Þriðjudagur 9. apríl, 2024
0.8 C
Reykjavik

Snerti ég við taug hjá ykkur?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Af og til gerist það í samfélaginu að það kviknar á eldspýtu. Hún kveikir svo í báli, bálið brennur og brennur þangað til það slokknar. Undan bálinu myndast þungi og leifar bálsins sökkva ofan í jörðina, myndar holu. Ormagryfju ummæla.

Nýlegar eldspýtur hafa verið þjóðarmorð í beinni útsendingu í heimssamfélaginu, Eurovision, þátttaka Palestínumanns í Söngvakeppninni, úrslit Söngvakeppninnar, framboð hommapars til forsetaembættisins svo eitthvað sé nefnt.

Ég reyni að skafa ekki af hlutum. Eða ég segi þá eins og þeir horfa við mér. Ég segi t.d. ekki átök á milli Palestínu og Ísraels einfaldlega því þannig horfir staðan þar ytra ekki við mér. Þannig er ég gerður. Þannig les ég í mannkynssöguna. Þannig les ég í mannkynið. Þannig meðtek ég upplýsingar sem ég fæ. Þannig met ég sársaukann sem ég sé.

Annað fólk sér allt aðrar upplýsingar en ég. Annað fólk sér hluti sem ég sé ekki. Gagnstætt við það sem ég sé jafnvel. Er þetta fólk vont?

Ég er ekki viss. Kannski.

Er ég kannski vondur? Kannski fyrir þeim.

- Auglýsing -

Getum við lifað samhliða hvert öðru, ég og fólkið sem hugsar gagnstætt? Eða munum við á endanum reyna að útrýma hvert öðru?

Það sem ég festist oft við að hugsa er þetta með að mega hafa ólíkar skoðanir. Hið margómaða skoðanafrelsi er oft kastað út á kommentakerfum. Sem er vissulega ríkjandi í landinu og iðulega nýtt. En hvað þýðir skoðanafrelsi? Eða öllu heldur hvað er skoðun?

Oj engan ESB HOMMA á Bessastaði!

- Auglýsing -

Oj illa skeinandi homma Arabi!

Eru þetta skoðanir?

Það er sem sagt skoðun einhvers að viðkomandi forseta frambjóðandi sé ekki viðeigandi á Bessastöðum af því að hann er hommi og af því hann styður inngöngu Íslands inn í ESB? Og að viðkomandi listamaður sé illa skeindur af því að hann er Arabi? Eða er hann illa skeindur af því hann er hommi?

Bæði þessi komment eru raunveruleg komment og eitt þeirra hefur jafnvel verið dregið fram í umræðu áður. Ég ætla ekkert að velta því fyrir mér hver skrifaði þetta eða draga þá aðila eitthvað fram frekar. 

En stöldrum við þetta tjáningarform. Ef ég myndi spyrja þann sem skrifaði skeini kommentið í persónu: Hvað finnst þér um þennan söngvara? Þá býst ég við því að viðkomandi svari mér: Oj hann er ógeðslegur og illa skeindur Araba hommi! 

Ég myndi ekki túlka það sem skoðun heldur að manneskjan væri að segja mér sannleika sem hann þekkti um þennan listamann. Mér þætti þá eðlilegast að spyrja næst hvort hann byggi með honum. Því ég veit ekki hvernig annars hann vissi til um að skeini venjur viðkomandi.

Ég yrði nú heldur betur hissa ef viðkomandi myndi svo svara mér því að hann þekkti listamanninn ekki neitt! Hann bara vissi þetta um hann. Þá hlýtur þessi manneskja að vera skyggn. 

Er þetta ekki rétt hugsað hjá mér? Hvernig annars vitum við svona hluti um annað fólk sem við þekkjum ekki neitt?

Eftir dálk síðustu viku hef ég almennt fengið mjög góð viðbrögð. Fólk kveikti smá á peru, þakkaði fyrir ágætis áminningu um fordóma. En svo fékk ég líka þessi klassísku varnarstöðu komment. Eða jafnvel prívat skilaboð. Eins og til dæmis að ég færi með rangt mál um sögu aðskilnaðarstefnu hjá mannkyninu og að hún sé ekki eitthvað sem hvítir Evrópubúar bjuggu til. En hvergi minntist ég á að svo væri og tók fram að ég væri að tala um vestræna heiminn og hvernig kynþáttafordómar höfðu þróast hér. Ég tók einnig fram að í gegnum aldanna rás höfum við mannfólk haft þörf á skilgreiningu á okkur sjálfum og umhverfi okkar. Þar af leiðandi flokkunarkerfi og aðskilnað. Með því að fara í vörn gagnvart því sem verið er að benda á þá eiginlega sannreynist staðreyndin um að verið sé að snerta á viðkvæmum taugum. Ég er ekki að reyna vekja upp sektarkennd og saka fólk. Frekar er ég að reyna fá fólk til að líta inn á við og spyrja sig sjálft spurninga. 

Eins og: Get ég gert betur? Get ég upplýst mig betur? Get ég komið betur fram? Get ég aðstoðað meira?

Við færumst ekki áfram ef við erum stöðugt á varðbergi og að verja okkar skoðanir. Hvað erum við svo sem að verja? Talað er um að verja íslenskuna t.d. Það er verðugt verkefni að mínu mati og mikilvægt fyrir arfleifð þjóðarinnar. Við getum og verðum að gera það á sama tíma og við sættum okkur við vaxandi fólksflutninga, alheimssamfélag og blandaðri menningu. Við getum ekki sett allt í bakkgír gegn náttúrulegri þróun mannkyns. Hver veit hvernig mannheimar líta út eftir 100 ár?

Hlutir eru ekki svartir og hvítir. Nánast aldrei. Sérstaklega ekki þegar kemur að mannfólki og hegðun þess.

Það er ekki skoðun að alhæfa og uppnefna fólk án nokkurar vitneskju um hvort alhæfingin eigi sér stoð í sannleikanum. En það er skoðun að segja t.d.: Þessi manneskja virkar á mig eins og hún gæti mögulega verið samkynhneigð. Veit ekki endilega af hverju, en það er einhver tilfinning sem ég fæ við að hlusta á eða horfa á viðkomandi. 

Þetta er álit, skoðun og tilfinning orðuð á hátt sem á sér stoð í raunveruleika. Þetta er innlæg upplifun einnar manneskju á annarri manneskju. Hvort sem að þessi skoðun eða tilfinning reynist svo sönn eða ekki verður bara að koma í ljós.

Það er frekar skrítin skoðun að segja: Mér finnst þessi manneskja vera illa skeind.

En þetta orðalag myndi samt flokkast sem skoðun. Hvernig það á sér stoð í raunveruleikanum er hins vegar annað mál. Út frá hvaða upplýsingum gæti ég mögulega fengið á tilfinninguna að einhver sé illa skeindur án þess að bókstaflega vera nálægt viðkomandi og lykta af bossanum af honum? Ég veit að þetta hljómar fáránlega en við búum hins vegar í heimi þar sem svona “skoðanir” fljúga um loftin og ég er að reyna að skilja okkur aðeins betur. Í rauninni er ég að reyna að benda á hvað við erum fáránleg. Ekki að sakfella heldur bara hlæja aðeins samt sem áður. Við hljótum að geta viðurkennt, svona ef við brjótum hegðun okkar niður, hvað við erum í raun fáránleg oft á tíðum.

Og ég trúi því statt og stöðugt að við getum öll gert betur. Ég absalút þar með talinn.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -