Miðvikudagur 21. febrúar, 2024
1.8 C
Reykjavik

Mamma veit best

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Til eru ófáar kvikmyndir sem fjalla um hið flókna en fallega samband sem á sér stað milli móður og dóttur. Hér eru nokkrar sem sýna kómísku hliðina.

Svaðilför í frumskógi
Þegar kærasti Emily segir henni upp ákveður hún að fara með ofurvarkára móður sína í ævintýralegt frí til Ecuador. Það endar ekki betur en svo að þeim er rænt. Þær átta sig fljótlega á því að þær verða að vinna saman, þrátt fyrir að vera gjörólíkar týpur. Þessi reynsla hefur góð áhrif á samband þeirra og þær bindast fyrir vikið traustari böndum við það að reyna að losna úr prísundinni í frumskóginum.

Samþykktur af mömmu
Í myndinni Because I Said So kynnumst við Daphne Wilder. Hún er móðir sem þekkir engin mörk og vill vera með stöðug ítök í lífi dætra sinna. Dætur hennar þrjár eru geðlæknirinn Maggie, hin kynþokkafulla og óábyrga Mae og hin óörugga en aðlaðandi Milly – sem er ekki enn gengin út og veit ekki hvernig á að haga sér þegar kemur að karlmönnum. Til að koma í veg fyrir að yngsta dóttirin geri sömu mistök og hún gerði ákveður Daphne að finna sjálf fullkominn mann fyrir hana og koma þeim saman án þess að Milly viti.

Hættulegt tvíeyki
Þegar kemur að því að svindla á milljónamæringum eru mæðgurnar Maxine Paige sannir fagmenn. Svikamyllan í myndinni Heartbreakers er einföld; fyrst giftist Maxine þeim, síðan tælir Paige þá og svo fer Maxine fram á skilnað með tilheyrandi skilnaðarpakka. Þegar þessu er lokið snúa þær sér að næsta fórnarlambi. Allt gengur eins og í sögu þar til Paige brýtur meginreglu þeirra mæðgna og verður ástfangin í alvöru af ungum barþjóni. Núna þarf Maxine að passa upp á að missa ekki dótturina og besta glæpafélaga sem hún mun nokkurn tíma eignast auk þess sem hún situr uppi gift hinum miður geðslega milljarðamæringi William Tensy.

Hollywood-uppeldi
Handritshöfundur myndarinnar Postcards from the Edge og bókarinnar sem hún er byggð á er engin önnur en leikkonan Carrie Fisher. Í myndinni er sagt frá leikkonunni Suzanne sem er nýkomin af meðferðarstofnun vegna eiturlyfjafíknar. Hún neyðist til að flytja aftur heim til móður sinnar sem hún sagði skilið við fyrir mörgum árum. Suzanne lifði í skugga móður sinnar alla sína æsku en Doris er hávær, stjórnsöm, sjálfhverf og með mikið keppnisskap. Hún á það til að gefa dóttur sinni góð ráð, hvort sem hún sækist eftir því eða ekki. Myndin er mjög kómísk og Meryl Streep og Shirley Maclaine fara á kostum í hlutverki mæðgnanna. Margar getgátur hafa verið uppi um það hvort samband mæðgnanna væri byggt á sambandi Carrie Fisher og móður hennar Debbie Reynolds en Carrie neitaði því alla tíð.

Ólíkar en samrýndar
Myndin Anywhere but Here sýnir hversu ólíkar mæðgur geta oft verið. Adele August er sérvitur kona sem fær einn góðan veðurdag alveg nóg af litla bænum sem hún býr í. Hún yfirgefur fjölskylduna og annan eiginmann sinn og flytur til Beverly Hills ásamt dóttur sinni. Hún gerir það til að láta óræða og óraunhæfa drauma sína rætast. Dóttir hennar Ann er alls ekki sátt við flutningana eða við litríka hegðun móður sinnar. Adele skráir Ann í gagnfræðiskóla í Beverly Hills með það fyrir augum að hún kynnist börnum frægra leikara, fari síðan í UCLA og verði leikkona sjálf. Ann er hins vegar staðráðin í því að fara í háskóla á austurströndinni. Á endanum sættast þær hvor við aðra og læra að meta hversu ólíkar þær eru.

Texti / Hildur Friðriksdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -