Sunnudagur 21. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Dæmdur fyrir morðið á ungri eiginkonu sinni – „Er hún ekki falleg?“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Að kvöldi sunnudagsins 10. janúar 1988 hringdi Bragi Ólafsson í lögregluna í Reykjavík og bað hana að koma á heimili sitt að Klapparstíg 11. Í samtali við lögreglu taldi Bragi að eiginkona sín, Gréta Birgisdóttir, hefði hengt sig. Þegar lögregla kom á vettvang sagði hann þau hafa drukkið mikið dagana á undan sem varð til þess að hann hafi sofnað ölvunarsvefni. Þegar hann vaknaði hafi hann séð Grétu hanga í „kaðalspottum í svefnherbergisdyrunum“, sem hann leysti hana úr og lagði á gólfið. Bragi endurtók í sífellu að Gréta hafi haft orð á því að hún ætlaði að fyrirfara sér. Bragi Ólafsson var handtekinn á staðnum og úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Í dómi sakadóms Reykjavíkur, í júní 1988, kemur fram að skýringar Braga hafi ekki verið teknar trúanlegar. Bragi hafi verið mjög ölvaður þegar lögregla kom á vettvang og frásögn hans óljós. Í fyrstu var framburður Braga sá að hann hafi fundið eiginkonu sína hangandi í böndum. Tveimur dögum síðar sagði hann Grétu hafa skvett á sig vatni og sagst ætla að kasta sér fram af svölunum þar sem þau bjuggu. Tíu dögum síðar breyttist framburður Braga aftur þegar hann sagði við yfirheyrslu hjá lögreglu að átök hefðu orðið með þeim um nóttina. Sagði hann Grétu hafa ráðist á sig sem endaði með því að hann hafi gripið böndin, snúið þeim um háls hennar og höfuð svo að hertist. Sagðist hann síðan hafa sofnað. Frammi fyrir sakadómi Reykjavíkur 3. febrúar lýsti Bragi því loks yfir að hann axli ábyrgð á láti eiginkonu sinnar, en bætti því svo við að hún hafi samt stytt sér aldur, því að hann hafi einungis vafið böndunum um höfuð hennar og háls og skilið hana eftir á þann hátt. Bragi Ólafsson varð að lokum dæmdur í átta ára fangelsi og þótti sannað að ákærði hefði „gerst brotlegur við 211. grein almennra hegningarlaga“, en sá dómur var þyngdur um tvö ár í Hæstarétti í apríl árið 1989.

Tæpum tíu árum síðar tók Gerður Kristný viðtal við Braga sem þá var laus úr fangelsi. Bragi hélt sig fast við sjálfsvígsfrásögnina. Þar sagðist hann hafa kynnst Grétu þegar hún var aðeins 17 ára gömul en sjálfur var hann þá 42 ára. Hann sagðist hafa komið henni til bjargar þar sem hann sá þrjá menn abbast upp á hana í miðbænum og samband þeirra hafi þróast frá og með þeim degi. Undir lok viðtalsins kemur fram að Bragi hafði mynd af Grétu við rúmið sitt í hjartalaga ramma. „Ég býð henni góðan daginn á hverjum morgni og góða nótt á kvöldin,“ sagði Bragi í viðtalinu. Hann skoðaði myndina alvarlegur á svip, leit svo upp og spurði: „Er hún ekki falleg?“.

Heimildir: „Ég veit hvað höfuð þitt vó en þekki ekki síðustu hugsunina“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -