Miðvikudagur 22. maí, 2024
5.8 C
Reykjavik

„Skíðin verið hluti af lífinu frá því ég man eftir mér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elsa Guðrún Jónsdóttir keppti fyrir Íslands hönd á vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang þrátt fyrir að lítill snjór hafi fallið í heimabæ hennar, Ólafsfirði á undirbúningstímanum.

Elsa Guðrún er hörkudugleg, þrjátíu og tveggja ára kona. Enginn Íslendingur getur státað af jafngóðum árangri á skíðum og hún, en hún á yfir fimmtíu Íslandsmeistaratitla í skíðagöngu að baki. Elsa keppti á Ólympíuleikunum í greininni í febrúar síðastliðnum og varð þar með fyrsta íslenska konan til að ná þeim árangri. Þrátt fyrir erfiðar æfingaaðstæður tókst henni að þjálfa sig fyrir keppnina, samhliða því að vera í fullri vinnu og með fjölskyldu.

Elsa býr ásamt fjölskyldu sinni á Ólafsfirði. Þau hjónin hafa verið saman frá unglingsárum, en maðurinn hennar, Kristófer Beck, er sjómaður. Þau eiga tvö börn, níu og sjö ára. Elsa hefur að eigin sögn alltaf verið mikil íþróttamanneskja. „Ég æfði fótbolta þegar ég var yngri og var mikið í fjallgöngum, í hlaupum og á hjólaskíðum á sumrin og skíðum á veturna. Skíðin hafa verið partur af mínu lífi síðan ég man eftir mér. Pabbi var á fullu í þessu þegar hann var ungur, varð Íslandsmeistari nokkrum sinnum og fór á heimsmeistaramót. Öll systkini hans æfðu íþróttina og bróðir hans fór eitt sinn á Ólympíuleikana. Pabbi fylgdi mér á öll mót og æfingar, hann þjálfaði okkur krakkana stundum og var alltaf til taks og fylgir mér enn þann dag í dag. Hann var til dæmis með mér núna á Skíðamóti Íslands í Reykjavík í fjóra daga og sá um skíðin mín frá a-ö og stóð út í braut að hvetja mig. Má segja hann vera minn helsta stuðningsmann.“

Pressa að vinna allar keppnir

Skíðaferill Elsu byrjaði um fimm ára aldur og frá fyrstu keppni var hún sigursæl. „Þegar ég keppti í fyrsta sinn sigraði ég og hélt því svo bara áfram næstu árin. Ég var með rosalegt keppnisskap og var með á öllum Andrésarleikum, unglingameistaramótum, bikarmótum og landsmótum. Í raun man ég ekki eftir einni keppni sem ég sleppti eða komst ekki á vegna veikinda.“ Elsa segist hafa þróað með sér gríðarlega pressu á sjálfa sig að hún yrði að vinna allar keppnir. En um tvítugt kom að því að hún datt í sprettgöngu á Íslandsmeistaramóti. „Þá fann ég fyrir vissum létti. Það var eins og ég hefði losnað undan pressu sem ég hélt að allir hefðu á mér en var í raun og veru bara pressa frá mér sjálfri.“

Ítarlegra viðtal við Elsu Guðrúnu má finna í nýjasta tölublaði Vikunnar, en þar segir hún frá undirbúningnum fyrir Ólympíuleikana og ævintýrinu í Suður-Kóreu.

Texti: Margrét Björk Jónsdóttir

- Auglýsing -

Myndir og myndvinnsla: Aldís Pálsdóttir

Förðun: Björg Alfreðsdóttir, National Make Up Artist fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -