Félag kvenna í atvinnulífinu ásamt samstarfsaðilum standa að ráðstefnu þann 31. október næstkomandi sem ber heitið Rétt upp hönd og er ráðstefna Jafnvægisvogarinnar. Mannlíf heimsótti Björk Baldvinsdóttur, sviðstjóra sölu- og viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu Dagar, í tilefni þess og spurði hana spjörunum úr um hennar áherslur og fyrirtækisins. En fyrirtækið Dagar hefur svo sannarlega lagt lóð á vogarskálarnar þegar kemur að jafnlaunavottun.
Segðu okkur aðeins frá fyrirtækinu Dagar og helstu markmiðum fyrirtækisins? „Markmið Daga er að vera fremsta þjónustufyrirtæki á landinum en fyrirtækið er leiðandi í fasteignaumsjón og býður upp á fjölbreytta þjónustu til fyrirtækja, samanber ræstingar, veitingaþjónustu og fasteignaumsjón,“ segir Björk og er stolt af sínu fyrirtæki. „Okkar markmið er að velja ávallt hæfasta fólkið í öll störf en að hafa að leiðarljósi að árangur fyrirtækisins byggist á fjölbreytileika í stjórnun.“
Eitt þriggja fyrstu fyrirtækjanna til að hljóta jafnlaunavottun VR
Þið eruð þegar komin með jafnlaunavottun VR, er það ekki rétt? „Við vorum eitt þriggja fyrstu fyrirtækja á Íslandi til að hljóta jafnlaunavottun VR og er fyrirtækið með jafnlaunastaðalinn IST 85:2012,“ segir Björk. Hjá Dögum starfa 800 manns og eru 75% konur. Hlutfall kvenna í framkvæmdastjórn er 33%, í framkvæmdaráði 37% en sem millistjórnendur eru konur í meirihluta, eða 88%.
Erlendu millistjórnendurnir góðar fyrirmyndir
Hafa stjórnendur hjá ykkur viljað taka raunveruleg skref til að auka jafnrétti í atvinnulífinu? „Já, stjórnendur Daga hafa ávallt lagt áherslu á að gefa starfsfólki tækifæri á að þróast innan fyrirtækisins og að taka að sér ábyrgðarmeiri störf. Stór hluti af okkar stjórnendum er starfsfólk sem hefur þróast innan fyrirtækisins og eru til dæmis millistjórnendur að langstærstum hluta konur, margar þeirra, bæði íslenskar og erlendar, hafa unnið sig upp. Þær erlendu hafa náð góðum tökum á íslenskunni og standa sig virkilega vel í starfi. Erlendu millistjórnendurnir eru góðar fyrirmyndir fyrir sína samlanda. Við erum ákaflega stolt af okkar starfsfólki, sama hvaðan það kemur.“
Aðeins 11% kvenna eru forstjórar
Finnst þér þörf á því að auka hlut kvenna í framkvæmdastjórn fyrirtækja á Íslandi? „Já, mikilvægt er að auka hlut kvenna í framkvæmdastjórnum fyrirtækja. Það þarf fjölbreytta liðsheild til að stýra fyrirtækjum. Það er áhyggjuefni þegar horft er til þess að 67% útskrifaðra háskólanema séu konur að aðeins 11% kvenna séu forstjórar. Þrátt fyrir að árangur hafi náðst í þessari vegferð er mikið verk fram undan. Markmiðið er ávallt að efla íslenskt atvinnulíf og er Jafnvægisvogin átak í því.“
Af hverju þarf fjölbreytta liðsheild til að stýra fyrirtækjum, er munur á því að vera með karl- og kvenstjórnendur? „Það fer alltaf eftir einstaklingnum en mikilvægt er að gildi og viðhorf beggja kynja komi fram í stjórnun fyrirtækja. Ásamt því skiptir líka miklu máli samsetning hvað varðar aldur, þekkingu og hæfni.“
Gullna brosið
Hjá ykkur eru í boði fjölbreytt störf og mikilvægi þeirra ekki oft á allra vörum. Hvernig er hægt að breyta því og koma skilaboðum til samfélagsins um mikilvægið og laða fólk að í þessi mikilvægu störf? „Í umræðunni fer oft lítið fyrir hvað þessi störf eru mikilvæg, samanber ræsting. Þessi störf ættu að vera meira metin en almennt er. Til að mynda má benda á að ef stofnanir, eins og heilbrigðisstofnanir, leikskólar og skólar eru ekki ræst í einhverja daga þá er þeim lokað með öllum þeim óþægindum fyrir samfélagið sem því fylgir. Ræstingarstarfið er mikilvægt og við reynum að benda okkar starfsfólki á að það beri mikla ábyrgð og það sé mikilvægur hlekkur í keðjunni.
Í hverjum mánuði veitum við viðurkenningu fyrir vel unnin störf, Gullna brosið, sem er þakklæti til starfsmanns fyrir framúrskarandi störf. Við gerum þetta í samstarfi við viðskiptavini okkar og fáum þannig skemmtilegt tækifæri til að koma hrósi til þeirra starfsmanna. Viðskiptavinir okkar benda á góð verk og tilnefna starfsmenn. Við vitum að jákvæð endurgjöf eykur traust og sjálfstæði í starfi sem leiðir aftur til aukinnar starfsgleði og góðra samskipta.“
Í samstarfi við Daga
Myndir/ Úr safni Daga