Miðvikudagur 11. september, 2024
7.8 C
Reykjavik

„Lítill tími í tilhugalíf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjöfn Kristjánsdóttir selur prjónauppskriftir af barnafötum sem hún hannar á vefversluninni Petit Knitting.

Hjónin Sjöfn Kristjánsdóttir og Grétar Karl Arason.

Sjöfn Kristjánsdóttir prjónaði svo mikið á son sinn í fæðingarorlofinu að eiginmaður hennar, Grétar Karl Arason, stakk upp á því að hún gerði þetta að atvinnu. Hugmyndin var gripin á lofti og vefverslunin Petit Knitting varð til þar sem hægt er að kaupa prjónauppskriftir af barnafötum sem Sjöfn hannar.

„Þessi hugmynd kom þegar ég var í fæðingarorlofi með Ara, sem er 1 árs, en þá prjónaði ég alveg eins og vindurinn á hann. Eitt kvöldið spurði Grétar mig af hverju ég gerði ekki eitthvað úr þessu, hvort ég gæti ekki skrifað upp þessar uppskriftir og selt. Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk. Við kýldum hugmyndina í gang og þetta átti að vera svona auka áhugamál en þrátt fyrir að það séu aðeins sex mánuðir síðan við byrjuðum erum við orðin stórt nafn í íslenskum prjónaheimi með yfir fjögur þúsund fylgjendur á Facebook og yfir tvö þúsund fylgjendur á Instagram. Við byrjuðum með eina uppskrift en erum núna komin með yfir 30 uppskriftir í sölu. Grétar sér um tæknilegu hliðina, kaupir auglýsingar og heldur utan um markaðssetningu og fjármálin. Ég sé um að hanna, skrifa og prjóna uppskriftirnar og taka myndir af því sem ég hef verið að gera,“ segir Sjöfn.

„Ég hef sjálf aldrei farið eftir uppskriftum því mér finnst þær oft of flóknar og hef því alltaf verið að breyta þeim og laga að mínu smekk.“

Skandinavísk hönnun

Sjöfn er forstöðumaður í dægradvöl Vatnsendaskóla og Grétar er viðskiptastjóri hjá Símanum. Þau eiga tvö börn, Sögu Sjafnar, sem er 11 ára, og Ara Sjafnar, sem er eins og áður sagði nýorðinn eins árs. „Petit Knitting er þriðja barnið og er vefverslun með

„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær.“

prjónauppskriftir. Við seljum uppskriftir í stykkjatali en það er svolítil vöntun á því hér á landi. Nú gefst fólki kostur á því að versla þessa einu uppskrift sem það langar í án þess að þurfa að kaupa heilt blað eða heila bók. Svo er þetta líka allt rafrænt hjá okkur sem gerir okkur umhverfisvæn. Grétar vinnur að heiman eins og er og sér um Ara á meðan ég vinn frá 8-16 á daginn. Ég kem svo heim og tek við og Grétar klárar það sem þarf að gera í hans vinnu. Svo er eldað, baðað, sett í þvottavélar, látið læra heima og komið í háttinn. Þegar heimilið er komið í ró sest ég við prjónaskap og prjóna þar til ég fer að sofa. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og lítill tími í tilhugalíf,“ segir hún hlæjandi.

„Við erum aðallega að hanna uppskriftir að barnafötum. Við byrjuðum að hanna föt í stærðum 0-2 ára en erum nú komin með uppskriftir í stærðum 0-10 ára. Það var eftirspurn eftir stærri stærðum svo við urðum við þeirri beiðni. Eins og er eru allar uppskriftir á íslensku og nokkrar höfum við þýtt yfir á ensku. Um þessar mundir er verið að þýða allar uppskriftir yfir á dönsku og svo er markmiðið að koma öllum uppskriftum yfir á norsku og ensku líka. Skandinavía er stór og prjónaáhugi í löndunum þar er mjög mikill. Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku. Nafnið á fyrirtækinu er eiginlega sameiginleg ákvörðun mín og vinkvenna minna, þeirra Abbýjar og Ástríðar. Ég henti nokkrum nöfnum á þær og við vorum svo sammála um að Petit Knitting væri fullkomið. Það er bæði alþjóðlegt og lýsir því sem ég er að gera – að prjóna á litla fólkið.“

- Auglýsing -

Með tíu þumalfingur

Áhuginn á prjónaskap og hönnun byrjaði snemma hjá Sjöfn. „Mamma, Guðný Guðmundsdóttir, var mikil prjónakona og hannaði og seldi flíkur eftir sjálfa sig. Hún hlaut einnig gullprjóna ársins 1995 sem voru veittir af prjónabúðinni Tinnu fyrir prjónaskap og hönnun. Ég var sjálf 13 ára þegar ég prjónaði fyrstu flíkina mína hjálparlaust en það var húfa og að sjálfsögðu var hún ekki prjónuð eftir uppskrift. Eftir það var ekki aftur snúið og hef ég verið að prjóna síðan en með nokkrum hléum þó. Ég útskrifaðist svo árið 2002 af hönnunar- og textílbraut frá FB en fór svo í uppeldis- og menntunarfræði í HÍ og tók meistarapróf í því fagi. Hönnunin hefur samt alltaf yfirhöndina þó að ég þurfi að sinna henni í frítíma mínum eins og er. Ég stefni að því að geta unnið við þetta sem aðalstarf eftir um það bil tvö ár.“

„Hönnun mín er í skandinavískum stíl svo möguleikar okkar eiga eftir að margfaldast þegar við komum uppskriftum yfir á Norðurlandamálin sem og á ensku,“ segir Sjöfn.

Hún er enn sú eina í fjölskyldunni sem prjónar en hún hefur reynt að ná manninum sínum og dóttur í þetta með sér. „Ég hef mikið reynt að fá Grétar til að grípa í prjónana því ég er með svo margar hugmyndir í kollinum en bara tvær hendur svo það er fullt af hugmyndum sem þurfa að bíða. En hann hefur ekki fallið í þá freistni enn þá. Hann segist vera með tíu þumalputta. Saga er aðeins byrjuð að prjóna með mér en þolinmæðin er ekki alveg nógu mikil enn þá. Hún hefur þó mikinn áhuga á því sem ég er að gera svo það er aldrei að vita hvernig framtíðin verður hjá henni. Hún er mjög skapandi en það er spurning á hvaða sviði sköpunar hún endar. Ari hefur mjög mikinn áhuga á garnhniklum en það kemur í ljós hvort hann verði með tíu þumalfingur eins og pabbi sinn.“

„Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu.“

- Auglýsing -

Annars eru spennandi tímar fram undan og markaðurinn sívaxandi eftir því sem uppskriftirnar eru þýddar á fleiri tungumál. „Ég legg mikið upp úr því að hafa uppskriftirnar mínar einfaldar, skýrar og aðgengilegar þannig að allir prjónarar komist í gegnum þær. Það er fátt leiðinlegra en flóknar og óskýrar uppskriftir sem gera það að verkum að maður endar með því að henda prjónunum ofan í skúffu,“ segir Sjöfn að lokum.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðunni petitknitting.com, á Instagram undir petitknitting_iceland og á Facebook undir Petitknitting.

Texti / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir
Myndir /Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -