Sunnudagur 16. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Einlægur Jón um Jógu sína: „Samband okkar byggir á trausti, vináttu og virðingu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Gnarr opnar sig um eiginkonu sína, Jógu í nýrri Facebook-færslu.

Forsetaframbjóðandinn og leikarinn Jón Gnarr skrifaði langa og einlæga Facebook-færslu þar sem hann talar um eiginkonu sína sem hann hefur verið með í um 25 ár.

„Við hjónin höfum verið samferða í lífinu í aldarfjórðung. Við höfum aldrei skilið en frekar reynt að leggja okkur fram um að skilja hvort annað. Ég segi oft í gríni að hún hafi séð mig einsog margir sem sjá gamlan bíl og hugsa „Þennan mætti nú gera upp“.“ Þannig hefst færsla Jóns. Síðan segir Jón frá því hvernig þau kynntust og eys yfir hana lofi:

„Við kynntumst í gegnum sameiginlega vini. Ég hafði líka stundum leitað til hennar í erfiðleikum og fengið lánaða hennar mögnuðu leiðsögn og dómgreind. Jóga mín er nefnilega ofurkona og besti leiðsögumaður sem hægt er að hugsa sér í lífinu enda með einstaka lífsreynslu. Einsog sumir þekkja laxár, hyli og grynningar eða hálendi Íslands og geta vísað fólki örugga og árángursríka leið þá fer hún með fólk í ferðalög um víðáttur andans, hjálpar fólki að hreinsa hugann, græða gömul sár og stilla alla strengi tilfinninganna. Það er engin tilviljun að Björk talar um „emotional landscapes“ í laginu sínu Jóga, sem hún samdi til Jógu.“

Því næst fer Jón yfir það hversu illa hann hafi verið staddur í lífinu þegar leiðir þeirra Jógu lágu saman.

„Það er mín mesta gæfa í lífinu að leiðir okkar skildu liggja saman á sínum tíma. Ég trúði því ekki að hún sæi neitt markvert í mér. Ég var þá búinn að glata öllu og var einsog rekald í lífinu; félagslega, tilfinningalega og fjárhagslega gjaldþrota. Sjálfsmyndin mín var brotinn frá upphafi en þarna var sjálfstraustið farið og sjálfsvirðingin mín dreggjar einar.
En Jóga sá í gegnum þetta allt saman og sá bara kjarnann minn og var reiðubúin að leggja á sig alla þá rosalega vinnu sem fólst í því að gera laskaðan mig upp. Hún átti bara nokkuð gott líf og þurfti ekki á neinu veseni að halda.“

Jón segir einnig frá köllun Jógu, sem hann segir að sé sú sama og hann hafi; „Að standa með fólki sem er veikt, hrakið og einmana“.

„Með hennar hjálp hef ég fengið að koma uppá hennar plan og standa þar jafnfætis henni. Allt sem ég hef gert hef ég gert með henni. Jóga hefur haft þá köllun að standa með fólki sem er veikt, hrakið og einmana vegna þess að hún hefur verið þar sjálf. Og ég hef séð það sem mína æðstu köllun í þessu lífi að fá þann heiður að fá að standa þannig með henni líka, í blíðu og í stríðu. Hún fór hnarreist og æðrulaus í gegnum erfiða krabbameinsmeðferð en ég þrammaði með henni einsog fótgönguliði.“

Að lokum lýsir Jón sambandi þeirra hjóna:

„Samband okkar byggir á trausti, vináttu og virðingu. Og öllum orðum sem byrja á sam- Sam er kjörorðið okkar. Ég er svo stoltur af henni. Sambandið okkar er sá klettur sem við byggjum líf okkar á. Við höfum svarið hvort öðru hollustueið um alla eilífð. Enda erum við búin að gifta okkur þrisvar, fyrst í Fríkirkjunni, svo í Kaþólsku kirkjunni og svo kom ég Jógu á óvart þegar hún varð sextug síðasta sumar og bað hennar og Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði blessaði okkur.
Ég er svo þakklátur og hlakka til að fá að ferðast áfram með ofurkonunni og ástinni minni inní framtíðina og eilífðina. Endalaust.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -