem fær tilnefningu til þeirra. „En ég má svo til með skjóta því inn að við Arnaldur höfum sama ritstjórann, Sigríði Rögnvaldsdóttur hjá Forlaginu, sem má þá, held ég, fara að teljast drottning íslenskra glæpasagnaritstjóra!“

Kom tilnefningin á óvart? „Já, hún kom algjörlega flatt upp á mig,“ viðurkennir hún. „Ég var á Crimefest í Bristol en tilnefningarathöfnin var á föstudeginum sem var frídagurinn minn svo ég spurði útgefandann hvort ég þyrfti nokkuð að mæta á athöfnina og hún sagði að það væri allt í lagi að sleppa því. Svo ég fór niður í bæ til að kaupa smáræði sem mig vantaði og var nýkomin aftur á staðinn en ekki búin að skipta um föt fyrir kvölddagskrána. Ég sat á kaffihúsinu niðri með nokkrum kunningjum og sötraði kaffi þegar það kom SMS frá útgefandanum: Þú ert tilnefnd! Svo ég þaut upp í kokteilboðið, enn á íþróttaskóm og í joggingbuxum, til að baða mig aðeins í aðdáun og knúsum.“

Ótrúleg velgengni

Þegar Lilja ákvað að skrifa Gildruna, sem fjallar í stuttu máli um Sonju, lesbíu og einstætt foreldri sem leiðist út í eiturlyfjasmygl, segist hún ekki hafa séð fyrir sér að vera tilnefnd til verðlauna af þessari „stærðargráðu“. Þvert á móti. „Þegar ég skrifaði Gildruna var ég að skrifa fyrir íslenska lesendur þó að auðvitað vonist flestir íslenskir höfundar eftir því að fá útlendan samning. En að komast inn á enska málsvæðið og að það myndi ganga svona rosalega vel flaug mér ekki í hug. Og verðlaun eru einhvern veginn ekki eitthvað sem manni dettur í hug, sérstaklega ekki í þessu rosalega stóra samhengi.“

- Auglýsing -

 

Búrið.

Óhætt er að segja að Gildran sé búin að njóta mikillar velgengni frá því að hún leit dagsins ljós árið 2015, en sem dæmi um það er bókin nú líka tilnefnd til franskra glæpasagnaverðlauna, Prix Meilleur Polar hjá Points og er þar á tíu bóka lista sem verður styttur þegar líður á árið. Auk þess er Gildran komin út á ensku, norsku, dönsku og tékknesku og er nú unnið að því að þýða hana á pólsku og Makedónsku, en til stendur að þýða framhaldsbækurnar Netið og Búrið á sömu tungumál. Miðað við ánægju útgefenda með Gildruna segist Lilja telja að salan gangi vel. Sjálfri finnist henni þetta spennandi og ekki síst sú staðreynd að lesendahópurinn skuli stækka og stækka. Það sé dásamleg tilfinning fyrir íslenskan höfund. Þá kveðst hún líka vera dauðspennt fyrir sjónvarpsþáttaröð sem er í undirbúningi og byggir á Gildrunni, enda sé hún algjör sjónvarpsfíkill og sjái sögurnar sínar alltaf fyrir sér myndrænt. Það verði því gaman að sjá útkomuna. En er nýtt verk í vinnslu um þessar mundir?

„Ég var að skila inn nýrri bók til Forlagsins, stakri bók, sem sé ekki hluti af bókaflokki, en hún kemur út í október,“ svarar hún. „Þetta er spennusaga með pólitísku ívafi um konu sem tekur við innanríkisráðuneytinu sem utanþingsráðherra og rekst þar á samsæri og að auki kemur gamalt mál um dularfullt dauðsfall í fjölskyldu hennar upp á yfirborðið,“ lýsir hún og segist ekki vera reiðubúin að gefa meira upp – að sinni.

- Auglýsing -

Talið berst því aftur að tilnefningunni til Gullna rýtingsins, en Lilja upplýsir blaðamann um að það séu tíu bækur á þessum lista. Þetta sé svokallaður „longlist“ sem verði svo innan nokkurra vikna styttur í „shortlist“ þar sem eru sex titlar og verðlaunahafinn komi til með að vera valinn af þeim lista. „Ég geri mér ekki miklar vonir um að fara áfram á stuttlistann en bara það að vera tilnefnd með þessu gengi er algjör draumur.“

Spurð hvar verðlaunaafhendingin fari fram og hvort hún ætli að vera viðstödd, segir Lilja það vera ágæta spurning sem hún viti hreinlega ekki svarið við. „Ég ætti kannski að senda línu á útgefandann minn og spyrja að þessu,“ segir hún og hlær. „Afhendingin er einhvern tíma í sumar eða haust. Ég er með stranga dagskrá á kynningarferðalögum og er í rauninni uppbókuð fram í janúar á næsta ári svo ég veit ekki hvernig þetta kemur heim og saman við það, en það væri ofurgaman að vera viðstödd, hver sem vinnur.“

Gildran og Netið hafa notið mikilla vinsælda og sömuleiðis Búrið, sem er síðasta bókin í þríleiknum.

Aðalmynd: Lilja Sigurðardóttir rithöfundur og Quentin Bates, þýðandi bókarinnar, kát með tilnefninguna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -