Föstudagur 19. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Fyllti eldhúsið af keramík

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áskorun að fara út fyrir þægindarammann.

Hera Guðmundsdóttir hönnuður tók þátt í HönnunarMars 2018 með sýningunni Souvenir/Minning í Geysi Heima. Hún starfar bæði hérlendis og í Frakklandi og nafn hönnunar hennar, Atelier Dottir, tengir þessa tvo menningarheima.

Hera Guðmundsdóttir er konan á bakvið hönnunina Atelier Dottir og starfar bæði í París og á Íslandi.

„Sýningin mín á HönnunarMars 2018 er hluti af rannsóknarvinnu sem ég byrjaði á fyrir næstum ári síðan. Verkefnið er enn í mótun en mér fannst áhugavert að sýna verk sem er enn þá á útfærslustigi,“ úrskýrir Hera. „Rannsóknin snýr að sambandinu á milli lyktar og minnis eða hvernig við tengjum ákveðna lykt við stað og stund. Ég notast við ilmkjarnaolíur sem ég hef blandað til að draga fram ákveðnar minningar, mínar eigin og annarra, en ég dreypi svo þessum olíum yfir litla skúlptúra úr steinleir sem dregur ilminn í sig og gefur jafnframt frá sér. Verkefnið er mun nær mér en það sem ég hef gert hingað til en í því er einmitt mikil áskorun, að fara út fyrir þægindarammann og sjá hvað gerist.“

Flakkar milli miðla
Hera lærði fatahönnun í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist 2012 en hefur á síðustu árum færst yfir í önnur listform. Hún er líklega þekktust fyrir veggspjöldin sem hafa verið í sölu og nú síðast bættist keramíkið við.

„Ætli það sem ég geri sé ekki á mörkum hönnunar og listar. Mér finnst mjög áhugavert allt sem að sameinar notagildi og fagurfræði; hlutirnir sem við umkringjum okkur með og fegra umhverfi okkar. Ég flakka á milli miðla en hingað til hef ég mest unnið með collage og ljósmyndir sem verða svo að veggspjöldunum sem Atelier Dottir er þekkt fyrir. Nýjasti miðillinn er hins vegar keramík sem ég byrjaði að vinna með síðasta haust. Mér finnst engin ástæða til að einskorða sig við einn miðil eða eina ákveðna tækni, það sem vekur áhuga hverju sinni er alltaf vert að skoða.

Það var ekki endilega meðvituð ákvörðun að hverfa frá fatahönnun. Mig langaði að breyta til og lét eina spurningu ráða ferðinni: „Hvað langar þig að gera alla daga, alltaf?“ Það sem ég komst að er að ég þrífst best þegar ég vinn að ólíkum verkefnum, þegar engir tveir dagar eru eins. Ég er ekki viss um að ég hafi sagt skilið við fatahönnun fyrir fullt og allt en í augnablikinu finn ég mig betur innan listarinnar og annarra sviða hönnunar. Allt sem ég nýti mér í dag við rannsóknar- og hugmyndavinnu lærði ég í náminu. Ég sé það alltaf betur og betur hversu margar og ólíkar dyr hönnunarnám getur opnað. Námið er í raun upphafspunktur rannsóknar sem svo teygir sig inn á önnur og ólík svið.“

Í nýjustu hönnun sinni dreypir Herar ilmkjarnaolíum yfir litla skúlptúra úr steinleir með það að markmiði að draga fram minningar.

Kynntist ástinni í París
List hefur alltaf skipt Heru miklu máli og hún hefur alla tíð verið umkringd list bæði heima hjá sér og hjá afa sínum og ömmu. „Ég veit ekki hvernig áhuginn kviknaði fyrir alvöru, ætli hann hafi ekki bara alltaf verið þarna en ég held að ég hafi lært snemma að list væri sjálfsögð og nauðsynleg. Ég er fædd í Reykjavík og alin upp við Skólavörðuholtið. Foreldrar mínir fluttu í Garðabæ þegar ég var unglingur og búa þar enn en mér hefur alltaf fundist ég vera miklu meiri Reykvíkingur en nokkuð annað. Ég kynntist manninum mínum í París en við erum búin að vera saman í tæp fimm ár. Hann er einstaklega skilningsríkur og þarf oft að sýna mikla þolinmæði þegar ég er í miðju verkefni. Ég lagði til dæmis undir mig eldhúsið í desember fyrir keramíkið og það var varla hægt að sjóða vatn þar fyrir vösum og klumpum af steinleir. Foreldrar mínir og afi og amma hafa líka sýnt mér mikinn stuðning, alveg síðan í náminu, voru alltaf í klappliðinu og alltaf til í skutl og reddingar á síðustu stundu.“

„Það hefur milka þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum.“

- Auglýsing -

Hera flutti til Frakklands haustið 2012 til að vera í starfsnámi í þrjá mánuði. Síðan eru liðin sex ár. „Frakkland og þá sérstaklega París er og verður draumastaður fyrir alla sem tengjast list eða hönnun, sagan og söfnin eru næg ástæða til að setjast þar að. Síðan er maðurinn minn auðvitað er franskur. Nafnið sem ég hanna undir, Atelier Dottir, tengir saman löndin mín tvö og vísar í þetta flakk á milli Parísar og Reykjavíkur. Svo spilaði líka inn í að „h“ er ekki borið fram í frönsku og ég hef enn þá ekki hitt þann Frakka sem getur borið rétt fram föðurnafnið mitt.“

Hera hélt sýningu í Geysi heima á HönnunarMars.

Sækir orku til Íslands
Hera hefur haldið nokkrar sýningar. Í Reykjavík hefur hún sýnt hjá Norr11, The Coocoo’s nest og Geysi Heima. „Allt mjög ólíkar sýningar sem eiga það sameiginlegt að hafa verið unnar í samstarfi við frábært fólk og haldnar í fallegum rýmum svo það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra. Í desember síðastliðnum tók ég í fyrsta skipti þátt í samsýningu hönnuða í París en út frá þeirri sýningu hófst nýtt samstarf sem verður kynnt með vorinu. Það hefur mikla þýðingu fyrir mig að sýna á Íslandi. Ég sæki mér orku í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands og það eru algjör forréttindi að geta flakkað svona á milli og sinnt verkefnum á báðum stöðum. Það skiptir mig miklu máli að halda í þessa tengingu.“

Næsta verkefni Heru er lína af handgerðum keramíkvösum sem hún gerir fyrir blómasalann Louis-Géraud Castor sem sér meðal annars um blómaskreytingar fyrir búðir A.P.C. og Lemaire og Picasso-safnið í París. „Við byrjuðum á hugmyndavinnunni í desember og ætlum okkur að kynna vasana í apríl en fyrsta frumgerðin var hluti af sýningunni minni á HönnunarMars,“ segir Hera að lokum. Hera er á Facebook og Instagram undir notandanafninu Atelier Dottir. Veggspjöldin og gjafakortin fást í Geysi Heima og Akkúrat.

- Auglýsing -

Viðtalið birtist í 12. tbl. Vikunnar 2018. 

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -