Þriðjudagur 19. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Meistaranám í iðnaðarlíftækni

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Háskóli Íslands og lyfjafyrirtækið Alvotech hafa gert með sér samkomulag um þverfaglegt samstarf varðandi nýja námsleið en frá og með næsta hausti verður boðið upp á meistaranám í iðnaðarlíftækni við Háskóla Íslands. Fyrir utan kennara við Háskóla Íslands munu sérfræðingar og vísindamenn frá Alvotech koma að kennslu nokkurra námskeiða en Alvotech styrkir námið til að koma því á laggirnar. Umsóknarfrestur í námið er til 15. apríl.

 

Alþjóðlega lyfjafyrirtækið Alvotech var stofnað árið 2013 og var hátæknisetrið formlega opnað árið 2016. Það er staðsett innan Vísindagarða Háskóla Íslands en þeir voru stofnaðir til að efla samstarf fyrirtækja, rannsóknastofnana og háskóla um nýsköpun og skapa aðstöðu fyrir frumkvöðla.

„Þess vegna er ákaflega mikilvægt að koma á sterku samstarfi á milli fyrirtækisins og Háskóla Íslands,“ segir Sesselja Ómarsdóttir, prófessor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri hjá Alvotech. Fyrirtækið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu líftæknilyfja og stefnir fyrirtækið að því að vera leiðandi á sínu sviði á næstu árum. „Átta af tíu söluhæstu lyfjum í dag eru líftæknilyf; þetta er framtíðin,“ segir Sesselja.

Fyrirtækið styrkir meistaranámið til að koma því á laggirnar en að sögn Sesselju getur verið erfitt að koma af stað nýrri námsleið sem og kostnaðarsamt.

Mikilvægt fyrir báða aðila

„Samstarfssamningur var gerður 8. mars árið 2018 á milli Háskóla Íslands og Alvotech og í kjölfarið var sett á laggirnar samstarfsnefnd og meistaranám í iðnaðarlíftækni sem var eitt af þeim verkefnum sem sett var á oddinn til að ríða á vaðið í samstarfinu. Þar sem þetta samstarf byggir á því að efla kennslu, þjálfun, rannsóknir og nýsköpun fannst okkur eitt brýnasta verkefnið vera að koma af stað námi sem tengir saman þennan nýja og spennandi líftækniiðnað og akademíuna. Okkur hefur á einu ári tekist að setja saman þetta meistaranám í iðnaðarlíftækni,“ segir Sesselja en umsóknarfrestur í námið er til 15. apríl og hefst kennsla í haust.

„Þetta nám er ákaflega mikilvægt fyrir báða aðila og brautryðjandi námsleið í þeirri nýju hugsun að tengja saman atvinnulífið og akademíuna.“

- Auglýsing -

„Þetta nám er ákaflega mikilvægt fyrir báða aðila og brautryðjandi námsleið í þeirri nýju hugsun að tengja saman atvinnulífið og akademíuna. Við munum þannig nýta hæfileika og styrkleika bæði háskólans og Alvotech og gefa nemendum þá tækifæri til að vinna verkefni við báðar stofnanir. Starfsfólk Alvotech mun kenna á sumum námskeiðum en til að keyra þetta allt áfram var Jens Guðmundur Hjörleifsson, doktor í lífefnafræði, ráðinn sem lektor og akademískur umsjónarmaður námsins.“

Jens segir að hann muni halda utan um námið og passa upp á að allir spottar gangi upp hvað varðar bóklegt akademísk nám og tengingu við líftæknifyrirtæki úti í atvinnulífinu.

„Stór liður námsins er áhersla á líftæknilyf en námið er einnig byggt upp fyrir möguleika á annarri sérhæfingu innan líftækninnar. Við höfum mjög breiða línu valnámskeiða og munu umsjónarkennarar hjálpa nemendum við val námskeiða eftir þeirra áhugasviði. Þó að Alvotech styrki námið fyrstu árin þá er meginmarkmiðið að efla líftækniiðnað á Íslandi og stefnt er á samstarf við mörg önnur líftæknifyrirtæki í landinu. Þetta verður gott fyrir samfélagið í heild sinni.“

- Auglýsing -

Sesselja segir að auðvitað sé hluti af þessu að fá vel menntað fólk til starfa hjá Alvotech og öðrum líftæknifyrirtækjum en að ekki megi gleyma því að síðan megi búast við aukinni samvinnu á milli háskólans og atvinnulífsins og að sprotafyrirtæki verði stofnuð. „Þá verða til nýjar hugmyndir og rannsóknir eflast á sviðinu. Þetta er eitthvað sem við viljum byggja verulega góðar stoðir undir.“

Ákveðið frelsi

Meistaranámið í iðnaðarlíftækni er þverfaglegt samstarf á milli Heilbrigðisvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Umsækjendur þurfa að hafa lokið grunnnámi í raun- eða lífvísindum, heilbrigðisvísindum, verkfræði eða öðru sambærilegu námi. Kennsla mun að mestu leyti fara fram á ensku.

„Þetta þverfaglega nám miðar að því að tengja saman verkfræði, raunvísindi og heilbrigðisvísindi,“ segir Sesselja.

Nemendur þurfa að taka ákveðinn fjölda kjarnanámskeiða en svo er líka fjöldi valnámskeiða. Jens segir að nemendur geti svo valið 30 eða 60 eininga rannsóknaverkefni.

„Þau geta orðið til innan akademíunnar eða fyrirtækis; það er ákveðið frelsi þar. Umsjón með öllum rannsóknarverkefnum verður hjá akademískum starfsmönnum HÍ en nemendum verður gert kleift að vinna verkefnin að hluta eða í heild sinni í samstarfi við og hjá fyrirtækjum undir leiðsögn starfsmanna þeirra.“

Hvað er líftækni?

Jens útskýrir að bóluefnaframleiðsla, líftæknilyf, ensímþróun, hreinsun lífefna úr náttúrunni og erfðabreytingar á plöntum í landbúnaði mætti taka sem hagnýt dæmi sem tengjast líftækni.

„Þær miklu þróanir í aðferðum á greiningum á erfðamengjum en einnig þróun á aðferðum til að nýta frumur til framleiðslu á próteinum hefur verið ákveðinn hornsteinn í líftækni. Nú er hægt að gera flókna hluti á stuttum tíma sem áður gat spannað heilan starfsferil. Það þykir til dæmis ekkert stórvirki í dag að greina heilu erfðamengin. Þessi hraða þróun hefur leitt til vöntunar á lífvísindamenntuðu fólki. Meistaragráða í iðnaðarlíftækni er hugsuð til að mæta þessum skorti.”

Mikill vaxtarbroddur

Sesselja segist telja að framtíðin sé björt varðandi líftæknilyf og rekstur Alvotech.

„Fyrirtækið er að leita að um 100 nýjum starfsmönnum til að vinna í hátæknisetrinu þannig að það eru gríðarlega fjölbreytt störf í boði. Það er að minnsta kosti mikill vaxtarbroddur. Síðan er okkur mikið í mun að það myndist hérna gott umhverfi fyrir líftækni. Draumur okkar er að hafa líftækniklasa í mjög góðu samstarfi við Háskóla Íslands þar sem til dæmis sprotafyrirtæki geti fengið að blómstra,“ segir hún.

„Með þessu námi opnun við einnig fyrir fólk að fara síðar í frekara framhaldsnám í tengdum greinum,“ segir Jens.

Sesselja bætir við: „Við viljum hvetja öll líftæknifyrirtæki á landinu til að koma að náminu og bjóða upp á verkefni. Líftækni er framtíðarvísindagrein og við viljum endilega hvetja nemendur sem hyggja á frekara nám að skoða þetta nýja meistaranám.“

Stúdíó Birtíngur
Í samstarfi við Háskóla Íslands og Alvotech

Mynd / Hallur Karlsson

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -