Fimmtudagur 25. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Kæra Katrín: „Ég hlýt að vera óalandi óferjandi og gallað manneskjueintak“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

“Kæra Katrín. Kveikjan að bréfi þessu eru drög að frumvarpi þínu til laga sem hefur það að
markmiði að setja heildarlög um sanngirnisbætur til handa einstaklingum sem
orðið hafa fyrir varanlegum skaða vegna illrar meðferðar eða ofbeldis sem þeir
hafa orðið fyrir vegna athafna eða athafnaleysis opinberra aðila.
Ég skrifa þér fyrir hönd lítillar stúlku sem hefur ekki þroska né getu til að tjá sig.
Hún var vistuð frá unga aldri fyrst á Elliðahvammi síðan á Silungapolli þessu
næst á Reykjahlíð, Hlaðgerðarkoti og svo á einkaheimili.
Þegar aldurinn tók að færast yfir hana gerði hún sér grein fyrir að þessar
uppeldisaðstæður voru ákaflega óvenjulegar svo ekki sé meira sagt.

Hún var nauðungavistuð á barnaheimilum og fósturheimilum án þess að fá að
hitta fjölskyldu sína. Jú, heimsóknir voru leyfðar en þessir staðir voru fyrir utan
bæinn og fátæk móður hennar var bíllaus. Aðferð hennar til lifa af þessar
vistanir var sú sama og annarra fanga, að láta sig dreyma um daginn sem hún
losnaði úr vistinni.

Það yrði of langt mál að fara hér út í þá meðferð sem hún og önnur börn sem
vistuðust á þessum stöðum hlutu. Meðferð sem markaðist af þvingunum,
frelsissviptingu, stundum kynferðisofbeldi, andlegu ofbeldi og einelti.
Sýndareftirlitið sem átti sér stað af hálfu opinberra yfirvalda fólst í heimsóknum
og viðtölum við yfirmenn þessara stofnana. Við vorum aldrei spurð.
Mannréttindi þeirra voru fótum troðin. Genfarsáttmálinn þverbrotinn. En hvað
með það? Íslensk yfirvöld höfðu jú ekki undirritað hann.
Hún ólst upp við tíðaranda þagnarinnar með kynslóð sem dæmdi og útskúfaði
einstaklingum og fjölskyldum sem stóðu hallloka í samfélaginu.
Sumir glíma við skömm vegna eigin mistaka í lífinu. Hún glímdi við skömm
vegna úrræða sem hún bar enga ábyrgð á.

Nú má ætla að stjórnvöld og uppeldisaðilar þessa tíma gætu gert sér grein fyrir
hvaða áhrif það hefur á börn að vera lokuð inni, fjarri foreldrum og fjölskyldu,
árum saman. Alla vega voru komnar fram nokkuð áreiðanlegar umfjallanir
sálfræðinga og geðlækna um slíka meðferð á börnum. En nei slík þekking hafði
engin áhrif á gjörðir þessara meðferðaraðila. Svo þessi litla stelpa dró
eftirfarandi ályktun:

Ég hlýt að vera óalandi óferjandi og gallað manneskjueintak úr því að komið er
svona fram við mig.
Ef einhver hefði spurt hana um líðan sína og viðhorfa til lífsins hefði hún
kannski geta tjáð sig um þessa auðsýndu fyrirlitningu og það virðingarleysi fyrir
rétti hennar sem manneskju sem yfirvöld sýndu henni með þessari meðferð. En
það spurði enginn. Hún átti mörg þjáningarsystkin sem þurftu að þola sömu
meðferð.

Í samráðsgátt stjórnvalda komu fram margar athugasemdir við þetta frumvarp,
örfáir skrifuðu undir með nafni en flestir þó án þess að láta nafns síns getið.
Hvers vegna skyldi fólk kjósa að skrifa ekki undir með nafni? Er ástæðan
kannski sú að þessir nafnlausu einstaklinga eru enn svo djúpt markaðir af
skömm vegna vistunarinnar að þeir kjósa að skrifa nafnlaust.

- Auglýsing -

Kæra Katrín.
Ég vil nú víkja að þessum drögum að frumvarpi þínu til laga um
sanngirnisbætur. Þar ætlar þú að lækka hámarksupphæð bóta til handa
einstaklingum úr 6 milljónum niður í 3 milljónir. Hvað skyldi svo vera hægt að
gera fyrir 3 milljónir? Skyldu 6 milljónir eða 3 milljónir nægja fyrir meðferð hjá
sálfræðingi eða bæta upp skort á menntun eða skerta vinnugetu vegna
ógreindrar áfallastreyturöskunar, sem þróast hefur í krónískt þunglyndi? Nú
eða árin sem fóru í brennivín og fíkniefnaneyslu sem mörg okkar lifðu reyndar
ekki af?
Í frumvarpsdrögunum sem ég vísa í hér að framan segir orðrétt: „þeim sem
urðu fyrir varanlegum skaða”. Hvernig dettur þér í hug að bjóða manneskju
sem orðið hefur fyrir varanlegum skaða slíka upphæð? Þessar upphæðir eru
hlægilegar en ekki bara hlægilegar heldur sýna þær algjöran skort á skilningi á
þeirri mannlegu þjáningu sem við urðum að þola á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.
En upphæðirnar sýna ekki bara skilningsleysi heldur líka algjöran skort á
virðingu fyrir lífi einstaklinga sem ólust upp á ábyrgð íslenska ríkisins.
Nei, Kæra Katrín.
Í krafti embættis þíns fetar þú í fótspor fyrri stjórnvalda þessa lands sem leyfðu
að börn væru vistuð eins og fangar á barnaheimilum og einkaheimilum sem
virtust geta starfað án eftirlits og laga.

Rósa Ólafía Ólafardóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -