Þriðjudagur 25. júní, 2024
7.7 C
Reykjavik

Sjálfs er höndin hollust

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Sjáið´i! Við erum með geislasverð!“ æpti dóttir mín þar sem hún kom hlaupandi fram úr svefnherberginu mínu með fjólubláa kanínutitrarann minn í annarri hendi og systir hennar á eftir með annan kolbikasvartan og rifflaðan. Þær áttuðu sig auðvitað ekki á því að þær héldu alls ekki á geislasverðum en veislugestirnir áttuðu sig strax.

 

Já, ég átti eftir að minnast á að þetta gerðist í miðju afmælisboði og þarna voru meðal annars foreldrar mínir og afi og amma og fleiri ágætir gestir. Og jú, mikið rétt. Það var auðvitað búið að kveikja á kanínutitraranum sem lýstist upp innan frá og gaf frá sér hljóð þar sem hann snerist og titraði. Geislasverðin svokölluðu vöktu reyndar kátínu meðal flestra en móðir mín hafði engan húmor fyrir þessu og skildi ekki í mér að geyma ekki svona lagað á stað þar sem börn ná ekki til.

Þetta er auðvitað fyndið núna þegar ég hugsa til baka en mér fannst þetta ekkert voðalega fyndið á þessu augnabliki. Þið getið líka ímyndað ykkur hvort bróðir minn hafi ekki verið glaður að geta strítt mér á þessu lengi á eftir, og gerir reyndar enn, og vinkonur mínar taka auðvitað kast í hvert sinn sem þetta er rifjað upp. Enda eru afmælisveislur hjá mér ekki kallaðar neitt annað en kynlífstækjakynningar eftir þetta. Það þótti auðvitað ekki síður fyndið en geislasverðin svokölluðu að ég hafði bakað afmælisköku sem var eins og kanínuhaus, alveg óvart í stíl við kanínutitrarann.

Sóðastelpa

Ef þú átt móður sem lætur eins og mín getur stundum látið, gætirðu fundið fyrir samviskubiti við það að eiga gæðastund með sjálfri/sjálfum þér. Mamma sagði til dæmis bróður mínum að typpið á honum myndi minnka og jafnvel detta af ef hann væri að stunda þennan ósóma sem sjálfsfróun að hennar mati var (og er ábyggilega enn). Það tók mig alveg dágóðan tíma að hætta að hugsa um sjálfsfróun sem eitthvað ljótt og ógeðslegt og ég veit um fólk sem hefur hreinlega þurft að ræða svipaða hluti hjá sálfræðingi. Svona hugarfar getur haft alls kyns áhrif, þar á meðal á kynlíf sem maður stundar með öðrum.

Ég man að ég henti fyrsta titraranum sem ég keypti mér. Ég var búin að nota hann nokkrum sinnum þegar hann fékk að fljúga í ruslið. Ég henti honum samt ekki af því að hann væri úr sér genginn heldur af því að ég skammaðist mín fyrir að nota hann. Fannst þetta allt í einu eitthvað ljótt og sóðalegt. Ég er ekki frá því að ég hafi heyrt í henni móður minni segja eitthvað á borð við: Þótt fyrr hefði verið, sóðastelpa! En svo því sé haldið til haga, þá er hún móðir mín alveg yndisleg þótt ég stórefi að hún hafi nokkurn tíma „snert sig þarna niðri“ fyrir framan hann föður minn og hún lítur pottþétt á sjálfsfróun sem eina af höfuðsyndunum.

- Auglýsing -

Sjálfsfróun er hið besta mál

Rannsóknir hafa sýnt fram á að meirihluti fólks stundar sjálfsfróun. Ég man eftir að hafa séð niðurstöður rannsóknar í tímaritinu Journal of Sexual Medicine og þar sögðust rúmlega 90% karlanna sem tóku þátt í rannsókninni og rúmlega 80% kvennanna stunda sjálfsfróun. Enda gerir hún okkur bara gott. Jafnvel þótt við séum í sambandi er hún hið besta mál. Og nei, sjálfsfróun veldur því ekki að á okkur vaxi aukafingur eða að typpið detti af, eins og sumir vilja kannski meina í hræðsluáróðri sínum í uppeldi barna. Sjálfsfróun er fyrir það fyrsta öruggasta kynlífið; kona á hvorki á hættu að verða ólétt né karlmaður að barna einhverja og það er ekki hætta á að smita sjálfan sig af kynsjúkdómi þegar hún er stunduð. Aftur á móti getur hún til dæmis minnkað streitu, hjálpað manni að sofa betur, styrkt grindarbotninn og losað um kynferðislega spennu.

Sjálfsfróun getur líka hjálpað manni að átta sig á því hvað manni finnst gott í kynlífi og hvað örvar mann kynferðislega. Sem er til bóta þegar maður stundar kynlíf með öðrum því þegar maður veit hvað maður fílar og hvað þarf til að maður nái fullnægingu er auðveldara að leiðbeina og segja bólfélaganum til um það hvað manni finnst gott.

- Auglýsing -

Titrandi nærbuxur

Höndin getur orðið þreytt og þess vegna er fínt að nýta sér tæknina og nýjustu græjurnar.

Sjálfs er höndin hollust, segir máltækið. En höndin getur orðið þreytt og þess vegna er fínt að nýta sér tæknina og nýjustu græjurnar. Í dag er ekkert mál að finna sér kynlífstæki við hæfi og hægt að kaupa þau á Netinu án þess að sendilinn einu sinni gruni hvað sé í pakkanum þegar hann keyrir hann upp að dyrum.

Versta er að þau geta verið dálítið dýr svo það er alltaf smááhætta sem maður tekur við að kaupa sér eitthvert tæki án þess að vita hvort það henti manni. En ég er dugleg að lesa mér til á Netinu og leita á Google. Það er fullt af konum (og sjálfsagt körlum líka) sem eru að prófa þessar græjur og skrifa um sína upplifun, góða og slæma.

„Einn af mínum fyrrverandi bólfélögum gaf mér nærbuxur með innbyggðum titrara sem hann stjórnaði með fjarstýringu.“

Mér finnst til dæmis skipta máli að það sé gott að þrífa kynlífstækin mín og að þau séu ekki mjög hávær. Það getur alveg eyðilagt stemninguna að hlusta á hávært suðið í þeim, jafnvel svo hátt að það heyrist á milli herbergja. Einn af mínum fyrrverandi bólfélögum gaf mér nærbuxur með innbyggðum titrara sem hann stjórnaði með fjarstýringu. Það var skemmtileg upplifun að klæðast þeim naríum. Hann manaði mig eitt sinn til að vera í þeim á tónleikum sem við vorum boðin á í Hörpu á vegum vinnunnar hans. Mér leið dálítið eins og Abby í kvikmyndinni The Ugly Truth, þegar hún klæddist slíkum nærbuxum og krakkinn náði í fjarstýringuna.

Löngu hætt að nenna þessu fikti

Ekki eru þó allar konur sem stunda sjálfsfróun og það geta verið margvíslegar ástæður fyrir því. Kynlífsráðgjafinn Lucy Beresford segir að ein aðalástæðan sé lítil kynlífshvöt en það geti einnig verið vegna þess að konur finni fyrir skömm eða hreinlega langi það bara ekki eða kunni það jafnvel ekki.

Ein vinkona mín segist löngu hætt að nenna öllu svona fikti við sjálfa sig. Hún kjósi frekar að slaka á yfir Grey’s Anatomy eða yfir eldamennskunni í eldhúsinu (hvernig sem hún fer nú að því að finna slökun í því). Hún hefur þó sagt mér að hún hafi fundið fyrir fordómum nokkurra vinkvenna þegar hún sagðist ekki nenna á kynlífstækjakynningu sem vinkvennahópurinn ætlaði að bóka fyrir gæsapartí. Hún hafi fengið að heyra það að hún væri tepra og þar fram eftir götunum. 

Fólk má auðvitað hafa hlutina nákvæmlega eins og það vill, eða vill ekki. Í stuttu máli sagt mælir ekkert á móti sjálfsfróun. Ekki neitt. Þú getur fróað þér einu sinni í viku, einu sinni á dag, einu sinni í mánuði eða aldrei. Já, það er líka í lagi að stunda aldrei sjálfsfróun; það er engin kvöð að gera það og sjálfsfróunar er ekki getið í neinum lögum sem Alþingi hefur sett.

Sjálfsfróun getur þó orðið of mikið af hinu góða og ef hún er farin að þvælast fyrir þér í daglegu lífi; er til dæmis farin að hafa áhrif á vinnuna, félagslífið eða eitthvað slíkt og er farin að valda þér áhyggjum, ættirðu kannski að leita til fagaðila.

Vissir þú?

  • -Að á tímum Forn-Grikkja var talið að móðursýki (e. hysteria, dregið af gríska orðinu uterus sem merkir móðurlíf) ylli þreytu, taugaveiklun og þunglyndi hjá konum. Gervigetnaðarlimir voru notaðir til lækninga þar sem dregin var sú ályktun að kvillarnir tengdust móðurlífinu.
  • -Að þótt annað mætti halda taldist það hvorki sjálfsfróun né nokkuð kynferðislegt að örva snípinn á Viktoríutímanum heldur var það talið lækningameðal við móðursýki, rétt eins og hjá Forn-Grikkjum. Því fengu konur svokallað mjaðmanudd. Lækningin sem fékkst við mjaðmanuddið virkaði auðvitað bara í takmarkaðan tíma svo þær móðursjúku urðu því fastakúnnar hjá þeim sem buðu upp á slíkt nudd.
  • -Um miðja nítjándu öld flykktust konur í heilsulindir til að fara í svokölluð mjaðmaböð þar sem vatnsbunu var beint milli fóta þeirra og sögðust koma þaðan út jafnkátar og -glaðar og hefðu þær drukkið kampavín.
  • -Fyrsti titrarinn kom fram á sjónvarsviðið árið 1869 og var gufuknúinn. Titrararnir héldu áfram að þróast, í lækningalegum tilgangi, og fóru úr því að vera risastórir og níðþungir yfir í það að vera fisléttir og jafnvel pínulitlir. Svo litlir að við konur getum haft einn slíkan í samkvæmisveskinu, ef ske kynni að við fengjum einhvers konar móðursýkiskast.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -