Anna Þorsteinsdóttir er 28 ára gömul sveitastelpa frá Grundarfirði. Hún er að eigin sögn sjálfstæð móðir en sonur hennar, Bergþór, er þriggja ára gamall. Anna starfar sem íþróttakennari í augnablikinu en samhliða því býður hún upp á ráðgjöf og fjarþjálfun auk þess að halda úti snapchat-aðganginum Engar öfgar.
Fram undan eru spennandi tímar hjá Önnu og Bergþóri en í sumar munu mæðginin flytjast búferlum til Danmerkur þar sem Anna sest á skólabekk í matvæla- og næringarfræði. Anna er með B.Sc-gráðu í íþróttafræði með áherslu á lýðheilsu og M.Ed í heilsuþjálfun og kennslu. Með náminu í Danmörku ætlar hún sér að öðlast dýpri þekkingu á þeirri vitneskju sem hún hefur öðlast undanfarin ár. „Ég er svo tilbúin í breytingu. Ég er samt alveg viss um að þegar nær dregur fer stressið að koma hægt og rólega, en held að það verði gott stress. Við mæðginin erum að fara út í þetta ævintýri saman og sonurinn er alveg gríðarlega spenntur líka. Hann vissulega gerir sér ekki alveg grein fyrir þessu enn en hann er alveg jafnfélagslyndur og mamman þannig hann verður að öllum líkindum fljótur að aðlagast og eignast nýja vini.“ segir Anna.
„Engar öfgar“ ekki bara notendanafn heldur lífsspeki
Anna heldur úti mjög virkum snapchat-aðgangi þar sem hún er dugleg að deila með fylgjendum sínum ýmsum ráðum varðandi heilsusamlegan lífstíl, undir notendanafninu Engar öfgar. Hún segist hafa ákveðið notendanafnið löngu áður en hún vissi hvað hún ætlaði að gera við það. „Ég upplifði, eins og svo margir aðrir, svo mikið áreiti frá samfélagsmiðlum, fjölmiðlum og annars staðar varðandi „heilsu“vörur og ranghugmyndir um hvað er hollt og gott fyrir líkamann. Í mörg ár hafði ég leitað leiða hvernig ég gæti aðstoðað fólk við að fá góðar upplýsingar um þetta málefni sem er ekki smitað af auglýsingum fæðubótarefnafyrirtækja og öðrum mýtum eða röngum staðhæfingum. En hvernig ég ætti að gera það vissi ég ekki, en hafði hugsað það í heilt ár ár að opna snappið áður en ég lét svo verða af því. Ég þurfti tíma til að hugsa um hvort ég í raun vildi opna líf mitt svona og hvort þetta væri leiðin sem ég ætlaði að fara. Svo ákvað ég bara að slá til og þá fór boltinn fljótt að rúlla.“
Anna segir Engar öfgar í raun vera ekki aðeins notandanafn heldur sé það einnig hennar mottó. „Það þarf ekki að fara í átak eða keyra allt á fullt í dramatískar og skammlífar lífsstílsbreytingar til þess að bæta heilsu sína. Það þarf ekki að kaupa öll flottustu fæðubótarefnin til þess að ná árangri í þyngdarstjórnun eða bæta líkamlegt atgervi. Til dæmis vegna þeirrar staðreyndar að rannsóknir sýna að um og yfir 90% af þeim sem ná marktækum árangri í þyngdarmissi á stuttum tíma bæta á sig aftur og oft meira til. En samt eru allir alltaf að fara í átak og byrja að koma sér „í form“. Ég missti sjálf um 20 kg bara með því að gera smávægilegar breytingar hér og þar í mataræðinu og auka hreyfingu.
Það er líka alveg ótrúlegt hvað andleg vellíðan gerir fyrir mann líkamlega.“
Æfir með syninum
Anna er, eins og áður kom fram, sjálfstæð móðir en hún er hrifnari af því orðalagi frekar en að kallast einstæð. Ásamt því að vera í fullu starfi sem íþróttakennari heldur hún úti fjarráðgjöf og þjálfun en þrátt fyrir það segist hún ekki vera í vandræðum með að bæta hreyfingu inn í daglega rútínu.
„Ég er auðvitað mjög bundin þegar vinnu er lokið og um helgar með son minn, en ég er einnig mjög dugleg að nýta þann tíma sem gefst hér og þar. Til dæmis nota ég hádegishléin í vinnunni eða vakna fyrr á morgnana og tek æfingu heima. Um helgar, ef veður leyfir, fer ég út með kerruna og soninn, tek með mér ketilbjöllu og skelli í nokkrar æfingar á leikvellinum. Ég fer í kapp við soninn og leyfi honum að vera með í hinum og þessum æfingum. Hnébeygja með 15 kg barn á öxlunum er erfiðara en að segja það,“ segir Anna og bætir við að heimaæfingar séu hennar tebolli. „Ég elska að geta gert æfingar heima og þurfa ekki að stressast við að fara út í Reykjavíkurumferðina til og frá æfingu. Ég leyfi mér þó einu sinni í viku að fara á crossfit-æfingu og strákurinn fer í barnagæsluna sem honum þykir ekki leiðinlegt. En fólk talar alltaf um að maður þurfi að vera mjög skipulagður með hreyfingu ef maður ætli að ná að hreyfa sig, þegar maður er einn með barn. Ég er ekki alveg sammála, of miklar áætlanir gera mig bara stressaða. Ég er hrifnari af því að vera ávallt tilbúin með hlaupagallann í bílnum eða hafa heimaæfingadótið aðgengilegt. Þá er líklegra að ég grípi tækifærin þegar þau gefast í staðinn fyrir að búa til skipulag sem mér tekst ekki að standa við.“
Lestu ítarlegra viðtal við Önnu í 19.tölublaði Vikunnar.