Laugardagur 25. maí, 2024
11.8 C
Reykjavik

Bak við góðan árangur liggja miklar fórnir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Harpa Káradóttir hefur um árabil verið meðal færustu sminkum landsins. Með gríðarmikla reynslu í farteskinu opnaði hún nýverið eigin förðunarskóla en hún segir að líf einstæðrar móður í eigin rekstri ekki alltaf vera dans á rósum.

Nú er Harpa góð fyrirmynd fyrir konur og áminning um að draumar geta ræst með mikilli vinnu. Á hún góð ráð fyrir konur í svipuðum hugleiðingum og hún?

„Ég á kannski ekki auðvelt með að ráðleggja öðrum konum hvað þær eiga að gera því aðstæður geta verið svo ólíkar. En ég ráðlegg öllum samt að fylgja draumum sínum og finna sér starf sem að þær hafa ánægju af. Vinnan er svo stór partur af lífinu og lífið verður svo miklu meira gefandi og skemmtilegra ef að maður fylgir hjartanu. Það þarf ekkert að vera að allt gangi upp en þannig er líka bara lífið. Maður lærir af allri lífsreynslu og sú reynsla mótar mann og fer með mann eitthvert annað.“

Talið berst af förðunar-trendum dagsins í dag og hvaða útlit er í uppáhaldi hjá Hörpu.

„Förðunar-trendin eru allskonar í dag. Ef að ég á að vera hreinskilin að þá er ég orðin mjög þreytt á ofmáluðum stúlkum þar sem að þeirra náttúrulega fegurð nánast hverfur. Ég kýs að nota förðunarvörur til þess að draga fram fegurð hvers og eins en ekki til þess að móta alla í sama formið,“ segir hún en viðurkennir að vera algjör snyrtivörufíkill en sækir mest í vörur sem láta henni líða vel og líta sem best út.

„Persónulega mála ég mig ekkert sérstaklega áberandi en notast engu að síður við allavega trix við mína daglegu förðun. Eftir því sem að ég fullorðnast þá mála ég mig aðeins minna en áður. Förðun gerir mjög mikið fyrir mig persónulega, sérstaklega þar sem fólk dæmir mig mögulega og mína vinnu svolítið eftir því hvernig ég kem til dyranna.“

„Förðun gerir mjög mikið fyrir mig persónulega, sérstaklega þar sem fólk dæmir mig mögulega og mína vinnu svolítið eftir því hvernig ég kem til dyranna.“

Harpa segist sjá mikinn mun á ungum konum í dag og þeim sem ólust upp á níunda áratuginum.
„Vissulega eru allavega öfgar í gangi en þannig er bara lífið. Það er eins með útlitið og annað að best er að gæta hófs. Varðandi fyllingarefni og annað slíkt þá á ég erfitt með að svara hvað sé rétt og hvað sé rangt. En ég myndi segja að fólk þurfi að vera búið að ná ákveðnum þroska til þess að taka ákvörðun um frekara inngrip líkt og að stækka varir og annað slíkt. Mér finnst mjög furðulegt að sjá ungar stúlkur augljóslega vera búnar að breyta andlitinu sínu. Ég hef svo allt aðra skoðun á því þegar að konur viðhalda útliti sínu þegar þær eldast.“

„Mér finnst mjög furðulegt að sjá ungar stúlkur augljóslega vera búnar að breyta andlitinu sínu. Ég hef svo allt aðra skoðun á því þegar að konur viðhalda útliti sínu þegar þær eldast.“

- Auglýsing -

Hún segir ungar konur í dag, upp til hópa, vera mun klárari í förðun en þegar hún var unglingur. „Förðun er orðin að mun meira áhugamáli í dag heldur en var. Tímarnir breytast hratt, til dæmis þegar að ég var tvítug og fór í förðunarnám þá voru mjög margir sem að skildu ekkert hvað ég var að spá og hvað í ósköpunum ég ætlaði að gera úr því. Í dag vinn ég myrkranna á milli og hef skapað mér ótrúlega skemmtilegan starfsferil. Það er algjör klisja að segja þetta en ég er í draumastarfinu mínu og myndi ekki vilja hafa neitt öðruvísi. Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa haft sterka trú á því að þetta gæti verið atvinnan mín í framtíðinni því að meirihluti fólks ranghvolfdi augunum og horfði á mig eins og ég væri hálfgerður hálfviti þegar að ég sagði frá því hvað ég væri að fara að gera.“

„Ég er stolt af sjálfri mér fyrir að hafa haft sterka trú á því að þetta gæti verið atvinnan mín í framtíðinni því að meirihluti fólks ranghvolfdi augunum og horfði á mig eins og ég væri hálfgerður hálfviti þegar að ég sagði frá því hvað ég væri að fara að gera.“

Útlitsdýrkun fylgir vissulega förðunarbransanum en hvað segir Harpa um það málefni?
„Útlitsdýrkun fylgir líklega öllum kynslóðum en ég viðurkenni það að ég er nokkuð sátt með að hafa alist upp án allra þessara samfélagsmiðla. Ég geri ráð fyrir að þeir setji töluverða pressu og gefi ungu fólki ranghugmyndir um það hvernig lífið er.“

Bak við góðan árangur liggja margar fórnir

- Auglýsing -

Harpa á fjögurra ára dóttur en það að að vera einstæð móðir í eigin rekstri er ekki alltaf dans á rósum.
„Ég er oft með nagandi samviskubit yfir því að vera stundum í burtu á kvöldin og um helgar en ég reyni að minna mig á að njóta þeirra stunda sem að við eigum saman og ég veit alltaf af henni í góðum höndum annars staðar þegar hún er ekki hjá mér. Ég eyði ekki miklum tíma í að spá í þetta, svona standa bara málin og við lifum kannski óvenjulegu lífi en engu að síður hamingjusömu lífi. Ég er með gott fólk og fjölskyldu í kringum mig sem hjálpar mér með stelpuna mína.“

„Ég er oft með nagandi samviskubit yfir því að vera stundum í burtu á kvöldin og um helgar…“

Hún segir mikilvægt að vera dóttur sinni góð fyrirmynd. „Ég vil sýna Kötlu dóttur minni að flest er hægt ef að viljinn er fyrir hendi og kenna henni að með því að vinna hörðum höndum að einhverju skili það sér á endanum. Til þess að ná góðum árangri þarftu yfirleitt að fórna meiru en næsti maður og maður þarf að læra að gera það með bros á vör til þess að komast þangað sem að maður ætlar sér. Bak við allan góðan árangur liggja miklar fórnir, það er bara þannig,“ segir Harpa að lokum og meinar hvert einasta orð.

„Til þess að ná góðum árangri þarftu yfirleitt að fórna meiru en næsti maður og maður þarf að læra að gera það með bros á vör til þess að komast þangað sem að maður ætlar sér. Bak við allan góðan árangur liggja margar fórnir.“

Viðtalið birtist fyrst í Vikunni.

Mynd / Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -