Fimmtudagur 28. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Mannskæðasta slys íslenskrar flugsögu: „Ljósin hurfu andartak, en svo fór um mig angistarhrollur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leifur Eiríksson, DC-8-þota Flugleiða, fórst í aðflugi við Katunayake-flugvöll í Kólombó, á Srí Lanka árið 1978.

Hér er um er að ræða mannskæðasta flugslys gjörvallrar, íslenskrar flugsögu; 183 fórust, þar af átta Íslendingar er voru starfsmenn Flugleiða.

 

Vélin var á leið frá Sádi-Arabíu með pílagríma frá Indónesíu á leið til síns heima. Millilenda átti í Kólombó þar sem aukaáhöfn og starfsmenn áttu að verða eftir.

Í ömurlegu veðri og verulega slæmu skyggni brotlenti vélin á kókoshnetuplantekru rétt fyrir miðnætti; tveimur kílómetrum frá enda flugbrautarinnar.

- Auglýsing -

Sögðust nokkrir sjónarvottar hafa heyrt öfluga sprengingu um leið og vélin rifnaði í þrjá hluta er hún féll til jarðar.

 

- Auglýsing -

Í bókinni Útkall: Leifur Eiríksson brotlendir, eftir Óttar Sveinsson, segir frá því þegar Bjarni Ólafsson flugvirki stóð úti á flugvellinum:

„Ég sá þegar vélin var um það bil að koma niður til jarðar, var að fara að lenda. Ljósin á henni hurfu andartak, en svo fór um mig angistarhrollur: Allt í einu sá ég bjarma af miklum eldblossa.“

Úr þessu hörmulega flugslysi komust 79 manns lifandi; þar af fimm Íslendingar. Þeir voru flugfreyjurnar Jónína Sigmarsdóttir, Kristín E. Kristleifsdóttir, Oddný Björgólfsdóttir og Þuríður Vilhjálmsdóttir, sem og Harald Snæhólm flugstjóri.

Á flugvellinum beið áhöfn Dagfinns Stefánssonar flugstjóra eftir vélinni; áhöfnin átti að taka við vélinni og flytja pílagrímana áfram til Indónesíu.

Sat hópurinn í farþegasal flugvallarins er maður kom til þeirra og flutti þeim hin hörmulegu tíðindi:

„Hann horfði á okkur öll og sagði: „Your plane was crashing!“ segir Lilja Sigurðardóttir í áðurnefndri bók Óttars Sveinssonar, en Lilja var meðlimur áhafnarinnar:

„Við horfðum bara öll á hann steini lostin og göptum. „No, no, no,“ sögðum við. „Það getur ekki verið!““

Þeir fimm af Íslendingunum sem lifðu flugslysið af voru fluttir á sjúkrahús í Kólombó og var enginn þeirra lífshættulega slasaður.

Þann 19. nóvember lenti Sólfaxi, Boeing 727-þota Flugleiða, á Íslandi með lík sjö þeirra átta Íslendinga sem fórust. Fjöldi starfsmanna Flugleiða stóð heiðursvörð við móttökuathöfnina og íslenska þjóðin var öll harmi slegin.

Var rannsókn yfirvalda á Srí Lanka gagnrýnd af Flugmálastjórn Íslands; niðurstaða rannsóknarinnar var sú að gáleysi flugmanna hefði verið aðalorsakavaldur flugslyssins.

Hópur íslenskra rannsóknarmanna var sendur utan og komst hann að annarri niðurstöðu; taldi ýmislegt athugavert við flugstjórnar- og aðflugstæki flugvallarins.

Voru fulltrúar annarra flugfélaga á sama máli; var gefin var út rannsóknarskýrsla í samráði við ameríska sérfræðinga er stangaðist verulega á við niðurstöður fyrri rannsóknar.

Niðurstaða nýju rannsóknarinnar var sú að aðalorsakir slyssins hefðu verið skortur á viðhaldi aðflugstækja og að áhöfn flugvélarinnar hefði fengið rangar upplýsingar frá flugturni.

Einnig var veðrið talið hafa átt mikinn þátt varðandi slysið; mikil rigning var er slysið varð; mikill vindur og niðurstreymi.

Mætti íslenski rannsóknarhópurinn mörgum erfiðum hindrunum við rannsókn sína; taldi að um yfirhylmingu yfirvalda á Srí Lanka væri að ræða.

Í áðurnefndri bók Óttars Sveinssonar, Útkall: Leifur Eiríksson brotlendir, á Skúli Jón Sigurðsson, fyrrverandi deildarstjóri flugrekstrar- og rannsóknardeildar Flugmálastjórnar Íslands, lokaorðin í, en bókin er tileinkuð minningu Íslendinganna átta og þeirra 175 Indónesa er fórust í þessu hræðilega flugslysi:

 

„Flugmennirnir komu þarna grunlausir og treystu aðflugstækjum flugvallarins eins og þeir voru þjálfaðir til að gera. Rangar leiðbeiningar flugumferðarstjórans féllu saman við gölluð og hættuleg aðflugstækin. […] Það gerði þetta svo enn verra að þarna voru maðkar í mysunni, svo ekki sé meira sagt, hjá yfirvöldum á Srí Lanka og nánast fyrirfram ákveðið að þarna skyldi hylmt yfir – þarna átti ekki að leiða allan sannleikann í ljós. En nú hefur það loksins verið gert.“

Heimildir:

https://www.visir.is/g/20131399667d (sótt 22. febrúar 2023).

Útkall: Leifur Eiríksson brotlendir, Óttar Sveinsson, 2006, Útkall bókaútgáfa. 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -