Laugardagur 27. apríl, 2024
-1.2 C
Reykjavik

Mann(eskju)líf Friðriks Agna – Gaslýst lítil þjóð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Getum við plís?

Það er margt og næstum allt sem við getum haft skoðun á.

Og hér ríkir víst svokallað skoðanafrelsi.

Ég hef alveg rétt á þessari skoðun t.d. sem ég er að fara skrifa núna. Þetta er skoðun og mín upplifun á aðstæðum í samfélaginu. Reyndar væri réttara að kalla þetta hugleiðingar.

Getum við haft skoðun á því hvernig tilfinningaleg upplifun annarra er eða var á einhverju þar sem við vorum ekki viðstödd? Fyrir stuttu síðan lærði ég hvað orðið gaslýsing þýðir þegar einhver sagði við mig að hann væri alltaf að lenda í því að fólk væri að gaslýsa hann. Það tók mig smá tíma að fatta og vera maður með mönnum í þessari orðanotkun en ég skil hvað það merkir núna þó ég noti það ekki sjálfur í mínu talmáli. Ég bara held að þetta sé það algengt og í raun mun meiri vandi heldur en við gerum okkur grein fyrir. Mun stærra en að bara íslenska eitthvað flott nýtt orð til að skreyta okkur með og nota í málinu og virkað voða woke eða vakandi þjóð. Þessi hegðun nær þvert yfir samfélagið okkar og við erum eiginlega öll að taka þátt í þessu sama hvað við svo sem höldum. Í okkar innri félagskjarna sem og ytri.

Hér er dæmi um gaslýsingu: Ef ég segi t.d. ,,ég upplifði það að þessi maður áreitti mig og mér leið illa og varð hræddur. Ég vissi ekki hvað ég átti að gera og þorði eiginlega ekki að gera neitt.”

- Auglýsing -

Er þá einhver að fara segja mér: ,,Nei, nei hvaða vitleysa er þetta? Þetta er góður maður. Hann var bara eitthvað að stríða þér. Þú þarft ekki að taka þessu persónulega eða illa.”

Það virkar frekar absúrd að bregðast svona við ekki satt? Það virðist samt vera, að á einhvern undraverðan hátt, virðist fólk halda að það hafi rétt á að eiga skoðun um tilfinningar og upplifanir annarra. Það er án gríns verulega absúrd. En þetta gerum við samt daginn út og daginn inn. Á samfélagsmiðlum. Það er þarna ytra samfélagið sem ég ætla staldra við þar sem lítil létt gaslýsing verður í raun að miklu stærra vandamáli. Eitt er að díla við þetta í makasamskiptum eða öðrum nánum samböndum þar sem tveir aðilar geta tæklað vandamál sín í ró og næði eða með aðstoð ráðgjafa. 

En samfélagið okkar litla verður  ennþá minna með hjálp miðlanna. Við erum ofan í öllu og öllum, þekkjum þennan og hinn, vitum hverra manna þessi er og þessi væri nú alls ekki að fara segja svona eða hegða sér þannig, hann er svo vel upp alinn. Eða ég hlusta alltaf á hlaðvarpið hennar og allt sem hún segir virkar svo heilt og gott. Það getur ekki verið að hún geti hegðað sér á þennan slæma hátt sem fólk er að segjast hafa upplifað frá henni.

- Auglýsing -

Ástæðan fyrir þessum vangaveltum er sú að ormagryfjan okkar á litla Íslandi er ávallt galopin. Alvarleg ofbeldismál hafa t.d. opnast upp á gátt í samfélaginu þar sem þjóðþekktir einstaklingar eiga í hlut og allt glundroðar á öllum kommentakerfum landsins.

Veit ekki hversu oft ég hef sussað á fólk í huganum yfir tölvu- eða símaskjá. Mér finnst svo margir fara að tjá sig um mjög svo viðkvæm mál snemma í ferlinu á opinberum vettvangi. Jón og Gunna eru allt í einu með skoðun á hvernig meint kynferðisofbeldi átti sér stað í heimahúsi eða bústað einhvers sem hvorugt þeirra þekkir persónulega.Gunna tekur afstöðu með meintum geranda. Jón með þolanda.

Fyrir nokkrum árum var máli troðið ofan í kokið á okkur öllum á öllum miðlum. Allir tóku þátt, höfðu skoðun en flestir trúðu ekki ásökunum sem bornar voru gegn meintum geranda. Málið tók svo einhverja beygju, fleiri lýsingar frá þolendum bárust á yfirborð fjölmiðlanna og þá fór fólk að taka afstöðu sína til baka. 

Málið er bara. Við, Jón, Gunna, amma mín og þú eigum ekkert að vera taka afstöðu í svona málum opinberlega. Punktur. Það er ekkert okkar að fara að rýna inn í þær aðstæður sem uppi voru á milli þessarra einstaklinga. Við hljótum að eiga okkar eigið líf til að glíma við? Það er fólk sem vinnur við að rýna í þetta og er þjálfað í að spyrja réttu spurninganna. Ekki nema við þekkjum fólk persónulega getum við verið til staðar og metið hvernig við ætlum að díla við aðstæðurnar. Þetta er ekki eins og þegar bókstaflegt stríð er í gangi og við sjáum augljóslega hvað er í gangi þegar saklaust fólk er myrt og hús sprengd í loft upp. Það fer ekki á milli mála að það er rangt. Og við eigum að stöðva það.

En nú erum við ekki að skrifa um þau mál. Við erum að nota kynferðisofbeldismálin sem dæmi. Ég get ekki haft áreiðanlega skoðun nema myndað mér hana út frá þeim viðbrögðum sem það hefur skapað í samfélaginu. Eða ef ég þekki aðilana eða var á staðnum. Þarna stígur inn í máttur samfélagsmiðlanna og fjölmiðlanna. Að mínu mati er það ekki afstaða að trúa sögu þolenda, það eru einfaldlega eðlileg mannleg viðbrögð. Með því er samt ekki endilega vera að gefa í skyn að gerandi sé vond manneskja. Lesið þessa setningu aftur.

Hinsvegar er það ljóst að eitthvað sem gerandi gerði olli því að þolandinn fór í vanlíðan og þurfti að leysa frá skjóðunni. Og þolandi hefur fullan rétt til þess að útskýra þær tilfinningar og hvað það var sem olli þeim. Meintur gerandi myndi mögulega verða hissa, verða miður sín yfir því sem gerðist, ekki áttað sig á hegðun sinni. Eðlileg viðbrögð væri að biðjast afsökunar og reyna að græða sárin í sameiningu. Í sumum tilfellum ræður ótti ríkjum og alvöru ofbeldisfólk er víst til og gerendur geta í sumum tilfellum jú verið vont fólk – þó trúi ég því að allir eigi að fá þá von og verkfæri til að bæta hegðun sína og skap. Það er hægt og við megum ekki missa alla von fyrir þá einstaklinga sem hegða sér illa. Hinn endinn er nefnilega að festast í hlutverki fórnarlambs, biturð og óhaggandi skoðun um að fólk sé vont. Það er ekki góður staður til að lifa lífinu á.

Svona mál eru ofboðslega flókin og erfið að kljást við sem lögmaður get ég ímyndað mér. En ég sjálfur hef einungis reynslu af svona máli sem þolandi. Það var erfitt að fara í skýrslutöku því skömmin var svo gríðarleg. Ég var undir lögaldri, mjög ómótaður einstaklingur. Mér leið allan tímann eins og fullorðna fólkið sem var að taka mig í viðtal liti á mig sem druslu eða ógeðslegan ungan homma sem vildi að þetta gerðist fyrir sig. Nú síðar skil ég að það var ekki lögreglan sem var að hugsa það. ÉG var að hugsa það. Sjálfskömmin sem kemur í kjölfarið af svona lífsreynslu er rosaleg. Ég hefði aldrei viljað koma fram opinberlega í pytti samfélagsmiðlanna til að bæta ofan á þá skömm.

Viðbrögð, umræður og umfjallanir sem hafa orðið á miðlunum um svona tiltekin ofbeldismál staðfesta eitt fyrir mér. Það er að fólk er tilbúið og gjarnt til að efast um trúverðugleika þolenda. Það gerir það að verkum að fólk þagnar og skammast sín fyrir eigin tilfinningar og beinir sökinni að sjálfu sér. Jafnvel segir fólk meintum þolendum að skammast sín fyrir að segja frá og ljúga slæmum hlutum upp á gott fólk. Eins og skömmin sé ekki nægilega mikil nú þegar.

Getum við bara plís ekki fjallað um svona viðkvæm mál á opinberum vettvangi sem allir hafa aðgang að eins og þetta sé eitthvað sem við öll eigum að vit og eigum að dæma um? Við getum það ekki og við þurfum þess ekki heldur. Samfélagið er greinilega ekki að græða á okkar skoðunum. Við erum ennþá að efast um trúverðugleika í sögum þolenda jafnvel eftir risastóra byltingu sem átti sér stað fyrir rúmlega fimm árum.

Er hægt að endurskoða hvernig miðlar taka svona mál í hendurnar og hvernig er fjallað um þau? Svo við endum ekki í einhverri svona gaslýsinga – skoðanastríði á kommentakerfum um hvernig málin ættu að þróast. Ég og allir aðrir bara getum ekkert sagt um það og ég vil mest af öllu bara ekki þurfa að lesa um þessi mál meira svo ég fari ekki að hugsa um það og allt í einu mynda mér skoðun á fólki sem ég þekki ekki. Ég vil að fólkið sem vinnur í þágu réttinda okkar sé að vinna málið og að allir fái réttláta meðhöndlun, þolendur og gerendur. Það eina sem ég gæti vitað og sætt mig við að vita er að A) Þessi hefur verið ákærður um þetta. Og svo nokkrum mánuðum síðar B) Þessi hefur verið dæmdur sekur fyrir þetta og situr inni os.frv. eða var sýknaður. Við öll eigum ekki erindi inn í ferlið sjálft.

Við erum svo lítið samfélag. 

Það þarf bara eitt lítið tíst á opinberum vettvangi og samfélagið allt er komið með skoðun og orðið meðvirkt, reitt og á öðrum endanum.

Gullnu reglurnar í svona aðstæðum eru þessar að mínu mati: Ef einhver kemur upp að þér og lýsir tilfinningalegu uppnámi vegna atviks sem átti sér stað. Trúðu manneskjunni, spurðu nánar út í ef þú skilur ekki, veittu skilning og huggun. Sama hver á í hlut.

Það er nógu erfitt fyrir þolendur ofbeldis að lifa með sjálfu sér og sinni sjálfskömm og hvað þá að tala um það og fá þau skilaboð að þeir eigi að skammast sín enn meira. Við byggjum ekki upp réttlátt samfélag með því að þagga niður í tilfinningum.

Regla tvö: Ekki deila sögu manneskjunnar á opinberan vettvang. Hennar sorgarsaga er ekki þitt Instagram boost. Ef fjalla á um málið opinberlega verður frásögnin að koma frá aðilanum sjálfum. Það er þá þolandans að velja þá leið en viðkomandi þarf þá einnig að höndla afleiðingarnar og fatta í hvernig samfélagi við búum í.

Regla 3: Ekki vera hissa á léttvægri meðhöndlun kynferðisofbeldisfólks ef þú ferð ekki eftir fyrstu tveimur reglunum. Við erum hluti af kerfinu. Okkar einstaklingshegðun endurspeglast í því. Hvernig við glímum við svona mál persónulega hefur áhrif á samfélagið og hvernig við hugsum sem heild. Það verður áfram rotið ef við erum áfram meðvirk, fljót að dæma og afskiptasöm.

Að mörgu leyti opinberar svona mál svo margt í samfélaginu okkar. Sem í mínum augum er þetta. Það sýnir hvað við erum í raun samheldin þjóð en samt meðvirk, með mikla réttlætiskennd en samt með ákveðnum skilyrðum og síðast en ekki síst hvað við tökum hlutum ofboðslega persónulega og allt kemur okkur við.

Við erum svo lítið samfélag.

En ég held að við séum líka með stórasta, heitasta og viðkvæmasta hjartað.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -