Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Við verðum að gera betur

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Auði Önnu Magnúsdóttur, Eyþór Eðvarðsson og Hildi Knútsdóttur.

Við sem myndum skipulagshóp loftslagsgöngunnar 2018, fögnum að komin sé fram aðgerðaáætlun frá ríkisstjórn Íslands í loftslagsmálum en bendum um leið á að hún gengur of skammt. Ýmislegt gott er að finna í þeim 34 tölusettu aðgerðum sem koma fram í áætlunni, en betur má ef duga skal. Kaflinn sem fjallar um skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis er vel ígrundaður og metnaðarfullur. Jákvætt er að gert sé ráð fyrir mögulegri orkuvinnslu úr öðrum orkugjöfum en hefðbundnum virkjunum. Mikil orkuverðmæti felast til dæmis í lífrænum úrgangi til metanvinnslu og bruna á öðrum úrgangi. Áform um rafvæðingu hafna er dæmi um vel útfærða aðgerð.

Það sem vantar

Í flestum liðum áætlunarinnar vantar almennt tímasetningar og magnbundin markmið og á mörgum stöðum er orðalagið of varfærið. Bann við notkun svartolíu þarf þar á meðal að vera afdráttarlausara. Mjög áríðandi er að fá tímasett og töluleg markmið á allra næstu stigum. Þetta er til dæmis mjög aðkallandi varðandi almenningssamgöngur. Þar skortir á umfjöllun um Borgarlínu og virðast samráð við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa verið af skornum skammti.

Hópnum þykja áform um hækkun kolefnisgjalds ekki ganga nærri nógu langt. Kolefnisspor þarf að koma inn í verðmiða á fleiri hlutum en jarðefnaeldsneyti fyrir ökutæki og við sem samfélag þurfum að finna fyrir því hvað mengun kostar. Einnig er afar mikilvægt að skýra vel í hvað kolefnisgjaldið fer til þess að auka líkur á sátt um það. Sem dæmi, mætti kolefnisgjaldið renna í loftslagssjóð eða til uppbyggingar á hleðslustöðvum fyrir rafbíla.

Bann við nýskráningu bensín- og díselbíla mætti ganga mun lengra og byrja má útfösunina mun fyrr.

- Auglýsing -

Brýnar aðgerðir inn í næstu útgáfu áætlunarinnar

Umfjöllun um neyslu í stóra samhenginu vantar nánast alveg inn í núverandi áætlun ef frá er talin aðgerð 30 um matarsóun. Mjög alvarleg matar-, tísku-, húsgagna- og raftækjasóun á sér stað á Íslandi. Aðgerðir sem hvetja til betri nýtingar væru mjög góð viðbót við núverandi áætlun. Þar má til dæmis draga úr eða fella niður virðisauka á viðgerðarþjónustu ýmiskonar, eins og skó-, húsgagna- og raftækjaviðgerðum og á tækjalánasöfn.

Í þessu samhengi þarf að leggja strax grunn að hugarfarsbreytingu í íslensku samfélagi þar sem hringrásarhagkerfi er innleitt. Þar má byrja með ýmis konar fræðsluátaki eins og lýst er í aðgerðum 26 og 27 í núverandi áætlun, en einnig með ýmsum ívilnunum og sköttum sem hvetja til fullnýtingar á hráefnum.

- Auglýsing -

Flug er stór liður í losun gróðurhúsalofttegunda. Mjög brýnt er að auka meðvitund um kolefnisspor sem fylgir flugi og reyna að draga úr því með hagrænum aðgerðum, fræðslu og þróun á öðrum lausnum. Aðrar lausnir geta verið tækjabúnaður til fjarfunda og nýjar aðferðir til tengslamyndunar yfir Netið.

Hlutverk bænda og fjárfesta

Bein losun frá landbúnaði er um 21 prósent af þeirri losun sem Ísland ber ábyrgð á gagnvart Parísarsamkomulaginu og er stærstur hluti þeirrar losunar tilkominn vegna innyflagerjunar búfjár. Þó eru engar aðgerðir í núverandi áætlun sem miða að því að draga úr þessari losun sem er mjög ríkisstyrkt. Leita ætti allra leiða til þess að styrkja bændur til landnýtingar sem ekki er eingöngu afurðamiðuð, þannig að þeir geti notið ríkisstyrkja til landnýtingar sem tengist ferðaþjónustu, verndun náttúru og annarri ræktun en grasræktun svo nokkur dæmi séu tekin. Styrki til innlendrar grænmetisframleiðslu og þróunar á henni má efla til muna.

Að draga til baka fjárfestingar í starfsemi sem losar mikið af gróðurhúsalofttegundum og grænar fjárfestingar í kjölfarið eru mjög áhrifamiklar leiðir til þess að breyta losunarmynstri fyrirtækja og framleiðenda. Nauðsynlegt er að lífeyrissjóðum sé gert að skoða sínar fjárfestingar út frá loftslagssjónarmiðum og skilgreint hvað felst í grænum fjárfestingum.

Sama gróðadrifna kerfi

Hópurinn saknar þó mest úr aðgerðaáætluninni boðaðra kerfisbreytinga forsætisráðherra sem í henni áttu að felast. Ekki verður séð að um annað sé að ræða en að viðhalda sama gróðadrifna kerfi nema að nú skal það vera án jarðefnaeldsneyta. Mikilvægt er að nýta þær breytingar sem við þurfum að gera vegna loftslagsbreytinga til raunverulegra kerfisbreytinga þar sem sjálfbært sældarhagkerfi er markmiðið.

Höfundar skrifa fyrir hönd skipulagshóps loftslagsgöngunnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -