Fæst okkar myndu sætta sig við að fara út í búð eftir potti af mjólk en koma þaðan út með þvottaduft og klósettpappír líka því kaupmaðurinn hafi sagt að þetta færi nú að klárast heima hjá þér. Auðvitað myndi fólk ekki sætta sig við það heldur berja í borðið. Af hverju er þessu öðruvísi farið þegar kemur að rétti neytandans vegna keyptrar þjónustu hjá bílaverkstæðum?
Það hefur komið fyrir að viðskiptavinir bílaverkstæða reiði fram fúlgur fjár fyrir þjónustu sem ekki var beðið um. Einar Bjarni Einarsson, lögfræðingur hjá Neytendasamtökunum, hvetur fólk sem lendir í slíku til að leita réttar síns. „Unnt væri fyrir einstakling sem lendir í þessu að bera ágreininginn undir kærunefnd vöru- og þjónustukaupa og fá úr því skorið hvort þetta hafi verið í samræmi við lög um þjónustukaup,“ segir Einar sem hvetur neytendur til að kynna sér rétt sinn lendi þeir í atvikum sem þessum.
Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.