Miðvikudagur 17. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Hrokinn kom mér á botninn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjartur Guðmundsson býður upp á óvenjulega árangursþjálfun.

Bjartur Guðmundsson er leikari, árangursþjálfi og eigandi fyrirtækisins Optimized Performance sem hann stofnaði í febrúar 2016. Hann býður upp á óvenjulega árangursþjálfun fyrir alla sem vilja öðlast hámarksaðgengi að getu sinni og hæfileikum á hvaða sviði sem er. Bjartur byggir námskeiðin ekki síst út frá eign reynslu.

Bjartur Guðmundsson er leikari, árangursþjálfi og eigandi fyrirtækisins Optimized Performance sem hann stofnaði í febrúar 2016. Hann býður upp á óvenjulega árangursþjálfun fyrir alla sem vilja öðlast hámarksaðgengi að getu sinni og hæfileikum á hvaða sviði sem er.

„Ég trúi því að allur árangur, óháð í hverju, sé bundinn við þrjá þætti. Í fyrsta lagi þekkingu og kunnáttu, í öðru lagi viðhorfi okkar til okkar sjálfra og þess sem við viljum ná árangri í og í þriðja lagi venjubundnu tilfinningalegu ástandi.

Af þessum þremur atriðum vegur tilfinningalegt ástand þyngst, svo viðhorf og síðan þekking og kunnátta. Þar af leiðandi gengur Optimized Performance út á tilfinninga- og viðhorfsþjálfun sem fer fram á hrikalega skemmtilegum og áhrifaríkum námkeiðum þar sem þátttakendur læra að örva taugakerfið þannig að útkoman verði það sem ég kalla topp tilfinningalegt ástand,“ segir Bjartur.

„Í þessu öfluga ástandi galopnast aðgengi taugakerfisins að hæfileikum, upplýsingum og skapandi hugsun, við tökum uppbyggilegri ákvarðanir og fylgjum þeim eftir með vandaðri athöfnum, samskiptahæfni fer upp á annað plan og kærleiksríkt sjálfstraust fer í hæstu hæðir. Þetta er alveg geggjað hreint út sagt.“

Var hræddur við höfnun

Bjartur segist hafa misstigið sig ótal sinnum og upphaf þessa ævintýris megi rekja til þess að hann hélt að hann væri búinn að meika það sem leikari stuttu eftir að hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2009. „Fyrir vikið féll ég í þann fúla pitt að trúa því að nú myndu leikstjórar og framleiðendur bjóða mér hlutverk í hrönnum. Með öðrum orðum þá varð ég hrokafullur og taldi mér trú um að það væri fyrir neðan mína virðingu að sækjast af krafti eftir hlutverkum en raunverulega var ég bara skíthræddur við höfnun og að standast ekki væntingar. Ég áorkaði þó einu og það var að verða grautfúll, reiður og bitur á mettíma en sem betur fer er ég frekar jákvæður einstaklingur að upplagi og fór að leita leiða til að komast á betri stað. Það er sagt að við þurfum annaðhvort örvæntingu eða innblástur til að taka nýja stefnu í lífinu og ég var svo sannarlega örvæntingafullur á þessum tímapunkti. Innblásturinn kom svo þegar vinur minn benti mér á mannræktarfrömuðinn Anthony Robbins en ég er undir gríðarlegum áhrifum frá honum, hef marglesið allar bækur hans, farið í gegnum hljóðprógrömm og setið námskeið. Síðan þá hef ég verið mikill áhugamaður um mannrækt og jákvæða sálfræði sem svo varð til þess að ég stofnaði Optimized Performance,“ segir Bjartur.

„… Með öðrum orðum þá varð ég hrokafullur og taldi mér trú um að það væri fyrir neðan mína virðingu að sækjast af krafti eftir hlutverkum en raunverulega var ég bara skíthræddur við höfnun og að standast ekki væntingar.“

- Auglýsing -

Til þessa hefur hann unnið með tæplega 80 vinnustöðum og rúmlega 3.000 einstaklingum og segir að viðbrögðin við námskeiðunum hafi verið ótrúlega góð. „Það er eitthvað við það að gefa af sér en markmiðið með þessu öllu er að miðla hugmyndafræði og aðferðum sem geta stórbætt lífsgæði fólks. Námskeiðin eru fyrir alla sem hafa áhuga á því að taka skref fram á við og eru tilbúnir að axla ábyrgð á eigin gæfu.

Það hefur verið sagt að ef við viljum betra líf þá þurfum við sjálf að verða betri í lífinu. Með því að læra hvernig hægt er að innprenta uppbyggileg viðhorf og hvernig hægt er kynda upp öflugar uppbyggilegar tilfinningar sem veita kraft, hugrekki, trú og traust þá eru okkur bókstaflega allir vegir færir. Fyrir mér eru þetta lykilatriði ef maður vill verða góður í lífinu og það magnaða er að þetta er ekki flókið og er meira að segja frekar létt ef maður skilur og kann aðferðirnar.“

Niðurrif engum til góðs

- Auglýsing -

Bjartur lumar á ýmsum ráðum til fólks sem á það til að tala sig niður. „Já. Í fyrsta lagi verðum við að átta okkur á því að við gerum ekkert nema við trúum því að það muni hafa einhverjar jákvæðar afleiðingar í för með sér eða við trúum því að það forði okkur frá einhverjum neikvæðum afleiðingum. Það að tala okkur niður getur leitt til þess að annað fólk sýni okkur alúð og hlýju og þannig upplifum við ást og tengingu. Sumir trúa því að það sé bókstaflega mikilvægt að drulla yfir sjálfa sig til þess að læra af mistökum. Sjálfsniðurrif getur verið leið okkar til að finnast við vera auðmjúk, ekki hrokafull eins og allir hrokafullu fávitarnir og þannig upplifum við að við séum merkileg. Stundum notum við niðurrif til að búa til afsakanir, til að stjórna, til að forðast að gera eitthvað sem við óttumst en vitum að væri gott fyrir okkur. Við notum sjálfsniðurrif líka til að gefa okkur leyfi til að gera eitthvað sem veitir skjótfengna vellíðan en er raunverulega ekki gott fyrir okkur né aðra.

Ég veit að þetta kann að hljóma fáránlega og það er fáránlegt að við notum sjálfsniðurrif á þennan hátt en ef við gerum mikið af því, þá er það vegna þess að við höldum að það muni forða okkur frá meiri sársauka eða hreinlega veita okkur vellíðan.

Með því að læra hvernig hægt er að innprenta uppbyggileg viðhorf og hvernig hægt er kynda upp öflugar uppbyggilegar tilfinningar sem veita kraft, hugrekki, trú og traust þá eru okkur bókstaflega allir vegir færir, að sögn Bjarts. Mynd / www.pixabay.com

Til að venja okkur af þessum ósið þurfum við að komast að því hvaða sársauka við erum að reyna að forðast og/eða hvaða vellíðan við erum að sækjast eftir. Því næst þurfum við að átta okkur á því að sjálfsniðurrif mun alltaf leiða til meiri sársauka en vellíðunar og taka ákvörðun um að það sé heimskulegt og ekki þess virði. Þetta gerum við með því að svara eftirfarandi spurningum: Hvaða sársauka mun það leiða af sér að rífa mig niður? Hvaða vellíðan mun það leiða af sér að hætta að rífa mig níður? Hvaða vellíðan mun ég upplifa ef ég tem mér að tala mig upp?

Hér er mikilvægt að koma með eins mörg svör og hægt er við hverri spurningu og svörin verða að kynda upp tilfinningar. Ef okkur tekst að gera þetta þá fer okkur virkilega að langa til að breyta hugsanamynstri okkar sem þýðir að við erum opin fyrir næsta skrefi sem er að taka eftir því þegar við dettum inn í niðurrif og gera eftirfarandi um leið: Hoppa með hendur upp í loft og íhuga þessar spurningar í tvær mínútur: Hvað gæti ég verið þakklát/ur fyrir núna ef ég vildi virkilega vera þakklát/ur? Hvað gæti mér líkað vel við í eigin fari ef ég virkilega vildi? Hverju gæti ég verið stolt/ur af við sjálfa/n mig ef ég virkilega vildi? Líkamsbeiting hefur stórkostleg áhrif á líðan okkar og það eitt að hoppa með hendur upp í loft í tvær mínútur kemur okkur í betra andlegt ástand þar sem er auðveldara að tala sig upp. Það sama gildir með spurningarnar en með því að einbeita okkur að þeim og svara í tvær mínútur getum við kynt upp sterkar uppbyggilegar tilfinningar. Með því að hoppa og svara spurningunum getum við keyrt okkur upp í frábært tilfinningalegt ástand á aðeins tveimur mínútum og tamið okkur uppbyggilegri viðhorf gagnvart sjálfum okkur. Ég hvet alla til að prófa þetta,“ segir Bjartur brosandi.

„Æfingin hér að ofan er frábær til að komast í gott tilfinningalegt ástand en almennt er það þrennt sem ber að hafa í huga. Að beita líkamanum og röddinni eins og þegar okkur líður vel, hugleiða uppbyggilegar spurningar og nota orðalag sem er uppbyggilegt.“

Og það er margt skemmtilegt fram undan hjá Bjarti. „Ég er á fullu að bóka námskeið með hinum ýmsu fyrirtækjum fyrir veturinn en ég bendi áhugasömum á að senda mér bara tölvupóst á [email protected] eða fara á www.optimized.is og kynna sér málið betur. Svo er ég svo brattur að lofa því að ef þér líkar ekki námskeiðið þá færðu það endurgreitt að fullu,“ segir hann sposkur að lokum.

Texti / Ragnhildur Aðalssteinsdóttir
Myndir / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -