Sunnudagur 16. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Hvað er Baugspenni?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir Gunnar Smára Egilsson

Þetta hugtak var búið til af Birni Bjarnasyni, áróðursveini Valhallar, stuttu eftir að Fréttablaðið var endurvakið þegar rekstur blaðsins fór í þrot ári eftir stofnun. Björn kastaði þessu uppnefni á blaðamenn á ritstjórn Fréttablaðsins. Nafngiftin átti að gefa til kynna að blaðamenn létust stjórnast af annarlegum utanaðkomandi hagsmunum en ekki heiðarleika eða sannleiksást. Baugspenni er þannig samstofna hugtak og Rússadindill, sem Björn og skoðanabræður hans notuðu á árum kalda stríðsins til að grafa undan sósíalistum sem börðust með verkalýð og öðru valdalausu fólki gegn ofríki auðvaldsins.

Í kalda stríðinu var því haldið fram að þau sem börðust fyrir réttlæti á Vesturlöndum væru í raun að ganga erinda erlends heimsveldis. Í Bandaríkjunum var sósíalisminn skilgreindur sem and-amerískur og þau sem aðhylltust hann landráðafólk. Niðurstaðan var niðurbrot verkalýðshreyfingarinnar vestanhafs með skelfilegum afleiðingum.

Þessu sama var haldið fram hérlendis, að róttækir sósíalistar væri sendisveinar Stalíns og Sovétríkjanna. Þeim var haldið frá embættum og starfi, þeir fengu ekki lán né neina fyrirgreiðslu og sem minnstan framgang. Þessi ófrægingarherferð gegn sósíalistum var rekin frá Valhöll og Morgunblaðinu. Og Björn Bjarnason ólst upp í þessu hatursfulla andrúmslofti.

Þegar hann bjó til hugtakið Baugspenni vissi hann af áhrifamætti þess að halda því fram að fólk komi ekki fram að heiðarleika og gangi erinda annarlegra afla. Ef þér tekst að troða þessu upp á fólk þarftu ekki að hrekja neitt sem það segir, þér hefur tekist að planta efasemdum í hausinn á þeim sem á hlýða.

En hvað er Baugspenni?

- Auglýsing -

Rússadindill átti að ganga erinda rússneska kommúnistaflokksins, sem er byggði á ákveðni hugmyndafræði og vann eftir tiltekinni stefnu. En það gat ekki átt við Baug, verslunarfyrirtæki sem stjórnað var af Jóhannesi í Bónus og Jóni Ásgeiri syni hans, mönnum sem enginn vissi til að hefðu nokkrar pólitískar skoðanir aðrar en að kjósa Sjálfstæðisflokkinn reglulega.

Það voru ekki þeir Bónusfeðgar sem röskuðu ró Björns og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum. Það sem Björn óttaðist var ritstjórnarstefna okkar á Fréttablaðinu, stefna sem einkenndist af óttaleysi gagnvart Valhöll og Kolkrabbanum.

Á þessum árum hafði Sjálfstæðisflokknum tekist að beygja alla fjölmiðla undir sig, meira og minna. Flokksblöðin voru dauð, DV komið í hendur einkavina Valhallar, Ríkisútvarpið undir stjórn innvígðs Sjálfstæðisflokksfólks og nánast öll umræða í samfélaginu spiluð eftir takti sem sleginn var í bakherbergjum Valhallar.

- Auglýsing -

Á þessum árum sendi Sjálfstæðisflokkurinn sendisveina til Baugsmanna til að sannfæra þá um að þeir yrðu að skipta um ritstjóra og framkvæmdastjórn yfir fjölmiðlum 365. Það var gert. Ari Edwald, innmúraður Sjálfstæðisflokksmaður, tók við af mér sem framkvæmdastjóri, og Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, tók við ritstjórastólnum.

Vandamálið var aldrei Baugur heldur sú ritstjórnarstefna sem ég mótaði og fylgdi eftir. Baugur hefur aldrei haft neina pólitíska skoðun og er mér vitandi alls ólæs á samfélagsástandið hverju sinni. Þetta fyrirtæki gat ekki raskað ró þeirra Valhallarmanna. Nema þegar þeir komu að fjölmiðlum sem stýrt var af fólki sem Valhöll stóð ógn af.

Þegar ég starfaði sem ritstjóri á Fréttatímanum urðu hluthafar þess blaðs fyrir sambærilegum árásum frá Sjálfstæðisflokknum þegar líða fór að kosningunum 2016. Og ekki bara hluthafarnir heldur fjölskyldur þeirra. Valhöll hefur ætíð verið siðlaus í aðgerðum sínum.

Þegar Sólveig Anna Jónsdóttir var kjörin formaður Eflingar fór Björn Bjarnason og Morgunblaðið hamförum við að halda því fram að til þess framboðs hefði verið stofnað svo ég gæti komist í sjóði Eflingar til að búa til fjölmiðil eða nota með öðrum hætti til andspyrnu gegn ægivaldi Valhallar og Kolkrabbans sem ræður þar ríkjum.

Nú þegar Sósíalistaflokkurinn er að styrkjast sem pólitískt afl halda sömu menn áfram að reyna að ófrægja mig og halda því fram að ekkert sé eins og það sýnist, að Sósíalistaflokkurinn sé ekki baráttutæki hinna fátæku og valdalausu heldur einhvers konar leynileiðangur annarlegra hagsmuna.

Ég rek þessa sögu hér að hluta til að undra mig á hversu margt fólk leggur trúnað á sögusagnir sem vella upp úr jafn ómerkilegum mönnum og Birni Bjarnasyni. Senditíkur Valhallar eru fyrir löngu hugmyndafræðilega gjaldþrota og þótt þær reyni enn að kasta einhverjum fýlubombur þá er stríðið þeim tapað.

Það eru aðeins fáein misseri þangað til við munum breyta Valhöll í almenningssalerni. Og þá munum við ráða Björn Bjarnason sem klósettvörð, ekki til að lítillækka hann heldur þvert á móti til að hækka hann í tign.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum og skipar fyrsta sæti lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður

Aðsendar greinar ásamt mynd af höfundi sendist á [email protected].

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -