Mánudagur 17. júní, 2024
8.5 C
Reykjavik

Ekta ítölsk menning

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tinna Bessadóttir hönnuður bjó ásamt fjölskyldu sinni í Treviso Veneto sem er í hálftíma akstursfjarlægð frá sjálfum Feneyjum.

Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna.

„Treviso er eldgömul borg sem á sér sögu allt frá 100 árum fyrir Krist. Borgin er byggð með hliðsjón af Feneyjum. Feneyjar voru ekki með her en herinn í Treviso varði Feneyjar. Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar. Innan veggja miðbæjarins búa um 3.000 manns og erfitt að fara um á bíl en innan marka Treviso búa um 82.535 manns. Við vorum svo heppin að fá yndislega fallega íbúð rétt við múrinn og sóttum því alla okkar þjónustu, líkt og skóla barnanna, innan veggja miðbæjarins,“ segir Tinna.

Ódýrt flug
Treviso er frekar rík borg og Veneto-fylkið er það fylki sem á hvað mesta peninga á Ítalíu. „Það er lítið um fátækt í Treviso og mjög lág glæpatíðni. Sem dæmi má nefna að þá stendur á stóru skilti í hjarta miðbæjarins, á torginu Piazza Del Signore, stórum stöfum: „Treviso mafíulaus borg“.

Ryanair flýgur beint til Treviso frá London og er ekkert mál að finna flug þaðan fyrir 3.000-4.000 krónur. Það er einnig flogið frá Billund og þegar ég bjó í Danmörku var ódýrara fyrir mig að fljúga frá Billund til Treviso en að taka lestina frá Suður-Jótlandi til Kaupmannahafnar. Hótel og gistiheimili eru ódýrari þar en nálægt Feneyjum en það tekur um hálftíma að taka lestina til Feneyja, tæpa tvo tíma til Verona og þrjá tíma til Mílanó.“

Uppruni tiramisu
Tiramisu-kakan kemur uppunalega frá Treviso og veitingastaðurinn Le Beccherie, sem fann hana upp, er enn starfandi. „Hann var í eigu sömu fjölskyldu frá upphafi, eða frá 1960, en árið 2014 var hins vegar skipt um eigendur. Sama tiramisu-kakan hélt að sjálfsögðu sínum sess á matseðlinum. Tiramisu-kakan er stolt ítalskrar matarmenningar og mæli ég hiklaust með að stoppa á þessum sögufræga stað og fá sér sneið. Heimilisfangið er Piazza Giannino Ancilotto 11, 31100 Treviso.“

Borgin á sér mikla menningarsögu og miðbærinn er byggður inn í virki umkringt sýkjum sem kallast Le Mura-sýkin og setja mikinn svip á bæinn. Þau minna á Feneyjar.

Ekta ítalskur markaður
Rétt innan veggja múrsins er haldinn markaður alla fimmtudags- og laugardagsmorgna. „Á þessum markaði fæst allt milli himins og jarðar og hægt að upplifa sanna ítalska menningu eins og maður sér í gömlum bíómyndum. Fatnaður, heimilisáhöld, blóm, falleg veski, efnisstrangar með fallegu silki, pelsar og svona mætti lengi telja, flæða um, ásamt ferskum ávöxtum og grænmeti sem kemur beint frá bónda. Fiskur, kjöt og ostar eru einnig til staðar og kemur það allt líka beint frá bónda, afgreitt með bros á vör.

Alla þriðjudags- og laugardagsmorgna er fiskmarkaður á lítilli eyju í hjarta miðbæjarins, Isolotto della Pesceria. Þessi litla eyja er umkringd fersku vatni sem liggur í gegn um allan miðbæinn. Markaðurinn hefur verið þarna allt frá árinu 1854 og má oft sjá innfædda renna fyrir fiski á brúnni og iðandi fuglalíf sem setur skemmtilegan blæ á listaverk borgarinnar. Umhverfis eyjuna eru fjöldinn allur af litlum trattoria-veitingastöðum þar sem gott er að setjast með litla smárétti og vínglas, best er að panta einn af öllum. Það er gaman að segja frá því að vatnið innan múra Treviso er það hreint að það má vel drekka beint úr krananum.
Fjórða sunnudag hvers mánaðar er antíkmarkaður við hlið Borgo Cavour. „Þar er endalaust hægt að gramsa og finna ótrúlegar gersemar.“

- Auglýsing -

Fræg fatamerki
Piazza Del Signori er stærsta torg miðbæjarins með ótal veitingastaði. „Þar er yndislegt að setjast niður og fá sér pizzu og spriz að hætti heimamanna. Á kvöldin um helgar er oft lifandi tónlist og dansað á torginu við harmonikuspil eða ýmsar aðrar uppákomur. Þar er ávallt mikið mannlíf að hætti ítalskrar menningar, eins og brúðkaup, skrúðgöngur og sýningar af ýmsu tagi.

Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar

Í Treviso eru höfuðstöðvar merkjanna Benetton, Sisley, Stefanel, Geox, Diadora og Lotto Sport. Það er gott að versla í borginni en flestar þær verslanir sem eru innan veggja miðbæjarins eru frekar í hærri kantinum fyrir utan stóra og glæsilega H&M-verslun. Benetton-fjölskyldan er frá Treviso og bjuggu þeir bræður einmitt í bleikri höll sem prýddi enda götunnar okkar.“

Frægur tenór
Einn frægasti tenór Ítala, Mario Del Monaco, er frá Treviso. „Finna má styttur og leikhús í hans nafni í borginni. Það er um að gera að skella sér í leikhús eða á tónleika í hinu glæsilega leikhúsi Teatro Comunale Mario Del Monaco, teatrocomunaletreviso.it. Það er gaman að segja frá því að við bjuggum einmitt í gullfallegri íbúð bróður Del Monaco á meðan á dvöl okkar stóð í borginni. Þess vegna snart allt sem varðaði þennan söngvara, sem hafði áhrif á sjálfa Pavarotti og Domingo, okkur djúpt.“

- Auglýsing -

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Aðalmynd: Tinna Bessadóttir ásamt fjölskyldunni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -