Þann 3. maí árið 1984 gerðist það óhugnarlega atvik að tveir fimmtán ára drengir voru teknir nauðugir í Hafnarfirði og fluttir í bifreið upp á Bláfjallaafleggjarann.
DV fjallaði um málið á þeim tíma, en drengirnir náðu að ganga upp að Bláfjallaskála þar sem þeir hringdu á lögregluna:
„Tveir 15 ára piltar voru teknir nauðugir í Hafnarfirði og fluttir í bíl upp á Bláfjallaafleggjarann í gærkvöldi en þaðan komust þeir svo við illan leik í Bláfjallaskálann þar sem þeim tókst að hringja í lögregluna sem sótti þá hingað um miðnættið,“ sagði í frétt DV.
Þá var rætt við Steingrím Atlason, þáverandi yfirlögregluþjón í Hafnarfirði, sem sagði að forsaga málsins hafi verið stuldur á reiðhjóli í Garðabæ, en í fréttinni segir:

„Sjónarvottur að ráninu gaf upp lýsingu á tveimur eða þremur piltum sem tóku hjólið og fór einn af heimilinu út að svipast um eftir piltunum. Við Asparlund sá hann pilta sem lýsingin átti við og spurði þá um hjólið. Þeir neituðu að hafa tekið það og bað hann þá piltana um að stíga upp í bílinn þar sem hann ætlaði að aka þeim á lögreglustöðina. Þeir gerðu það en þá var keyrt með þá upp í Bláfjallaafleggjarann eins og fyrr segir.“

Steingrímur yfirlögregluþjónn sagði að atburðinn mætti flokka undir mannrán:
„Þetta er eitt af því sem enginn ætti að gera af sjálfsdáðum.“
Aðspurður hvort piltunum hefði verið misþyrmt sagði Steingrímur ekki telja að svo væri, ekkert væri um slíkt í lögregluskýrslu um málið, sem var í kjölfarið rannsakað hjá lögreglunni í Hafnarfirði á þeim tíma og þótti allt hið undarlegasta.