Fimmtudagur 28. mars, 2024
0.8 C
Reykjavik

Lifðu hátt fyrir lítinn pening – Seldu óþarfa hluti á sölusíðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Covid-19 höfum við flest séð einhverja breytingu á högum okkar, hvernig við lifum, eyðum og spörum. Atvinnuleysi er gríðarlegt og margir hafa þurft að horfast í augu við skertan vinnutíma og tekjur. Mörg okkar hafa minna á milli handanna en það er ekki þar með sagt að við þurfum að hætta að lifa lífinu!

Hér eru nokkur ráð til að halda bæði í budduna og klassann!

Veldu gæði umfram magn

Hvort sem þú þarft að fylla innkaupakörfuna eða fataskápinn er mikilvægt að velja gæði umfram magn. Þegar maður kýs eða þarf að lifa sparlega skiptir máli að versla sjaldan en velja gæði. Bæði gefst þá tími og svigrúm til að spara fyrir dýrari hlutum og svo er maður gjarnan mikið ánægðari með vandaða og endingargóða hluti. Farðu frekar einusinni fínt út að borða en oft í skyndibitann því það er bæði hollara, ódýrara þegar upp er staðið og svo situr upplifunin lengur í þér.

Leyfðu þér frekar í hádeginu en að kvöldi til

Oft er hægt að fá frábær hádegistilboð á fínni stöðum. Þú borgar minna en maturinn er alveg jafn góður.

- Auglýsing -

Færðu kaffihúsið heim til þín

Frekar en að eyða hundruðum eða þúsundum í kaffidrykki jafnvel daglega er þjóðráð að flytja kaffihúsið heim. Sælkerakaffi frá bæði Te og Kaffi og Kaffitár fæst í lágvöruverslunum á fínu verði en með tilliti til útgjaldanna sem hljótast af því að kaupa þér kaffidrykk daglega verður fjárfesting í to-go bolla og kaffigræjum fljót að borga sig.

Stundum er nóg að grípa fylgihlutina

- Auglýsing -

Það getur verið dýrt að tolla í tískunni en ef maður velur sér endingargóðar flíkur getur verið nóg að splæsa frekar í fylgihluti eins og úr, skartgripi, töskur o.þ.h. til að lífga upp á fataskápinn þangað til að buddan leyfir nýjan alklæðnað.

Notaðu útsölurnar

Reiknaðu með að kaupa sem mest á útsölum. Það er hægt að fá fína vöru á góðu verði með því að gera ráð fyrir því að eyðslan lendi á útsölutímum.

Klæddu þig upp

Til hvers að eiga vandaðar flíkur ef maður endar alltaf í joggíngbuxum og hettupeysu? Að klæða þig upp í uppáhalds gallabuxurnar og góða jakkann þó þú sért bara að fara í tvær búðir í Kringlunni er ekkert nema gott fyrir sjálfstraustið.

Láttu nema klippa þig

Nemar í Tækniskólanum þurfa reglulega hármódel. Sparaðu þér jafnvel tugi þúsunda með því að detta inn sem módel hjá fólki sem er að læra hársnyrtiiðn. Það er ekkert að óttast því kennararnir eru á staðnum til að leiðbeina þeim.

Gerðu ráð fyrir að leyfa þér smá

Þó maður lifi spart er nauðsynlegt að setja smá lúxus í fjárhagsáætlunina. Að fara einusinni í mánuði í nudd, Sky Lagoon, Bogfimisetrið eða gerðu eitthvað sem veitir þér ánægju. Það er ómögulegt að lifa svo spart að að maður upplifi sig í einhverskonar fangelsi.

Nýttu náttúruna sem líkamsræktartæki

Segðu upp líkamsræktarkortinu og gakktu heldur á fjall, röltu eða hlauptu um nærumhverfi þitt, nýttu Skólahreystistöðvarnar og Klambratúnið. Nýttu íþróttavelli. Það eru allar líkur á að útsýnið sé nokkru skárra en það sem blasir við á hlaupabrettinu, líka fyrir myndavélina.

Farðu í styttri ferðir innanlands

Það getur fleytt manni lengur að fara í fleiri styttri frí en eitt langt á ári. Þrátt fyrir allt er gríðarlegt framboð af flottum, heimsklassa ferðaþjónustufyrirtækjum og hótelum hér heima sem mörg hver bjóða upp á afslætti utan ferðamannatímabilsins. Flest stéttarfélög halda úti sumarhúsum og svo er hægt að skella sér dagsferðir út í náttúruperlurnar okkar.

Fáðu meira fyrir krónuna í útlöndum

Þegar þú svo vilt fara til útlanda er rakið dæmi að skoða hvar þú færð sem mest fyrir krónuna. Verðlag á svæðum breytist auðvitað en Prag og Búdapest eru dæmi um staði þar sem fólk hefur getað farið í rándýr frí fyrir lítinn pening.

Fáðu færri en stærri gjafir

Ekki hika við að biðja fólk að slá saman í stærri hluti handa þér í t.d. afmælis- eða jólagjafir sem þú hefur meiri not fyrir en einn kaffibolla úr stelli sem þú safnar ekki og ómerkt skraut sem er greinilega úr Rúmfatalagernum. Kannski er staðan þannig að þú sért að spara þér fyrir ákveðnum dýrum hlut sem fólkið þitt getur ekki slegið saman í en þá er allt í lagi að biðja um gjafakort til að þoka þér nær takmarkinu.

Seldu draslið á Facebook

Finndu til draslið sem þú notar ekki og seldu það á sölusíðunum. Drasl fyrir þér getur verið fjársjóður í augum annara og fjármunina getur þú svo nýtt í það sem skiptir þig máli.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -