Sunnudagur 16. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

Var í fullri vinnu við að fela kynferðisofbeldið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

*TW*Trigger Warning/*VV*varúð váhrif

Hrönn Ólöf Guðmundsdóttir er ein þeirra kvenna sem komið hefur fram með sögu sína undir myllumerkinu #whyididntreport, eða ástæða þess að ég kærði ekki. Stutta svarið við spurningunni í hennar tilfelli er: „Af því að hann var kærastinn minn.“

„Þegar ég var 16 ára byrjaði ég með strák sem var einu ári eldri en ég. Mér fannst hann æðislegur. Fljótlega fór hann að beita mig andlegu ofbeldi, svo bættist líkamlegt ofbeldi við og því næst nauðganir eftir að hann hafði barið mig eða rifið mig niður andlega. Þetta gerði hann þegar ég var sem minnst andlega og hann mestur, að hans mati. Nauðgunin var eins og punktur yfir i-ið, stjarna á jólatréstoppinn, sultan á pönnukökuna, kirsuberið ofan á bananasplittið. Þannig lagði hann lokahönd á ofbeldisverk sín. Við vorum saman í tæp þrjú ár og þessi tími er í mikilli móðu. Ég hef enga tölu á því hve oft hann nauðgaði mér,“ segir Hrönn sem í dag er 47 ára og búsett í Bandaríkjunum. Hún starfar sem söluaðili, er gift Bandaríkjamanni og á þrjá syni.

Hún sagði engum frá, kærði ekki og segir ástæðu þess margþætta. „Augljósasta ástæðan er sú að hann var kærastinn minn, maður kærir jú ekki kærastann sinn fyrir nauðgun, eða hvað? Á þessum tíma sá ég ekki nauðganirnar sem nauðgun heldur part af öllu hinu en við stunduðum kynlíf inn á milli nauðgana. Einnig er stórt og flókið skref að kæra kærastann sinn fyrir nauðgun. Ég var í raun í fullri vinnu við að fela fyrir fjölskyldu minni og vinum hvernig hann kom fram við mig. Það liðu mörg ár þar til ég sagði einhverjum frá kynferðisofbeldinu, það datt bara út úr mér þegar ég var að tala um að hann hefði barið mig.“

„Nei, ekki aftur!“
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Hrönn varð fyrir kynferðisofbeldi. Í minningunni finnst henni eins og hún hafi verið áreitt kynferðislega öll unglingsárin og árin frá þrettán til fimmtán ára hafi verið sérstaklega erfið. „Það voru alltaf einhverjir karlar að stoppa og bjóða manni far og einu sinni var ég að ganga heim úr búðinni þegar einhver hálfviti gekk í humátt á eftir mér og káfaði á rassinum á mér þegar hann gekk fram hjá. Hann sagði ekkert, leit glottandi framan í mig og hélt svo bara áfram. Ég var miður mín, fannst ég skítug eftir þessa rassastroku og spáði mikið í hvort ég hefði gert eitthvað til að bjóða upp á þetta.

„Lögreglan neitaði síðan að halda kærunni til streitu, hann væri fjölskyldumaður og hefði ekki verið ásakaður um svona áður. Og þar sem hann var fjölskyldumaður mátti ekki valda honum óþægindum.“

Þegar ég var þrettán eða fjórtán ára réðst karlkynssturtuvörður á mig þar sem ég beið ein frammi í anddyri leikfimihússins meðan kvenkynssturtuvörðurinn fór inn í leikfimisalinn til að biðja um leyfi fyrir mig í leikfimi vegna veikinda. Hann stökk á mig, ýtti mér út í horn og þrýsti sér að mér á meðan að hann þuklaði á brjóstunum á mér og reyndi að troða tungunni á sér upp í mig á meðan ég reyndi að ýta honum frá mér. Í þetta skipti sagði ég strax frá, fyrst vinkonu minni. Hún, flestir kennarar, skólastjóri og foreldrar mínir stóðu við bakið á mér. Ég lagði fram kæru en upplifði mikla niðurlægingu við yfirheyrslur. Lögreglufulltrúinn reyndi að gera sem minnst úr málinu. Til dæmis sagði ég þráspurð að hann hefði reynt að troða tungunni á sér inn í munninn á mér en lögreglufulltrúinn sagði stöðugt: „Hann reyndi að kyssa þig?“ Að lokum sagði ég: Nei, þetta er ekki það sama! En ég veit ekki hvað hann skrifaði að lokum í skýrsluna. Lögreglan neitaði síðan að halda kærunni til streitu, hann væri fjölskyldumaður og hefði ekki verið ásakaður um svona áður. Og þar sem hann var fjölskyldumaður mátti ekki valda honum óþægindum. Ég man hvað ég dofnaði upp þegar aumingja pabbi sagði mér fréttirnar, þvílíkur vanmáttur sem við upplifðum. Seinna komst ég að því að þessi maður hefði beitt stúlkur og ungar konur kynferðisofbeldi um árabil. Þessi reynsla mín við að kæra kynferðisofbeldi varð því ekki beint hvetjandi til að kæra kynferðisbrot síðar á lífsleiðinni,“ segir Hrönn.

Nokkru síðar var hún að vinna í sjoppu og var búin að loka þegar eigandinn kallaði á hana inn á skrifstofu til sín þar sem hann var að horfa á klám og bauð henni að horfa með sér. „Ég spenntist upp og hugsaði strax: Nei, ekki aftur. Og nú mun enginn heyra í mér. Ég neitaði og steig út úr skrifstofunni til að auka bilið sem var á milli okkar, sagðist ætla að hringja í pabba og biðja hann að sækja mig. Þá kom fát á hann og hann sagðist geta keyrt mig heim. „Beint heim,“ sagði ég ákveðin og hann samþykkti það. Á leiðinni heim sagði ég honum að ef að ég frétti að hann hafi snert einhverja af hinum stelpunum myndi ég kæra hann, ég sagði honum líka að ég myndi segja foreldrum mínum frá þessu, sem ég og gerði.“

- Auglýsing -
Hrönn Ólöf Guðmundsdóttir er ein þeirra kvenna sem komið hefur fram með sögu sína undir myllumerkinu #whyididntreport. Myndir eru úr einkasafni.

Skammaðist sín fyrir afleiðingarnar
Hrönn glímdi lengi við afleiðingar alls ofbeldisins og segist oft hafa spurt sig þeirrar spurningar hver hún væri ef þetta hefði ekki gerst. „Eftir að sturtuvörðurinn réðst á mig átti ég erfitt með að umgangast menn í langan tíma á eftir, sérstaklega eldri menn, þar á meðal afana mína sem voru á svipuðum aldri og karlinn. Ég grét og skammaðist mín í laumi fyrir hvernig mér leið þegar þeir föðmuðu mig, hvað þá ef þeir kysstu mig á kinnina, ég var með rosalegt samviskubit yfir líðan minni. Mér fannst eins og að ég hlyti að vera að gera eitthvað rangt, ég meina af hverju voru allir þessir menn að nálgast mig kynferðislega? Unglingar ganga í gegnum nógu miklar breytingar, bæði andlega og líkamlega, og þetta ruglaði mig alveg. Kynlíf á að vera fallegt. Til að virkilega geta notið kynlífs þarft þú að geta slakað á, opnað alla þína vitund, drukkið í þig það sem er verið að gefa þér og geta gefið á móti af heilum hug, engin höft, bara njóta og gefa. Fyrrverandi kærastinn eyðilagði það fyrir mér í langan tíma. Ég er með áfallastreituröskun út af honum, fyrstu árin á eftir þurfti stundum ekki mikið til að slá mig út af laginu; lykt, hljóð, lag og stundum áttaði ég mig ekki einu sinni á því hvað var að gerast.“

Hrönn hefur í gegnum tíðina leitað sér margvíslegrar hjálpar bæði hjá sérfræðingum og með því að fá útrás með hreyfingu. Hennar besta meðferð hefur þó verið að tala um það sem gerðist og fela ekki hlutina.

Skil hræðsluna
Þegar talið snýst að umræðunni sem skapast hefur í kringum mál Brett Kavanaugh og þeim sem hafa snúist honum til varnar segir Hrönn að þetta lýsi því vel hvað allt sé rotið. „Allt of margt valdamikið fólk er tilbúið til að líta í hina áttina. Mér finnst Christine Blasey Ford mjög hugrökk, margar konur hefðu bara bitið í tunguna á sér en hún steig fram vitandi um það hvað gat beðið hennar. Þótt sögur okkar séu ólíkar á ég auðvelt með að setja mig í hennar spor, ég skil hræðsluna. Það gerir mig sorgmædda hvað mörgum finnst þetta lítið mál, hvað fáir gera sér grein fyrir hversu stórt vandamálið er. En ég held að hlutirnir séu að hreyfast hægt í rétta átt, bæði konur og karlar eru farin að láta heyra meira í sér. Við megum ekki gefast upp, sögur okkar skipta máli og halda athygli fólks á þessu viðkvæma máli,“ segir Hrönn og hún er með skilaboð til þolenda og aðstandenda þeirra. „Til þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisbroti og hafa ekki haft kjark til að segja frá því vegna þess að þau skammast sín: Ekki skammast þín, þú gerðir ekkert rangt, þú áttir þetta ekki skilið. Við aðstandendur vil ég segja: Ekki brjóta ykkur niður með samviskubiti yfir því að hafa ekkert vitað. Það fór mikil vinna í það hjá mér að fela það sem var í gangi og því skiljanlegt að enginn vissi neitt.“

„Bara það að ég skuli vera að hugsa um hvernig svona frásögn kemur út fyrir geranda segir svo mikið um hvað þolendur geta verið hálfbrenglaðir í kollinum eftir svona reynslu.“

- Auglýsing -

Hún hefur reynslu af því hversu erfitt er að koma sér ofbeldissambandi og skilur vel aðrar konur í sömu stöðu. „Það skiptir engu máli hvernig ofbeldinu er háttað, maður væri ekki í sambandinu til að byrja með ef maður bæri ekki einhverjar góðar tilfinningar til brotamannsins. Ég fór til dæmis oft frá kærasta mínum en kom alltaf til baka. Einn daginn þegar að ég var alveg búin að fá nóg en fann samt ekki styrk hjá mér til þess að slíta sambandinu fann ég lausn sem virkaði fyrir mig. Ég gaf honum eins mánaðar uppsagnarfrest. Já, þetta hljómar hálfkjánalega en þetta virkaði. Þennan mánuð notaði ég til að slíta mig frá honum tilfinningalega séð, ég varð sterkari og sterkari með hverjum deginum og þegar mánuðurinn var liðinn sagði ég honum rólega að taka dótið sitt, tíminn væri liðin, við værum hætt samann. Hann reyndi að tala mig til en fann að ég var ákveðin og fór.“

Hrönn segist hafa hugsað sig um áður en hún samþykkti að ræða opinskátt um reynslu sína við Mannlíf. „Ég vildi það ekki án þess að tala fyrst við syni mína, eiginmann, foreldra og systkini. Þau voru hins vegar öll hvetjandi og vildu að ég gerði það sem mér þætti best. Í samtali við tvítugan son minn sagði ég meðal annars að ég myndi ekki vilja að viðtalið kæmi sér illa fyrir fyrrverandi kærastann ef fólk áttaði sig á því hver hann væri. En sonur minn svaraði að mestu máli skipti að ég væri sátt við að opna mig og kannski gæti saga mín hjálpað öðrum. Aðrir í fjölskyldunni tóku undir þetta og mamma sagði meðal annars: „Ekki hugsaði hann um þig og þína líðan á þessum tíma.“ Bara það að ég skuli vera að hugsa um hvernig svona frásögn kemur út fyrir gerandann segir svo mikið um hvað þolendur geta verið hálfbrenglaðir í kollinum eftir svona reynslu.“

Eftir að núverandi Bandaríkjaforseti spurði hvers vegna Dr. Christine Blasey Ford hefði ekki kært kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh á háskólaárunum stigu fjölmargir fram henni til stuðnings undir myllumerkinu #whyididntreport og útskýrðu hvers vegna þau kærðu ekki. Auk Hrannar deildu Brynhildur Yrsa Valkyrja Guðmundsdóttir og Sigrún Bragadóttir sínum ástæðum með lesendum Mannlífs. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -