Þriðjudagur 10. september, 2024
7.2 C
Reykjavik

Mann(eskju)líf Friðriks Agna – Mátturinn í grátinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Æfum samkennd Við verðum.

Ég grét í dag. Ég er tilfinninganæm vera. Hef alltaf verið. Þoli illa að sjá eymd eða vera viðstaddur rifrildi og átök af einhverju tagi. Ég tek það jafnvel nærri mér að heyra konu á næsta borði á veitingastað vera óánægða með matinn sinn. Ég fer að stressa mig yfir hvernig hún mun hella sér yfir aumingja þjóninn. Ég er viðkvæmur upp að meðvirkni sem er auðvitað ekki neitt til að stæra sig af. Öll þurfa helst alltaf að vera hamingjusöm og sátt í kringum mig. Ef þau eru það ekki þá fer ég að hugsa um hvað ég gerði sem veldur þeirra hegðun eða líðan. Þarna er ég kominn í svo mikla meðvirkni að það er eiginlega sjálfhverfa og stjórnsemi. Þarna er viðkvæmnin hætt að vera krúttleg og sæt og er orðin egósentrísk að því leyti að ég telji mig vera viðriðinn líðan allra í kringum mig. Að ég eigi rétt á og geti stjórnað líðan annarra. En stöldrum samt við grátinn, viðkvæmnina og samkenndina. Ég lofa að vinna í hinu. 

Það var svo gott að gráta einn með sjálfum mér að ég næstum fór að hlæja af hamingju einhvern veginn líka (Munið þið eftir atriði Cameron Diaz í The Holiday þegar hún loksins kunni að gráta í bílnum og fór svo allt í einu að hlæja af gleði?). Þetta var þannig. Ég var að gráta yfir bíómynd, ekki The Holiday samt. Og það var svo margt við það sem ég elskaði. Ég áttaði mig á hvað ég þurfti þess. Ég elskaði hvað ég var að gráta meðvitað. Bæði yfir atriðinu í myndinni og samhenginu sem það var í og fegurðinni, tengingu þess við mitt eigið líf, tónlistin, myndatakan, þakklætið yfir að geta fengið að upplifa það að horfa á bíómynd yfir höfuð og að lokum yfir í bara hreina unun þess að fá að vera til og gráta.

Ég fattaði að innblástur minn og sköpunargleði býr oft í grátinum. Sérstaklega í einveru og ég get leyft mér að vera hömlulaus. Grátur losar um allskonar. Oxytocin og Endorfín og ekki síst læstar tilfinningar. Þær tilfinningar þurfa ekki endilega að vera tengdar sorg eða særindum. Þær geta líka verið ást, uppgjöf eða spennufall jafnvel. Við verðum allavega berskjölduð í grátinum og komumst nær okkar mannleika. Í þessum mannlegheitum verður einnig virkni á samkenndar tauginni eða sympathetic nervous system. Það sem við getum kallað samkennd eða samúð. Við verðum færari á að spotta aðra í kringum okkur. Viðurkenna þeirra upplifanir í gegnum okkar berskjöldun. Sammannleg geta okkar til þess að þekkja sársauka og hamingju. Þetta tvennt lifir samhliða hvort öðru. Við þekkjum sorglegt ástand annarra því við þekkjum okkar eigin sorg og hamingju. Við þekkjum okkar eigin þarfir fyrir ást, öryggi og umhyggju. Það er ekki eða ætti ekki að vera hægt t.d. að sjá grátandi og sært barn og finna ekki til sorgar og samkenndar. Ef það gerist ekki þá skortir okkur samkennd. Ef okkur skortir samkennd þá er raunverulega eitthvað alvarlegt að. Okkur vantar stóran part af tauga- og tilfinningakerfi okkar. Við missum af tækifærinu til þess að vera tengd hvert öðru. Þannig fólk er vissulega til og eru þá svokallaðir sækópatar. Sama fólk skortir þá oftast siðferðiskennd líka. Mannkynssagan hefur því miður sýnt okkur það. En getum við æft okkur í að gráta? Þetta er bara pæling.

Ég sækist oft í að gráta í gegnum bíómyndir. Stundum er ég lengi að velja mér hvað ég vil horfa á af því ég veit innst inni að mig langar bara að verða hugfanginn og gráta. Þá er greinilegt að ég hef haldið einhverju inni sem þráir að komast út. Sumar myndir sem ég hef þegar séð veit ég að ég get stólað á til að uppfylla þessa svokölluðu grátþrá. Þannig að stundum finnst mér erfitt að velja að horfa á eitthvað nýtt sem gæti valdið vonbrigðum og ekki snert mig á neinn hátt. Það er áhættan sem við öll tökum þegar kemur að því að horfa á nýjar kvikmyndir. En þetta á svo sem ekki að vera grein um bíómyndir.

Það sem ég vildi koma inn á er gráturinn sem verkfæri sem notað er skipulega til að hjálpa okkur sjálfum og öðrum. Það getur hjálpað okkur að finna drifkraft, losa um einhverjar gáttir og um leið hugmyndir. Hjálpar okkur að átta okkur á hvað við höfum á sama tíma og við grátum kannski eitthvað sem við höfum misst. Því í tárunum er eins og margar tilfinningar geti búið saman, krossast þvert yfir hvor aðra og blandast saman eins og bitur sætur kokteill á kvörmum.

- Auglýsing -

Gráturinn opinberaði einnig fyrir mig hve mikið ég elska alla sem ég elska og hvað ég er þakklátur, enn og aftur. Allt þetta í einum gráti á kannski tveimur mínútum.

Kannski þurfum við bara að gráta aðeins oftar? Bæði þegar það sprettur náttúrulega fram en einnig leitast í það skipulega og vera óhrædd við að sýna að við höfum grátið? Ekki fela tárin í bíó eða á tónleikum. Rétt eins og í jarðarför þegar okkur finnst í lagi og eðlilegt að gráta þá er alveg jafn eðlilegt að gráta yfir öðrum aðstæðum. Útrýmum þessari mýtu um grát sem veikleika og að hann henti bara ákveðnum aðstæðum. Þvert á móti er grátur það sem kannski getur bjargað okkur. Já, bjargað okkur sjálfum úr stíflu sköpunar eða innbyggðrar reiði. Bjargað öðrum því að samkenndin okkar eftir grátinn verður til þess að við föðmum, aðstoðum, gefum og finnum lausn. Kannski, bara kannski getur grátur verið það sem kemur mannkyninu til bjargar?

Eftir grátur kemur oft þessi tómleiki að innan. Við tæmdum það sem var inni og færðum það út á við. Og akkúrat þá erum við eins hrein og berskjölduð og við getum orðið. Úr tóminu verður til eitthvað stórfenglegt. Út frá engu kemur ekkert, eða allt?

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -