Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Einfaldar leiðir til að krydda sambandið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stundum þarf bara smá hugmyndaflug til að hressa upp á sambandið.

Misjafnt er hvað pör eru dugleg að gera hluti saman til að krydda sambandið þegar grár hversdagurinn tekur við eftir gáskafulla hveitibrauðsdaga svo ekki sé talað um þegar börnin fara að koma í heiminn og taka í burtu mestallan frítímann. Notalegar stundir þurfa þó ekki að vera flóknar og geta vel samræmst daglegum athöfnum – eina sem þarf er smávegis hugmyndaflug.

Fáðu pössun á mánudagskvöldi, taktu á móti makanum með sjóðheitu baði, kertaljósum og hafðu betri fötin tilbúin.

Stefnumót á virkum degi
Stundum henta virkir dagar betur til stefnumóta en helgar sem oft eru fullar af dagskrá og fólk vill kannski frekar nýta með börnunum. Fáðu pössun á mánudagskvöldi, taktu á móti makanum með sjóðheitu baði, kertaljósum og hafðu betri fötin tilbúin. Svo getið þið skellt ykkur út að borða, jafnvel í einn kaffibolla á eftir og samt verið komin heim á skikkanlegum tíma til að hleypa barnapíunni heim og komast það tímanlega í rúmið að þið verðið ekki að deyja úr þreytu daginn eftir. Auðvitað mætti líka skreppa saman í bíó eða leikhús en það gefur ykkur náttúrlega ekki eins mikinn tíma til að tala saman.

Saman í heimilisverkin
Í stað þess að híma í sitthvoru horninu við heimilisverkin getur verið sniðugt að boða til stefnumóts við þvottafjallið, uppvaskið eða eldamennskuna. Þegar mikið er að gera eru oft fáar stundir sem nást til að spjalla saman um daginn og veginn. Það getur því verið mjög skemmtilegt að njóta þess að vera saman á stundum sem mörgum finnst kvöð. Þeir sem hafa prófað þetta hafa sagt að á þessum klukkutíma sem tók að brjóta saman allan hreina þvottinn sem hafði safnast saman hafi þau hjónin náð að spjalla meira saman en í langan tíma. Það sama á við um eldamennsku – njótið þess að búa til matinn og spjalla saman í leiðinni um daginn og veginn. Sumir hafa líka nefnt að það sé ofsalega róandi að vaska upp, eins og hálfgerð hugleiðsla, og þarna geta pör hugleitt saman án þess að verða fyrir nokkurri truflun. Af hverju ekki að njóta þessara daglegu athafna, það þarf að gera þær hvort sem er.

Hittast í hádeginu
Sama hversu mikið við höfum að gera þá þurfum við alltaf að gefa okkur tíma til að borða og því er einhvern veginn svo hentugt að nota þær stundir til að njóta samvista. Skipuleggið að hittast sem oftast í hádeginu og fá ykkur „löns“ saman. Þetta brýtur upp vinnudaginn, þið hittist og eigið saman stund – gætu verið einu stundirnar sumar vikurnar sem þið hafið til að hittast bara tvö saman. Stundum gætuð þið jafnvel gripið með ykkur pizzu, góðan heilsudrykk eða jafnvel bara fengið ykkur skyr eða eitthvað álíka fljótlegt og hist heima í hádeginu – fengið ykkur einn stuttan í leiðinni.

Þegar mikið er að gera eru oft fáar stundir sem nást til að spjalla saman um daginn og veginn. Það getur því verið mjög skemmtilegt að njóta þess að vera saman á stundum sem mörgum finnst kvöð.

Dansnámskeið
Mikil skemmtun og samvera getur verið fólgin í því að fara saman á dansnámskeið. Það er bara enn skemmtilegra ef þið hafið aldrei kunnað neitt að dansa því þá getið þið grenjað af hlátri yfir klunnaskapnum og tilraununum til að ná sporunum rétt. Hver veit nema þið náið svo að láta þetta allt smella saman að lokum og getið þá svifið um í hvort annars örmum og slegið í gegn á dansgólfum skemmtistaðanna.

Taka til í geymslunni – saman
Margir hugsa til þess með hryllingi að fara í gegnum allt dótið sem hefur safnast saman í geymslunni á undanförnum árum og flestir muna varla hvað þar reynist vera – alla vega í fæstum tilfellum hlutir sem vantar því þeirra hefur ekki verið saknað síðan þeir fór í geymsluna. En þetta þarf ekki að vera svo slæmt. Skipuleggið stefnumót í geymslunni því þetta þarf ekki að vera svo leiðinlegt ef þið gerið þetta saman. Þegar hver hluturinn birtist á fætur öðrum þá rifjar það upp alls konar skemmtilegar minningar, t.d. lampinn frá Gunnu frænku sem ykkur fannst svo ljótur, hallærislegi jakkinn sem makinn kom með í sambandið en mátti aldrei henda og svo framvegis. Þegar þið hafið farið í gegnum allt og flokkað eftir því hvort eigi að geyma það áfram, henda eða að losa ykkur við þá getið þið auglýst eigulega hluti á bland.is, jafnvel pantað bás í Kolaportinu eða haldið bílskúrssölu og grætt á öllu saman.

- Auglýsing -

Ekki leita langt yfir skammt
Skoðaðu hvað sniðugt er hægt að gera í þínu nánasta umhverfi því oft er það sem sniðugt er að gera rétt fyrir framan nefið á okkur. Það þarf ekki alltaf að ferðast langar leiðir, krefjast mikils útbúnaðar eða fjárútláta að gera eitthvað skemmtilegt. Farið saman á bókasafnið og kíkið á bækur og blöð saman. Þar er til dæmis hægt að kíkja í gömul tímarit og oft er ekkert fyndnara en að sjá hvað fólk og tískan hefur breyst í áranna rás. Farið saman í gönguferð á staði sem ykkur hefur aldrei dottið í hug að fara á en stendur ykkur nærri. Þá gæti takmarkið til dæmis verið að ganga leið og götur sem þið hafið ekki farið áður og þá mun áreiðanleg margt koma á óvart.

Bakaðu köku, vöfflur eða gerðu heilsusamlokur og vertu tilbúin/n með kaffi og með því þegar makinn kemur heim úr vinnu seinnipartinn.

Sjónvarpslaus fimmtudagskvöld
Mörg okkar muna þá tíð þegar engar sjónvarpsútsendingar voru á fimmtudagskvöldum og ekki í júlí heldur. Á þessari tækniöld sem nú er runnin upp þá væri ekki vitlaust að hverfa einstöku sinnum aftur til þessara tíma. Slökkvið á sjónvarpinu, GSM-símum, Neti og tölvum. Heimasíminn má lifa svona til öryggis. Kveikið á kertum og njótið þess að vera heima í kyrrðinni frá þessu utanaðkomandi áreiti. Ef þið eigið börn þá skuluð þið leyfa þeim að njóta þessara stunda með ykkur. Komið saman og látið ykkur detta eitthvað sniðugt til að gera saman, t.d. spila, teikna, fara í leiki eins og að fela hlut, mjálmaðu nú kisa mín eða hollin skollin. Þarna gæti skapast tími sem allir fjölskyldumeðlimir gætu kunnað að meta og þjappað ykkur saman.

Komdu á óvart
Verið dugleg að gera eitthvað óvænt fyrir makann. Bakaðu köku, vöfflur eða gerðu heilsusamlokur og vertu tilbúin/n með kaffi og með því þegar makinn kemur heim úr vinnu seinnipartinn. Ef makinn sér alltaf um ákveðin húsverk skaltu koma honum á óvart með því að klára þau án þess að hann viti og segja að í staðinn séuð þið að fara saman í bíó. Komdu með góðan kaffibolla á leiðinni heim úr vinnu og færðu elskunni þinni eða keyptu uppáhaldstímaritið, bók eftir uppáhaldshöfundinn, gott freyðibað eða sturtusápu, kassa af uppáhaldsdrykknum sem aldrei er nóg til af eða bara hvað sem þér dettur í í hug.

- Auglýsing -

Sólarhringssjónvarpsmaraþon
Farið saman á hótel í einn sólarhring með allar seríurnar af uppáhaldssjónvarpsþættinum ykkar og skipuleggið maraþon. Setjið fyrirfram reglur um hluti sem þið eigið að gera ef eitthvað ákveðið gerist í þáttunum. Ef þetta er til dæmis Friends gætuð þið haft: Alltaf þegar Phoebe spilar á gítarinn þá á að fara í sleik, alltaf þegar Joey reynir að sjarmera einhvern upp úr skónum á að kyssast, þegar Ross gerir eitthvað vandræðalegt á að fara úr að ofan og svo framvegis.

Höfundur / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -