Þriðjudagur 21. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

Bjartsýnir nýbændur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hvernig dettur ungu fólki í hug að gerast bændur í dag? Mannlíf hitti að máli par á Torfastöðum á Fljótsdalshéraði sem tók þá ákvörðun í fyrra. Viðtalið er það þriðja í greinaröð Mannlífs um unga bændur á Íslandi.

Á þessu eina ári síðan hjónin Lauga og Árni á Torfastöðum á Fljótsdalshéraði hófu búskap hafa örlögin svo sannarlega spunnið annan vef en ungu nýbændurnir sáu fyrir sér. Harmleikur í sveitinni olli því að fjárstofninn þeirra stækkaði skyndilega sl. haust, um svipað leyti og Lauga uppgötvaði að hún var kona eigi einsömul og verður því að halda sig fjarri fyrsta sauðburði í búskapnum.

Lauga og Árni á Torfastöðum á Fljótsdalshéraði og sonur þeirra, Þórður.

„Þetta hafði alltaf verið draumurinn okkar en jarðir eru ekki auðfengnar. Við höfðum sótt um eina kirkjujörð en fengum ekki svo að þegar okkur bauðst þetta tækifæri ákváðum við að láta slag standa,“ segir Sigurlaug Jónína Ólöf Þorsteinsdóttir sem jafnan er kölluð Lauga, og nú Lauga á Torfastöðum í Jökulsárhlíð. Þangað flutti hún 22. apríl í fyrra ásamt Árna Jóni Þórðarsyni og þriggja ára syni þeirra, Þórði Þorsteini.

„Við hittum gott fólk sem á þessa jörð og var tilbúið að leigja okkur hana. Þá hafði ekki verið búið á Torfastöðum í fáein ár og íbúðarhúsið mestmegnis nýtt sem sumarhús fyrir eigendurna og aðstandendur þeirra,“ útskýrir Lauga. „Við þorðum að prófa þetta þar sem við gátum fengið jörðina leigða svo að ef allt fer á versta veg getum við bara hætt. En ef vel gengur höfum við þann möguleika að kaupa jörðina.“

Lauga sem er þrítug og Árni sem er tveimur árum yngri bjuggu þá á Egilsstöðum en létu sig dreyma um að flytja í sveit. Árni er úr Fellabæ og ólst að miklu leyti upp í sveit en Lauga ólst upp á bæ í snjóþyngstu sveit landins, Fljótum í Skagafirði. Bæði luku þau búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri og Lauga bætti svo við sig námi í búvísindum og útskrifaðist úr því vorið 2016.

Þau stunda bæði vinnu utan við búskapinn, Lauga er stuðningsfulltrúi í Brúarásskóla sem er um tuttugu mínútna akstur frá bænum og Árni gengur í ýmis störf sem verktaki, ekur stundum vöruflutningabíl og hefur undanfarnar vikur verið við rúning á bæjunum í sveitinni. Upphaflega ætluðu þau að byrja smátt og stækka bústofninn hægt og rólega.

„… miðað við hvernig þetta er búið að vera þá trúi ég varla að þetta geti versnað mikið meir, nú hlýtur leiðin bara að liggja upp á við.“

„Foreldrar mínir voru að hætta búskap og hafa stutt okkar heilshugar í þessu verkefni og þau gáfu okkur fyrir fimmtíu gripum, svo að í haust fórum við og keyptum okkur gimbrar,“ segir Lauga en hún og Árni hafa fyrst og fremst áhuga á fjárbúskap. „Við höfum bæði mjög gaman að íslensku sauðkindinni og ætlum að láta það duga, en mig dreymir nú líka um að eignast hesta einhvern tíma, fyrir göngur og réttir og útreiðatúra.“

- Auglýsing -

Það stóð því til að taka hlutunum rólega og hafa ekki nema 50 kindur í vetur. „Planið var að við myndum bæði vinna úti og það átti að vera mjög auðvelt því við erum með gjafagrindur, en gefum ekki á garða. Þá gefum við heila rúllu í senn sem endist í um það bil þrjá daga svo það þarf ekki að gefa á hverjum degi þótt við lítum auðvitað daglega til með fénu.“

Má ekki koma nálægt sauðburði

Húsakostur á jörðinni var ágætur og fjárhúsið í fínu standi svo nýju bændurnir gerðu þar góða aðstöðu fyrir fimmtíu fjár. „Svo gerðist hræðilegur atburður hér í sveitinni í september,“ segir Lauga og rifjar upp eldsvoða sem varð að Fögruhlíð, næsta bæ við Torfastaði. „Bóndinn þar brann inni þegar íbúðarhúsið hans brann til grunna. Hann bjó einn en systkini hans eru yndislegt fólk og þau komu til okkar og buðu okkur að kaupa gripi úr stofninum hans. Hann var með 800 fjár og til að þurfa ekki að senda allt féð í sláturhús buðu þau okkur að kaupa gripi á lágu verði. Þannig að við völdum 150 kindur þaðan og vorum þá skyndilega komin með 200 kindur í fangið.“

- Auglýsing -

Þau urðu því að hafa snör handtök við að gera fjárhúsið klárt fyrir þessa stóru viðbót og um svipað leyti kom í ljós að von er á öðru barni þeirra í sumar. „Það var ekki planað en ánægjulegt engu að síður og setur pínulítið strik í reikninginn. Sauðburðurinn verður dálítið púsl,“ segir Lauga hlæjandi en eins og kunnugt er mega þungaðar konur ekki koma nálægt sauðburði vegna smithættu svo hún þarf að halda sig fjarri. „Foreldrar mínir ætla hins vegar að koma og hjálpa til svo ég verð bara ráðskona í staðinn, sé um mat og kaffi handa hinum.“

Bændur bændum verstir

Lauga og Þórður.

Þau hafa fengið að kaupa hey frá Fögruhlíð en ljóst er að í sumar þurfa þau að heyja mun meira en stóð til í fyrstu, þegar þau ætluðu að dunda sér við að fjölga bústofninum í rólegheitum á næstu árum. Meðalstórt bú er um 400-500 fjár og þau eru nú þegar hálfnuð í þá áttina. „Ég hugsa að við grisjum bara úr í haust og bætum við nýjum gripum en förum ekki mikið yfir 200 gripi. Þetta er mjög stór jörð og við færum létt með að fjölga mikið en hugsanlega þyrftum við að byggja fjárhús til þess og það stendur svolítið á því. Það er mikill kostnaður og bændur hafa jú ekki mikið á milli handanna.“

Þar með snýst umræðuefnið að lífsbaráttu bænda og kjörum, sem hafa mjög neikvæða ímynd í samfélaginu og virðist sveipuð mikilli svartsýni. „Sko, allt sem fer upp, það kemur niður. Og allt sem fer niður, kemur upp. Þannig að miðað við hvernig þetta er búið að vera trúi ég varla að þetta geti versnað mikið meir, nú hlýtur leiðin bara að liggja upp á við,“ segir Lauga og hlær áður en hún verður alvarleg og bætir við: „Það versta er hvað landbúnaður er talaður niður, bæði af fólki sem stundar landbúnað og þeim sem hafa ekki hundsvit á honum. Mér finnst það eiginlega verst af öllu að bændur eru bændum verstir oft og tíðum. Við erum stétt sem ætti að standa saman, þétt saman, vegna þess að við viljum öll það sama: það sem okkur ber fyrir okkar afurðir miðað við það sem við leggjum á okkur. Sem skilar sér ekki í dag. Og það er svolítið súrt að sjá þessa umræðu um innflutning á kjöti, þar sem við erum þegar með mjög góða og hreina vöru. Ég væri til í að sjá meiri útflutning, ég trúi því að þar séu tækifæri sem við nýtum ekki en þetta er ekki auðveldur markaður, það verður að viðurkennast.“

Standa með sinni sannfæringu

Lauga viðurkennir að þau Árni séu frekar bjartsýn að eðlisfari en þó að sumum þyki þau dálítið brjáluð finni þau líka fyrir miklum stuðningi og velvild. „Við erum heppin með það að hér eru góðir nágrannar, það er gulls ígildi. Og við ætlum bara að standa með okkar sannfæringu.“

Hún segist ekkert finna fyrir einmanaleika og finnur ekkert til einangrunar þótt um 40 mínútna akstur sé til Egilsstaða, þau hjónin hitti annað fólk í sínum störfum og fólkið þeirra sé duglegt að heimsæja þau. Þá séu það forréttindi að ala börn upp í sveit. „Það eru algjör forréttindi að geta hleypt þeim út nánast alveg lausum og þurfa ekki að hafa áhyggjur af bílaumferð. Hér er frelsi. Það er bara tvennt ólíkt að búa í bæ eða í sveit, bæði fyrir sálina og hugann. Þetta er lífið og þetta er það sem við viljum að börnin okkar búi við. Að fá að lifa og hrærast í þessu með okkur, rétt eins og við gerðum sem börn. Maður fékk að taka þátt í öllu, það var ekki bara sími og tölva og setið inni og horft á sjónvarpið heldur fengum við að lifa og hrærast í daglegu lífi. Að fá að gefa eitthvað af sér, skapa afurðir, og fá að taka þátt í lífinu. Það skiptir öllu máli.“

Þótt bændum fari fækkandi segir Lauga að hjón á fertugsaldri hafi einnig nýlega hafið búskap í sveitinni svo hún lætur engan bilbug á sér finna. „Maður getur ekki alltaf verið að bíða eftir því að sveitirnar verði fullar af ungu fólki, einhvers staðar verður að byrja og ég vona að við verðum bara til þess að fólki vilji hefja búskap, að við verðum fordæmi. Þetta er hægt, ef við gátum það þá geta þetta allir.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -