Sunnudagur 16. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Ásta Guðmundsdóttir fatahönnuður fetar nýjar slóðir: „Allt sem kemur frá náttúrunni heillar mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér finnst gaman að vinna með íslensk hráefni. Allt sem kemur frá náttúrunni heillar mig,“ segir Ásta Guðmundsdóttir, fatahönuður og listakona, sem hefur upp á síðkastið fetað nýjar slóðir með umhverfisvænar vinnsluaðferðir og sjálfbærni að leiðarljósi.

Mynd / Lisa Town Fyrirsæta / Sydney

„Ég vinn aðallega með náttúruleg efni og núna er ég aðeins farin að flétta endurvinnslu inn í hönnunina mína. Ég hef til dæmis verið að sanka að mér alls konar áhugaverðum hlutum á vinnustofuna mína, þar á meðal gömlum flíkum og endurnýti þær í eigin vörur. Þetta geri ég af því að mér finnst það hreinlega spennandi. Auk þess er það auðvitað bara í takt við tímann að framleiða vörur með umhverfisvænni aðferðum. Við þurfum að vera sjálfbær og huga miklu betur að umhverfinu,“ segir Ásta og brosir.

Ásta útskrifaðist sem fatahönnuður frá Fachhochschule fur Gestaltung Pforzheim í Þýskalandi og eftir að hafa búið þar um nokkurra ára skeið fluttist hún heim og fór að hanna föt undir eigin merki, ásta créative clothes. „Ég hef verið að hanna kjóla, skinnhúfur, lúffur og handprjónaðar peysur frekar með áherslu á konur en karla, þótt ég hafi nú gert eitthvað af prjónapeysum í gegnum tíðina sem henta fyrir bæði kyn,“ lýsir hún.

„Ég vil að flíkurnar sem ég hanna líti út fyrir að hafa verið úti í náttúrunni. Að þær hafi yfir sér náttúrulegan blæ.“

Hún segist meðal annars vinna með alls kyns textíl og íslensk hráefni, til dæmis íslenska ull sem sé bæði einstök í útliti og hlý. „Annars mætti segja að veðraðar flíkur séu mitt þema,“ segir hún. „Ég vil að flíkurnar sem ég hanna líti út fyrir að hafa verið úti í náttúrunni. Að þær hafi yfir sér náttúrulegan blæ.“

Mynd / Lisa Town Fyrirsæta / Birta Hallsteins

Jafnframt því að framleiða fatnað undir eigin merki fæst Ásta við skartgripagerð og listsköpun sem eru, rétt eins og fötin, innblásin af íslenskri náttúru. Hún segist stundum vera spurð að því hvers vegna fatahönnuður hafi leiðst út í listsköpun, hvort þetta sé ekki tvennt ólíkt, en fyrir henni sé þetta þvert á móti nátengt.

Ásta Guðmundsdóttir, fatahönuður og listakona.

„Sem dæmi nota ég líka mikið af óhefðbundum efnum bæði í hönnun mína, innsetningar og myndverk, eins og afganga, þræði og hrosshár. Það má segja að allt sem kemur frá náttúrunni heilli mig.“

- Auglýsing -

En hvar má nálgast verk eftir hana?

„Í Kirsuberjatrénu við Vesturgötu og í nýju vefversluninni okkar kirs.is. Kirsuberjatréð er orðin 28 ára gömul verslun með stóran kúnnahóp út um allan heim og það er gaman að á vefnum skuli þeim nú gefast færi á að sjá brot af því sem er í boði,“ segir hún og bætir við að nánari upplýsingar um hana sjálfa megi fá á astaclothes.is og á Instagram og Facebook undir ásta créative clothes.

Asta Creative Clothes í samstarfi við Stúdíó Birtíng.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -