Sunnudagur 13. október, 2024
-1.7 C
Reykjavik

Þórdís Kolbrún hjólar í andstæðinga þriðja orkupakkans og segir þá fara með „hrein ósannindi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra segir áhyggjur fólks vegna þriðja orkupakkans meðal annars tilkomnar vegna þess að „menn með málefnalega innistæðu í gegnum áratugina eru að halda einhverju fram sem að sjálfsögðu hræðir fólk.“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir var gestur í Silfrinu á RÚV í morgun og ræddi þar meðal annars ólgu vegna þriðja orkupakkans. Hún sagði andstæðinga orkupakkans fara fram með „hrein ósannindi“ og tók undir með þáttastjórnanda að málið væri „ótrúlega skrítið“.

Hún sagði innleiðingu orkutilskipana Evrópusambandsins eiga sér langan aðdraganda. „Í grunninn eru allar þessar þrjár raforkutilskipanir – þessir þrír pakkar –  svipaðir í eðli sínu. Þeir snúa ekki að aðgangi að auðlindum heldur að aðgangi að innviðum. Við erum að tala um jafnan aðgang að flutningsinnviðum í þágu frjálsra viðskipta. Það er ferli sem hófst löngu löngu fyrir mína tíð.“ – Jafnvel í tíð þeirra sem berjast hvað hatramast gegn þessu núna? „Það er nákvæmlega þannig. Þessir pakkar skilda engan til að byggja ákveðna innviði. Bara alls ekki. Að halda því fram að þetta snúi að því, einkavæðingu Landsvirkjunar eða sölu á einhverjum auðlindum eru bara hrein ósannindi,“ sagði ráðherra.

Sjá einni: Orkupakkinn skekur stjórnmálin

Aðspurð hvort hún væri að halda því fram að andstæðingar pakkans fari fram með rangfærslur sagði ráðherra svo vera. „Já, já, þeir eru það. Þegar sagt er; næsta skref er að einkavæða Landsvirkjun og skipta henni upp. Það er ekki rétt. Þegar sagt er; næsta skref er bara að leggja sæstreng eða við munum vera skyldug til að leggja sæstreng. Það er ekki rétt. Þegar sagt er; við munum missa forræði á auðlindum okkar. Það er ekki rétt. Það er alveg sama hversu oft hetjur lyklaborðsins halda einhverju fram. Það verður ekkert satt fyrir vikið. Það er þetta sem mér finnst við þurfa að svara.“

„Mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.“

Ráðherra sagði málið efnislega lítið en að það snerti á miklum hagsmunum í tengslum EES-samninginn. „Það mun enginn eftir ár sitja og segja heyrðu rosaleg snilld var þessi þriðji orkupakki það er bara allt annað líf á Íslandi í dag. Það er heldur ekki þannig að eftir ár muni fólk segja hvað varð um fossana okkar, hvað varð um landsvirkjun og stýringu okkar á auðlindum við það að samþykkja þennan þriðja orkupakka. Hann er hluti af fjórða viðauka EES-samningsins sem mörg fyrirtæki byggja mjög verulega á. Á aðgangi inn á Evrópu og hann er hluti af EES samningnum sem skiptir okkur ótrúlega miklu máli og er mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum gert.“

- Auglýsing -

„Sjálfstæðisflokkurinn er fremstur þegar kemur að alþjóðasamvinnu“

Aðspurð hvort hennar eigin flokkur hafi staðið sig nægilega vel í að tala fyrir alþjóðasamstarfi og mikilvægi EES-samningsins og þá hugsanlegum áhrifum þess sagði ráðherra umræðuna sína að sumir hafi villst af leið. „Þetta er mjög góð spurning. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað þurft – og þurft segi ég – að eyða mjög miklum tíma og orku í að tala gegn aðild að Evrópusambandinu. Það má spyrja hvaða áhrif það hefur haft á almenna umræðu um alþjóðasamvinnu og samvinnu innan Evrópu. Mér finnst þetta svolítið sýna að einhverjir hafa villst af leið í því. Þetta sýnir að við munum ekki bara núna, og þetta klárast ekki í þessu máli, að við munum þurfum að halda vel á lofti kostum þess að vera í þessu samstarfi og hvað EES-samningurinn þýðir fyrir okkur. Saga Sjálfstæðisflokksins sýnir að Sjálfstæðisflokkurinn er fremstur þegar kemur að alþjóðasamvinnu og það er sú saga sem við eigum. Ég held að við séum núna á ákveðnum – ég segi kannski ekki krossgötum – en við munum þurfa að eyða mjög miklum tíma í að tala fyrir því. Og marka okkur þá skýru stöðu sem við höfum í gegnum söguna verið í, til þess að tryggja bara lífskjör Íslendinga hér. Þessi aðgangur að þessum mörkuðum. Við erum útflutningsþjóð. Þetta skiptir okkur öllu máli. Við erum að nýta fullveldi okkar til þess að vera í slíku samstarfi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -