Föstudagur 19. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Íslensk kona fannst látin í íbúð sinni í miðborg Genfar – Franskur karlmaður játaði á sig morðið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vivan Hrefna Óttarsdóttir hafði nýlega skilið við seinni eiginmann sinn er hún skrapp út að skemmta sér í miðborg Genfar. Kom hún heim með mann upp á arminn snemma morguninn eftir en áður en hún fór inn í svefnherbergi með honum kíkti hún inn til 15 ára dóttur sinnar og bauð henni góðan dag. Klukkan 11 blasti hræðileg sjón við lögreglunni. Vivan hafði verið myrt á hrottafenginn hátt og hafði morðinginn einnig reynt að nauðga dóttur hennar. Skyndikynnin höfðu breyst í martröð.

Vivan Hrefna var 39 ára gömul, fædd 19. apríl árið 1956. Hún var líffræðingur og starfaði að ýmsum verkefnum fyrir umhverfismálastofnun Sameinuðu þjóðanna í Genf, þar sem hún hafði verið búsett í nokkur ár, og vann einnig einstök verkefni fyrir lyfjafyrirtæki.

DV fjallaði um málið á sínum tíma en morðið var framið árið 1995.

Íslensk kona, Vivan Hrefna Óttarsdóttir, 39 ára líffræðingur, sem búsett hafði verið í Genf um árabil, fannst látin í íbúð sinni í miðborg Genfar á ellefta tímanum á laugardagsmorgun. Greinilegt var á ummerkjum að hrottalegur atburður hafði átt sér stað í íbúð konunnar því hún fannst kefluð í rúmi sínu og með plastpoka hertan að höfðinu. Konunni hafði að sögn

lögreglu verið nauðgað. Vivan hafði komið heim af skemmtistað með banamanni sínum klukkan sjö um morguninn. Hún leit sem snöggvast inn í svefnherbergi 15 ára dóttur sinnar og bauð henni góðan dag. Eftir það sofnaði stúlkan aftur.

Þegar dóttir Vivan vaknaði aftur um tíuleytið varð hún vör við ókunnan mann sem reyndist vera á flótta út úr íbúðinni eftir morðið. Hann réðst á stúlkuna með gaffli og hafði í hótunum við hana eftir að hafa þrýst peysu yfir andlit hennar svo hún bæri ekki kennsl á sig. Maðurinn gerði því næst tilraun til að nauðga stúlkunni. Þegar maðurinn hvarf loks á brott tókst stúlkunni að gera nágrönnum sínum viðvart. Lögreglan var strax kvödd á staðinn og hófst þegar leit að ódæðismanninum því ljóst var að um hrottalegt morðmál var að ræða. Í svissneska sjónvarpinu var lýst eftir vitnum sem gætu gefið vísbendingar um ferðir hinnar látnu aðfaranótt sunnudagsins. Vitni sem gáfu sig fram þegar eftir fréttatíma sjónvarpsins gátu gefið lögreglunni greinargóða lýsingu á manninum sem Vivan hafði sést í fylgd með um nóttina. Sú lýsing virtist koma heim og saman við lýsingu dótturinnar á árásarmanninum. Eitt vitnanna gat nafngreint manninn og bent á hvar hann væri líklegast að finna. Um kvöldið tókst svissnesku lögreglunni í framhaldi af því að rekja slóð mainnsins á veitingastað í Genf þar sem hann var handtekinn og síðar um kvöldið játaði hann að hafa orðið íslensku konunni að bana.

Maðurinn, sem er 38 ára gamall Frakki, var ólöglega búsettur í Genf, starfaði sem múrari og hafði ekki áður komist í kast við lögin, hvorki í Sviss né Frakklandi. Maðurinn og sú látna þekktust ekkert fyrir atburðinn. Dóttur konunnar var strax komið undir læknis hendur. Hún nýtur nú umönnunar vinafólkssins. Stúlkan er dóttir Vivan Hrefnu Óttarsdóttur og fyrri eiginmanns hennar sem er íslenskur. Seinni eiginmaður Vivan er Svisslendingur en þau
slitu nýlega samvistum. Hin látna starfaði af og til við rannsóknir á vegum Sameinuðu þjóðanna í Genf.

Lögreglan í Genf þakkar bæði almenningi og fjölmiðlum hversu fljótt tókst að upplýsa þetta óhugnanlega morðmál sem slegið hefur óhug á fólk i Sviss og orðið forsíðuefni dagblaða þar.

- Auglýsing -

Maðurinn var sakfelldur fyrir dómi en hlaut sorglega vægan dóm, ekki nema 15 ára óskilorðsbundna refsingu.

Baksýnisspegill þessi birtist fyrst 8. apríl 2022

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -