Fimmtudagur 20. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

„Þetta gefur mér meiri tíma með konunni og börnum og það er það sem ég vil“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það má aldrei segja nákvæmlega hvað þetta er og fyrir hvern fyrr en þeir eru búnir að henda út fréttatilkynningu, sem þeir eru semsé ekki búnir að gera. En þetta er tíu þátta sjónvarpssería sem gerist í geimnum fyrir eina af stóru streymisþjónustunum í heiminum. Sem sagt sci-fi geimdrama,“ segir leikarinn Jóhannes Haukur Jóhannesson.

Hann hefur verið í Höfðaborg í Suður-Afríku síðustu sex vikur við tökur á erlendri sjónvarpsseríu og verður þar í þrjár vikur til viðbótar. Hann segir ferlið hingað til hafa verið ljúft og að þægilegt sé að vinna við seríuna, ef svo má segja, þar sem hún er öll tekin upp í myndveri.

Jóhannes fékk fjölskyldu sína í heimsókn til Höfðaborgar fyrir stuttu.

„Af því að serían gerist í geimnum er allt tekið upp í myndveri, þannig að þetta er eins þægilegt og kvikmyndagerð getur orðið. Það er nú oftar en ekki þannig að maður þarf að díla við alls kyns tökustaði þar sem veður, fjarlægðir og því um líkt er alltaf að breytast. En hér fer ég alltaf á nákvæmlega sama staðinn og ef það skyldi rigna, sem gerist sjaldan, skiptir það engu máli því við erum inni í hljóðeinangruðu myndveri. Þannig að þetta er ansi gott, þó að það sé auðvitað langt að fara hingað. Það er ekki eins og ég eigi heima hérna hinum megin við hornið,“ segir Jóhannes sposkur á svip.

Sjónvarpsþættirnir eru ólíkir öðru sem Jóhannes hefur tekið sér fyrir hendur en hann hefur leikið meira í erlendum verkefnum en innlendum síðustu árin. Meðal þess sem hann hefur leikið í eru sjónvarpsþættirnir A.D. The Bible Continues og Game of Thrones og kvikmyndin Atomic Blonde. Þá lauk hann nýverið við tökur á sjónvarpsþáttunum The Innocents fyrir Netflix.

„Fjölbreytni er eitthvað sem maður tekur fagnandi í þessum bransa. Mér finnst ég alltaf vera eins og fiskur á þurru landi í hverju verkefni sem ég byrja í, sérstaklega í þessum erlendu verkefnum. Þau eru svo ólík. Á undan geimdramanu var ég að leika í tveimur bíómyndum; önnur gerist um borð í skipi og hin er 19. aldar vestri. Þetta þrennt er allt mjög, mjög ólíkt hvað öðru. Ég vil forðast að gera hluti sem virka eins fyrir mér en svo náttúrlega ræð ég því ekkert sjálfur hvaða tækifæri mér bjóðast. Ég er allavega þakklátur fyrir að fá svo fjölbreytt verkefni í hendurnar,“ segir þessi fjölhæfi leikari.

- Auglýsing -

Fjölskyldutíminn skiptir mestu máli

Jóhannes á þrjú börn með eiginkonu sinni, Rósu Björk Sveinsdóttur. Þau heimsóttu hann nýverið til Höfðaborgar og eyddi fjölskyldan saman þremur vikum, en fjölskyldutíminn skiptir Jóhannes öllu máli.

Jóhannes og Rósa styðja hvort annað í gegnum þykkt og þunnt.

„Ég tek aldrei ákvarðanir um verkefni án þess að skoða hvaða áhrif þau hafa á minn tíma með fjölskyldunni. Hann skiptir mig mestu máli. Ef ég horfi á síðastliðin þrjú ár hef ég verið að jafnaði þriðjung af árinu í útlöndum og tvo þriðju heima. Þessa tvo þriðju hluta er ég nánast bara í fríi. Þegar ég skoðaði þetta verkefni fannst mér of mikið að vera níu vikur frá fjölskyldunni en þegar ég skoðaði þetta með konunni sagði hún mér að hana hefði alltaf langað til að fara til Höfðaborgar. Þannig að við höfðum þetta þannig að ég var einn hér í þrjár vikur, síðan kom konan með börnin og var hjá mér í þrjár vikur og svo er ég einn í þrjár vikur í restina. Þannig að í raun er ég bara í þrjár vikur í burtu sitthvoru megin við fríið með þeim. Svo verð ég í fríi í dágóðan tíma eftir að ég kem heim. Ég leyfi þessu ekki að taka of stóran bita af fjölskyldulífinu. Konan hefur reyndar heimsótt mig með börnin í öll erlendu verkefnin sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Hún hefur komið til Ungverjalands, Marokkó, Vancouver í Kanada og til Bretlands, sem er rosalega gaman og mikið ævintýri fyrir alla,“ segir Jóhannes, en tökuplanið var fjölskyldunni hliðhollt í nýlegri heimsókn til Höfðaborgar.

Það var ýmislegt brallað þegar fjölskyldan átti frítíma saman í Suður-Afríku.

„Það raðaðist þannig að þessar þrjár vikur sem þau voru hér þá held ég að ég hafi unnið í fimm daga samtals, sem var æðislegt. Þrír af þessum fimm dögum voru hálfir dagar þannig að það var eins og ég hefði hannað þetta sjálfur sem var ofboðslega gott.“

- Auglýsing -

Betur borgað en á Íslandi

Jóhannes kann vel við að ferðast um heiminn á vit nýrra og krefjandi verkefna, eins og hann hefur gert nánast eingöngu síðastliðin fjögur ár.

„Mér finnst þetta algjör forréttindi. Ég fæ að heimsækja staði í heiminum sem ég hef aldrei komið til áður. Ég finn líka hvað þetta gefur mér mikinn frítíma. Ég hef miklu meiri frítíma núna en nokkurn tíma þegar ég var að vinna á Íslandi. Þetta tekur ekki yfir allan minn tíma á árinu og er töluvert betur borgað en að vera leikari á Íslandi. Þetta gefur mér meiri tíma með konunni og börnum og það er það sem ég vil. Ég er þakklátur fyrir þessar aðstæður sem ég er í núna og vil endilega halda þessu áfram,“ segir Jóhannes. Nánasta framtíð er óráðin þegar kemur að verkefnum.

„Akkúrat núna er bara frí sem tekur við eftir tökur í Höfðaborg. Ég vil helst vera í fríi þangað til í haust. Netflix-serían The Innocents verður frumsýnd í júlí og ef ákveðið verður að gera aðra seríu er ég samningsbundinn að leika í henni. Þá fer ég aftur í tökur í september eða október, að því gefnu að verði gerð önnur sería sem ég veit ekki fyrr en í ágúst. Mögulega leik ég í skandinavískri bíómynd í ágúst en það er allt á samningsstigi og ekkert ákveðið. En það væri gaman,“ segir leikarinn.

Hvar er fastráðningin í Þjóðleikhúsinu?

En á hann eftir að uppfylla einhverja drauma á ferlinum?

„Ég er allavega kominn á ákveðinn stað sem mig óraði ekki fyrir að ég myndi komast á. Ég hef alltaf tekið eitt skref fram á við en aldrei horft á einhvern endapunkt. Þegar ég var í leiklistarskólanum hugsaði ég aldrei að ég ætlaði að leika í erlendum sjónvarpsþáttum og bíómyndum. Nei, ég hugsaði: Ég ætla að verða fastráðinn leikari í Þjóðleikhúsinu. Það fyrir mér var ákveðinn staður til að komast á. Svo þegar ég fékk fastráðningu langaði mig að leika í íslenskum kvikmyndum. Eftir að ég lék í Svartur á leik fékk ég erlendan umboðsmann og þá var allt í einu komið inn í myndina að leika í erlendum bíómyndum,“ segir Jóhannes og bætir við að hann standi á hálfgerðum krossgötum.

Stund á milli stríða hjá Jóhannesi.

„Ég hef verið að hugsa þetta undanfarið: Hvar er fastráðningin í Þjóðleikhúsinu núna? Hvert vil ég komast. Ég hreinlega veit það ekki. Það er hættulegt að vera of sáttur við hvar maður er og maður þarf að stefna að einhverju. Ein hugsun sem hefur læðst að mér er að kannski sé næsta skref fyrir mig að framleiða eitthvað sjálfur. Að segja einhverja sögu sem mig langar til að segja. En ég veit ekki hvaða saga það er.“

Myndir / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -