Fimmtudagur 25. júlí, 2024
12.8 C
Reykjavik

„Bjór með blóðbragði“ – Bjórinn hans Björgólfs og mafían

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Bjór með blóðbragði“ var ein af fyrirsögnum greinar sem birtist í danska blaðinu Ekstra Bladet þann 1. nóvember árið 2006. Umfjöllunarefni greinarinnar voru viðskiptaumsvif Björgólfsfeðga, Björgólfs Guðmundssonar og Björgólfs Thors Björgólfssonar, í Rússlandi og tenging uppbyggingar þeirra við blóðug mafíuátök þar í landi.

Athygli vekur að greinin í Ekstra Bladet kemur út heilum tveimur árum fyrir efnahagshrunið, en hún var liður í umfjöllunum um íslenska auðmenn og meint tengsl þeirra við spillingu og glæpi.

Björgólfsfeðgar höfðu auðgast vel á sölu Bravo-bjórverkmiðju sinnar í Sankti Pétursborg. Rússneska mafían hafði tögl og hagldir í ölgeiranum í Rússlandi og Ekstra Bladet sagði það furðu sæta að Björgólfsfeðgar og samstarfsmaður þeirra, Magnús Þorsteinsson, hafi sloppið þaðan auðugir menn. Sá síðarnefndi varð seinna aðaleigandi Avion Group.

Í grein blaðsins var einnig fullyrt að Björgólfsfeðgar hafi verið undir verndarvæng Vladimir Pútíns, núverandi Rússlandsforseta og þáverandi aðstoðarborgarstjóra Sankti Pétursborgar.

Skjáskot: Morgunblaðið

Leigumorð í nærumhverfi feðganna

Í sömu grein í Eksta Bladet er sagt frá blóðugum mafíuátökum í kringum bjórmarkaðinn í Sankti Pétursborg, á þeim tíma þegar Björgólfsfeðgar voru að byggja þar upp veldi sitt. Dæmi um þau átök er leigumorðið á þingkonunni Galinu Starovojtovu árið 1998 en hún var skotin í hnakkann fyrir utan heimili sitt. Ráðgjafi hennar greindi seinna frá því í réttarsal að skömmu áður en hún var myrt hafi aðilar á vegum Björgólfs Thors leitað til hennar og óskað eftir hjálp hennar vegna þvingana sem var verið að beita Bravo-verksmiðjuna. Samkvæmt Ekstra Bladet hafi tvö fyrirtæki viljað þvinga verksmiðjuna í viðskipti.

Ári seinna myrtu leigumorðingjar Aslanbek Gallojev. Gollojev var tengdur Baltika-bjórverksmiðjunni sem var helsti keppinautur Björgólfsfeðga á markaðnum á þessum tíma. Aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, Ilja Weisman, var einnig myrtur árið 2000.

- Auglýsing -

Fleiri höfðu sett spurningamerki við hagnað feðganna í Rússlandi. Þannig skrifaði blaðamaðurinn Ian Griffiths grein í blaðið The Guardian þar sem hann fullyrti að viðskiptaumsvif Björgólfsfeðga væru byggð á rússneskum mafíupeningum. Hann velti því upp hvernig það hafi gerst að Bravo-verksmiðja feðganna hafi rutt sér til rúms og gerst ráðandi á markaðnum. Í greininni fór hann yfir andlát samkeppnisaðilanna sem báðir voru skotnir. Hann nefndi einnig annað brugghús sem hafi mætt skyndilegum endalokum þegar það brann. Grunur hafi leikið á um íkveikju. Griffiths fullyrti í greininni að rússneska mafían hafi mikið skipt sér af brugghúsunum í Sankti Pétursborg, en borgin var þekkt fyrir að allt væri þar undir vökulu auga rússnesku mafíunnar.

Bravo-verksmiðjan náði afar sterkti stöðu á Rússlandsmarkaði. Þegar best lét hafði fyrirtækið 25 prósenta markaðshlutdeild í Sankti Pétursborg og sex prósent í öllu Rússlandi.

Árið 2002 keypti alþjóðlegi bjórrisinn Heineken bruggverksmiðju feðganna. Við það tækifæri höfðu talsmenn Heineken á orði að ein af ástæðunum fyrir því að þeir hefðu viljað kaupa Bravo-verksmiðjuna hefði verið að hún væri ekki tengd rússnesku mafíunni. Björgólfsfeðgar tóku tilboði Heineken, sem hljóðaði upp á fjögur hundruð milljónir dollara.

- Auglýsing -

Björgólfur Thor hefur alltaf þvertekið fyrir tengsl við rússnesku mafíuna og sagði til að mynda í viðtali við Morgunblaðið árið 2000: „[…]við höfum getað gert þetta án þess að þiggja hjálp frá óprúttnum náungum.“

Skjáskot: mbl.is

Skýrsla og Kastljós

Árið 2011 fjallaði Kastljós um skýrslu Kroll, þar sem því var haldið fram að Björgólfsfeðgar hefðu byggt upp bjórveldi sitt í Rússlandi í samstarfi við spillta rússneska stjórnmálamenn, enda hafi viðskiptaumhverfið í Rússlandi verið slíkt á þessum tíma að nánast ómögulegt hafi verið að ná árangri án þess konar pólitískra tengsla.

Í skýrslunni er talið að Jeffrey Galmond hafi haft milligöngu um samskipti Björgólfs Thors við rússneska áhrifamenn til framdráttar viðskiptaveldi hans.

Björgólfur Thor hefur ávallt neitað þessu og var ósáttur með umfjöllun Kastljóss. Þar sagði hann skýrsluna byggja á dylgjum og slúðri. Lyfjafyrirtækið Barr Pharmaceuticals hafi óskað eftir skýrslunni, en Barr hafi á þeim tíma barist við lyfjafyrirtækið Actavis, sem var í eigu Björgólfs, um lyfjafyrirtækið Pliva.

Björgólfur sagðist aldrei hafa verið í viðskiptum við Jeffrey Galmond eða Leonid Reiman, fyrrverandi samskiptaráðherra Rússlands. Ennfremur sagði hann það af og frá að mennirnir hefðu aðstoðað hann við að afla sér viðskiptasambanda í Austur-Evrópu.

 

Heimildir:

DV: Berst fyrir virðingu

DV: Spillingin í Rússlandi

Vísir: Tengja fjármálaveldi við blóðug mafíuátök í Rússlandi

The Guardian: Next-generation Viking invasion

Morgunblaðið: Ævintýraþráin látin ráða ferðinni

Fréttablaðið – Markaðurinn: Vinaböndin traust frá Rússlandsárunum

Viðskiptablaðið: Björgólfur segir skýrslu Kroll innihalda dylgjur

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -