Margir gera erfðaskrár til að koma hinsta vilja sínum á framfæri. Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár og hér má lesa um nokkrar þeirra.
Milljónir í hundana
Eleanor E. Ritchey arfleiddi hunda sína að 4,5 milljónum dollara þegar hún lést árið 1968 í Flórída. Deilt var um erfðaskrána en hún var staðfest. Fimm árum seinna hafði sjóðurinn bólgnað og fengu hundarnir 9 milljón dollara en þegar erfðaskráin var endanlega staðfest var sjóðurinn kominn upp í 14 milljónir. Þá voru aðeins 73 hundar enn á lífi. Þegar sá síðasti stökk á vit feðra sinna rann sjóðurinn til Auburn-háskólans, í rannsóknir á dýrasjúkdómum.
Engin pyntingatól á gröfina!
Leikritaskáldið George Bernard Shaw lést árið 1950. Hann var mikill áhugamaður um enska tungu og hafði búið til 40 stafa stafróf sem hann taldi að gerði alla stafsetningu mun auðveldari. Hann vildi að hluti eigna hans rynni í þetta verkefni en dómari sagði það síðar ógerlegt. Fénu var skipt í þrennt og rann til British Museum, National Gallery of Ireland og Royal Academy of Dramatic Art. Hinsta ósk hans var að jarðarför hans yrði ekki gerð að kristnum sið og að á legsteini hans yrði ekki kross eða neins konar tól tengd pyntingum eða tákn um blóðugar fórnir.
Kvöldverður fyrir þau látnu
John Bowman lést árið 1891. Hann var ekkill og dætur hans tvær voru einnig látnar. John var fullviss um að fjölskyldan myndi í sameiningu endurholdgast síðar. Hann stofnaði sjóð með 50 þúsund dollurum til að hægt væri að borga þjónustufólki til að halda yfir 20 herbergja setri hans við. Síðasta ósk hans var að kvöldverður yrði eldaður og framreiddur daglega ef þau væru glorhungruð þegar þau sneru aftur. Ósk hans var uppfyllt þar til sjóðurinn var uppurinn sem var árið 1950.
Brjálað partí
Janis Joplin söngkona lést árið 1970, 27 ára gömul. Tveimur dögum fyrir dauða sinn breytti hún erfðaskrá sinni. Hún vildi að 2500 dollarar færu í sérstakt „eftir dauða-partí“ fyrir 200 manns. Það ætti að standa heila nótt á uppáhaldspöbbnum hennar í San Anselmo í Kaliforníu. „… svo vinir mínir geti djammað ærlega eftir að ég er farin.“
„… fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei“
Anthony Scott: „Til fyrstu eiginkonu minnar, Sue, sem ég lofaði alltaf að minnast á í erfðaskrá minni: Halló, Sue!“
Edith S frá Walsall: „Börn mín, Roger, Helen og Patricia, fá 50 þúsund pund í sinn hlut og mega ekki eyða þeim í hægfara hesta eða hraðskreiðar konur og bara örlitlu í áfengi.“
Sara Clarke frá Bournmouth: „Ég arfleiði dóttur mína að einu sterlingspundi, fyrir alla þá ást og góðvild sem hún sýndi mér aldrei.“
Henry Budd, d. 1862: „Ég arfleiði syni mína tvo að 200 þúsund pundum með því skilyrði að þeir láti sér aldrei vaxa yfirvaraskegg.“ Annar maður, Matthias Flemming (d. 1869), hafði andúð á slíkum skeggjum og arfleiddi hvern skegglausan starfsmann sinn að tíu pundum en þeir sem voru með yfirvaraskegg fengu þó fimm pund hver í sinn hlut.
Ónefndur maður arfleiddi starfsmenn sína að einum skildingi svo þeir gætu keypt sér bók um mannasiði.
Amy T. frá Doncaster arfleiddi dýraverndunarfélag að 500 pundum og bað um að peningarnir yrðu notaðir til að gefa hundum í þess umsjá dýrlega jólamáltíð.
Norman Earnest Digweed átti verðmæta húseign sem metin var á 26 þúsund pund árið 1893 þegar hann lést. Hann arfleiddi Jesú Krist að henni ef svo færi að Jesús sneri aftur innan 80 ára. Nokkrir Jesúsar gerðu tilkall til hússins sem engu að síður rann til breska ríkisins árið 1977, þegar 80 ár voru liðin frá dauða Normans.
Kona nokkur arfleiddi heittelskaðan kött sinn að eigum sínum, meðal annars húseign. Jarðarför konunnar var haldin á fallegum sumardegi. Arfþeginn lá og sólaði sig í innkeyrslunni þegar einn syrgjendanna ók óvart yfir hann á leið í erfidrykkjuna.
Aðalmynd: Ýmsar skrautlegar og óvenjulegar óskir hafa verið settar í erfðaskrár.