Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Eigum við að eignast börn? Megum við eignast börn? Langar okkur að eignast börn?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í okkur flestum er hvati til þess að eðla okkur, viðhalda lífi okkar og stofni. Við hugsum kannski ekki þannig séð út í það. Þetta er í daglegu lífi bara eitthvað sem þykir eðlilegt. Náttúrulegt. Þegar kona og maður koma saman, fara að búa þá stofna þau fjölskyldu. Ef tíminn líður og engin börn komin þá dynur á parið spurningar frá vandamönnum um hvenær má eiga von á litlu kríli. Og ekki endar það endilega þar. Stundum koma vangaveltur og spurningar um þessi mál frá fólki sem er aðeins kunnugt okkur. Ég held það þyki bara einhvernveginn sjálfgefið. Eða okkur finnst það. En finnst okkur alveg jafn sjálfgefið að tala bara um kynhvöt? Má par stunda mikið kynlíf og tala um það? Það er einhvern veginn ekki jafn sjálfgefið. Þó er kynhvötin sjálf nátengd þessum eðlunarhvata ekki satt? Við njótum ferlisins við að eðla okkur. Það er kynlíf og við kynlíf upplifir fólk líkamlegan unað (flestir). Er það ekki gilt og fallegt eitt og sér?

Hvert er viðhorf okkar til pars, segjum gagnkynhneigðs, sem hefur verið saman í 10 ár og er mjög aktívt kynferðislega en á engin börn? Förum við að hugsa: Hmmm, ætli þeim langi ekki í börn? Eru þau ófrjó? Eru þau bara að leika sér? Hvenær ætli þau eignist barn? Ætla þau bara ekki að eignast börn? Ætla þau bara að vera tvö ein alltaf? Hvernig hafa þau efni á að ferðast svona mikið? Tíma þau ekki að eignast börn?

Hvernig er það þá með samkynhneigð karlkyns pör? Koma sömu spurningarnar? Eða erum við ennþá á gráu svæði þar? Augljóslega býst fólk ekki við að barn spretti allt í einu fram úr þannig sambandi? Það einkennir einmitt mörg hommapör, sem ég veit um allavega að báðir aðilar vinna mikið, eru ágætlega efnaðir, ferðast mikið og já barnlausir. Þó er það alltaf að færast í aukana að fólk bæði náið og ónáið spyrji langtímasambands-hommapar barna spurninganna. Í þeim flokki erum ég og minn maki.

Það er ekki sjálfgefið að samkynhneigð karlkyns pör sem hafa verið saman í fjölda ára vilji/geti eignast börn. Ferlið er ekki auðvelt hjá öllum, ekki allir jafn ‘heppnir’, aðstæður breytilegar, lög og samfélag ekki alltaf með í liði. Og mig langar að vekja athygli á því að spurningar þessu tengdu geta oft ýtt á allskonar tilfinningapunkta og hafa ber í huga hve náið þú þekkir einstakling til þess að bera slíkt samtal. Það gefur auga leið að tveir karlmenn í sambandi munu aldrei allt í einu verða barnshafar. Annars hefði ég mögulega verið ófrískur 100 sinnum. Þetta allt í einu í flestum tilfellum okkar er margra ára ‘allt í einu’ og er stútfullt af allskonar flækjum. Það sem auðvelt er fyrir einhverja er ekki endilega jafn auðvelt fyrir aðra. Það að þú þekkir þennan homma og þennan homma sem gerði bara svona og svona og PÚFF – barn! Er ekki endilega hvernig það gengur upp hjá öðrum. Rétt eins og með gagnkynhneigð pör sem ganga í gegnum ófrjósemisvanda eða annarskonar áskoranir á þessu sviði þá er sú áskorun gefin í okkar í tilfelli. Það mun aldrei vera auðvelt.

En jú okkur skortir samt ekki foreldraeðlið, að vilja leiðbeina, ala upp og passa þó við séum tveir karlmenn saman. Við veljum ekki að vera samkynhneigðir og ófærir um að eignast börn á náttúrulegan máta. Ég myndi alveg vilja ganga með barn. Í alvöru. Sumir hafa meira að segja mjög sterka foreldra löngun en eru oft á milli þess að vilja leggja allt á sig fyrir barneignir og þess að að ímynda sér lífið barnlaust og meta það þannig. Hvernig væri það? Svo kemur þessi hræðilega óþægilega vangavelta: Mun ég sjá eftir því? Mun ást okkar á hvor öðrum vera nóg til að bæta upp fyrir þá staðreynd að við eignuðumst ekki barn?

Og að því tilefni vil ég einnig nefna það að líf barnlausra er ekki streitulaust eða auðveldara en líf þeirra sem eiga barn eða börn. Samanburður þarna á milli er þreytandi að hlusta á til lengdar. Rétt eins og hinir barnlausu þekki ekki þjáningu eða alvöru þreytu. Þess fyrir utan getur það einnig þrýst á marga tilfininningapunkta að heyra foreldra stöðugt að kvarta undan börnum sínum og þreytunni sem það upplifir þegar maður sjálfur er bara ótrúlega mikið að reyna komast á þann stað. Gefið mér þessa barnaþreytu. Ég tek við henni.

- Auglýsing -

Við megum öll vera þreytt og uppgefin, það má tala um það, fá ráð, fá stuðning. Áttum okkur samt líka á samhengi og aðstæðum og ekki síst hvernig við orðum hluti.

Skiljanlega velja sumir að vera sjálfum sér nægir. Því margt fallegt getur einnig gerst í barnlausu lífi. Börn umkringja okkur. Nóg er til af þeim. Og næga ást eigum við að gefa þeim sem þegar eru hér. Það er gjöf sem við öll getum gefið, óháð eðli, hvata og kynhneigð.

Friðrik Agni Árnason

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -