Þriðjudagur 18. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Barnaloppan – komin til að vera

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tæpt ár er nú liðið frá því að Guðríður Gunnlaugsdóttir fluttist heim frá Danmörku, þar sem hún hafði búið undanfarin ár ásamt fjölskyldu sinni. Guðríður hefur ekki setið auðum höndum eftir heimkomuna en í maí síðastliðnum opnaði hún Barnaloppuna, markað þar sem fólk getur komið með notaðar barnavörur og látið selja þær fyrir sig. Guðríður heillaðist af „loppu“-menningu Dana en hún vonast til að Barnaloppan verði skref í átt að breyttri kauphegðun Íslendinga og umhverfisverndar.

Eftir útskrift úr viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2011 fluttist Guðríður til Kaupmannahafnar ásamt fjölskyldu sinni. Við tók áframhaldandi nám og varð meistaranám í þjónustustjórnun fyrir valinu. „Ég var mjög ánægð með það nám, enda hef ég unnið í allskyns þjónustustörfum í gegnum tíðina og haft mikinn áhuga á hvernig fyrirtæki geta byggt upp sterk tengsl við viðskipavini sína og aukið gæði þjónustunnar,“ segir Guðríður. „Ég hef alltaf haft sterk tengsl við Danmörku því ég fæddist þar og bjó þar fyrstu árin í mínu lífi með foreldrum mínum sem voru í námi og á því marga góða að þar.“

Á þeim árum sem Guðríður bjó í Danmörku var hún að eigin sögn dyggur aðdáandi dönsku Loppumarkaðanna, eða flóamarkaðanna á réttri íslensku, en slíka markaði er að finna víðsvegar um borgina allan ársins hring. „Danir eru meira að segja með sérstakt loppudagatal, þar sem hægt er að sjá hvar og hvenær loppumarkaðirnir fara fram. Ég gerði oft frábær kaup á þessum mörkuðum og eftir nokkur ár í Kaupmannahöfn var þetta bara orðið þannig að ég keypti nánast ekkert nýtt. Ég keypti fatnað, húsgögn, skrautvöru og fleira notað, hvort sem það var á mörkuðum eða á Netinu. Mér fannst frábært að gera góð kaup á fallegum vörum, hvort sem það voru merkjavörur eða ekki,“ segir hún.

Meðan á náminu stóð velti Guðríður því mikið fyrir sér hvað hana langaði að gera eftir útskrift, og var alltaf með þá hugmynd í höfðinu að opna einhverskonar „second hand“ verslun, hvort sem það væri hérna heima eða úti. Hún segist fljótt hafa áttað sig á að hana langaði að gera eitthvað tengt börnum, þar sem henni hafi alltaf þótt langskemmtilegast þegar hún sjálf fann eitthvað fallegt á mörkuðum fyrir stelpurnar sínar tvær. „Ég elskaði ekkert meira en að kaupa fallegar vörur sem voru vel með farnar fyrir lítinn pening. En það er einmitt málið með barnavörurnar, þær eru margar hverjar notaðar svo rosalega stutt og því tilvalið að gefa þeim nýtt líf hjá nýrri fjölskyldu. Þó svo að það sjáist að varan hafi verið notuð þá finnst mér það satt að segja bara sjarmerandi og gott að vita til þess að varan eigi sér framhaldslíf. Ég er engan veginn snobbuð á svona hluti, heldur finnst mér frábært að það sé hægt að endurnýta hlutina og nota þá aftur og aftur. Gott fyrir umhverfið sem og budduna! Jörðin okkar er að fyllast af drasli og það er lífsnauðsynlegt að íhuga afleiðingarnar af því. Við þurfum ekki alltaf að vera að kaupa allt nýtt, við eigum að nota og nýta það sem til er. Það skiptir akkúrat engu máli þó svo að það sé ein saumspretta í úlpunni sem þú kaupir eða þó svo að það sé ein rispa á String-hillunni þinni. Svo las ég líka einhvers staðar að magnið af vatni og eiturefnum sem fer í að búa til eitt par af bláum gallabuxum sé gríðarlegt og að það þurfi nú alveg nokkra þvotta til þess að ná öllum þeim efnum úr flíkunum sem við kaupum.“

Þetta er aðeins brot úr viðtalinu við Guðríði. Lestu viðtalið í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar.

/Texti: Margrét Björk Jónsdóttir
/Mynd: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -